laugardagur, mars 10, 2007



"Þér hafið alltaf átt þennan hest," sagði Adam.
"Hann er nú orðinn þrjátíu og þriggja ára gamall," sagði Samúel.
-"Tennurnar eru alveg útslitnar. Ég verð að gefa honum volga soppu og það með fingrunum. Og hann dreymir illa. Stundum skelfur hann og kjökrar í svefninum."
"Hann er sá ljótasti gamli jálkur, sem ég hef nokkru sinni séð," sagði Adam.
"Hann hefur alltaf ljótur verið. Það var víst þess vegna sem ég kaus mér hann, þegar hann var ungur foli. Vitið þið það, að ég gaf aðeins tvo dollara fyrir hann, fyrir þrjátíu og tveimur árum? Allt var gallað á honum, hófarnir eins og pönnukökur, ökklaliðirnir alltof gildir og stuttir. Hann var brattnefjaður og söðulbakaður, bringumjór og lendadigur. Og þegar maður situr á honum, er eins og maður hossist á sleða yfir malarhauga. Hann kann ekki að brokka og hnýtur í öðru hverju spori. Í öll þessi þrjátíu og tvö ár hef ég ekki orðið var við einn einasta góðan eiginleika í fari hans. Hann hefur auk þess marga hvimleiða galla. -Hann er þver og þrjóskur, illkvittinn og óhlýðinn. Til þessa dags er ég hræddur við að koma á bak honum, því að hann á það til að slá. Hann reynir að bíta í höndina á mér, þegar ég er að gefa honum mat. En mér þykir og mun þykja vænt um hann."
"Og svo nefnduð þér hann Doxology, sem þýðir "lofsöngur"," sagði Lee.
"Já, skepna sem var svo fáum kostum búin, varð að hafa eitthvað til að prýða sig með," sagði Samúel. -"Nú á hann ekki langt eftir."
"Þér ættuð kannski að binda endi á eymd hans," sagði Adam.
"Hvaða eymd?" spurði Samúel. "Hann er ein af þeim fáu hamingjusömu og ánægðu skepnum, sem ég hef þekkt."
"Hann hlýtur þó að vera bæði stirður og gigtveikur."
"Ekki álítur hann það sjálfur. Doxology heldur sig vera hreinasta úrvalsgæðing."

-Austan Eden, John Steinbeck