miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Bólusetning

Komst að því í gær af hverju bólusetning er kölluð þetta. Það er nú af því í denn þegar bólusóttarfaraldrar geysuðu og leiddu menn ýmist til dauða eða skildu eftir varanleg lýti á húð þeirra, uppgötvaði hann Edward Jenner kallinn (1749-1823) að mjaltastúlkur og fleiri sem smituðust af kúabólu, sem er bólusótt meðal nautgripa, urðu ónæmar fyrir mannabólusóttinni og varð ekki meint af kúabólunni. Hann tók því upp á því að skrapa svolítið í húð manna og smyrja kúabóluveirunni þar í. Þetta var kallað að bólusetja og er notað enn í dag yfir allar, ja, bólusetningar;) Á ensku er bólusetning kölluð vaccination sem er dregið af latneska orðinu vacca sem þýðir kýr.
Svo ef einhverjir aðrir þarna úti voru jafn ófróðir um þetta og ég þá vitið þið þetta núna!