miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Öðruvísi tískusýning

Í okkar höndum - endum ofbeldi gegn konum

"Mig langaði til þess að kalla á hjálp, en ég var svo hrædd að ég kom ekki
upp orði." Úr dómi um heimilisofbeldi.

Laugardaginn 27. nóvember, klukkan 15.00 munu þjóðþekktar konur veita
Amnesty International á Íslandi lið og standa fyrir óhefðbundinni
tískusýningu í Iðu, Lækjargötu. Meðal þátttakenda í sýningunni eru þær
Unnur Ösp Stefánsdóttir, Margrét Eir Hjartardóttir, Guðrún Gísladóttir,
Elma Lísa Gunnarsdóttir, Laufey Brá Jónsdóttir og Katrín Jakobsdóttir og
munu þær koma fram í fötum frá Spútnik og Rögnu Fróða. Í sýningunni munu
konurnar segja frá íslenskum dómsmálum heimilisofbeldis og sýna áverka
slíks ofbeldis sem oftast eru huldir sjónum.

Sýningin er haldin sem hluti af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi er
stendur yfir frá 25. nóvember til 10. desember.

Tilefni sýningarinnar er að draga afleiðingar heimilisofbeldis, sem
sjaldnast eru sýnilegar, fram í dagsljósið og brjóta þagnarmúr þann sem
umkringir þetta samfélagsvandamál.