föstudagur, nóvember 26, 2004

Nú er rétti tíminn til að mjókka - kuldabrennsla

Einhverntíma viðraði ég þá kenningu mína að fólk mjókki frekar á veturna en sumrin. Ég tók eftir því á sjálfri mér að á veturna mjókkaði ég án þess að hafa neitt fyrir því en á sumrin fitnaði ég bara ef eitthvað væri. Ég reiknaði það út að þetta hlyti að stafa af því að á veturna brenndi líkaminn meiru til að reyna að halda á sér hita. Verst að þetta er ekki alveg að skila sér þennan veturinn, einmitt þegar maður þarf mest á því að halda. En allavega fékk ég þessa kenningu mína staðfesta í líffæra- og lífeðslisfræðinni í gær og var mjög ánægð með að vera svona über gáfuð. Þannig er nefnilega mál með (of)vexti að á veturna þegar manni er sífellt kalt, þá sendir heiladingullinn frá sér stýrihormón fyrir skjaldkirtilinn og bendir honum á að fara að framleiða meira af hormóninu þýroxíni, sem stuðlar að auknum efnaskiptum í líkamanum. Á sumrin þegar manni verður stöðugt hlýrra (kannski ekki svo mjög hér á skerinu, en stundum samt) minnkar skjaldkirtillinn framleiðslu á þýroxíni og á brennslunni hægist. Því segi ég við ykkur hina hlunkana þarna úti; ef þið viljið mjókka þá klæðið ykkur sem allra verst þið getið og stundið mikla útiveru!