þriðjudagur, október 30, 2007

Þá er ég meira en lítið fallin

Ég hef nú alltaf verið hálf skotin í spinning kennaranum mínum, en í kvöld kolféll ég alveg. Ég hef mjög gaman af spinning og mæti reglulega í tíma til að halda blóðinu á hreyfingu, og oftast er það hjá þessum unga manni. Ég er búin að hjóla hjá honum í ár núna (ekki að árangurinn sé sjáanlegur, en það er önnur saga) og það er alltaf jafn gaman að mæta.

Hann er svolítið öðruvísi en hinir kennararanir. Þeir eru allir voða sporty töffarar, litlir, massaðir naggar sem öskra mann áfram og eiga það til að koma og þyngja á hjólinu hjá manni. Það er allt gott og blessað, gott að láta pína sig áfram, en ég kýs að hjóla hjá mínum manni. "Lítillátur, ljúfur, kátur" passar vel við hann. Með góðleg augu og bjartan svip. Segir skemmtilegar sögur af sjálfum sér, hleypur skoppandi um salinn og telur fyrir okkur taktinn; "Þetta er alveg eins og að dansa!" segir hann alltaf og hoppar frá öðrum fætinum yfir á hinn. Honum er mikið í mun að við höldum taktinn. Svo spilar hann alltaf svo skemmtilega tónlist, í sumar var hann með Madonnu þema þar sem við hjóluðum við uppáhalds Madonnu lögin hans. Seinna var hann líka með Justin Timberlake þema, í tilefni af því að hann var á leið á tónleika með honum í Parken. Svo finnst honum voða gaman að spjalla. Spyr okkur um eitthvað í hverjum tíma, eitthvað úr fréttunum, það sem er að gerast í bænum, hvað sem er. Hann yrðir reyndar sjaldan á mig (þó hann kíki nú stundum á mig) en lendir oft í hörku samræðum við Tinne, sextugan spinningfélaga minn. Hún er reyndar með króníska munnræpu svo það er varla hjá því komist að tala við hana. Hún talar við alla í ræktinni og þekkir flesta með nafni. Hvað um það.

Fyrir nokkrum mánuðum hélt hann eighties spinning. Ég var að vinna svo ég komst því miður ekki, en hann mætti með sítt að aftan brodda hárkollu og hjólaði með hana tvöfaldan tíma. Mjög svekkt að hafa misst af því. Minnisleysi hefur eitthvað verið að hrjá mig undanfarið svo ég mundi ekki eftir þema tímans í dag, en mundi það um leið og ég kem inn í salinn. Og þar með er komin ástæðan fyrir stórfalli mínu í kvöld; Þar stendur minn maður í rökkvuðum sal í skini kertaljósa í beinagrindarsamfestingi í óða önn að safna saman miðum. Ég brosti út að eyrum! Ekki minna spaugilegt hvað samfestingurinn var þröngur. Svo þegar tíminn byrjar toppar hann þetta gjörsamlega með því að draga yfir höfuðið á sér hauskúpu-lambhúshettu (bara göt fyrir augun) og setja upp beinagrindarhanska. Ég var ekki ein um það að hlæja mikið þá. Yndislegur maður. Hann hjólaði með árans lambhúshettuna allan tímann, ekki einu sinni gat fyrir munninn, og hegðaði sér ekkert öðruvísi en í venjulegum tíma. Snillingur. Það sem gerir þetta allt ennþá fyndnara er það að þessi maður vinnur ekki dags daglega sem spinningþjálfari...nei nei, hann er prestur!