föstudagur, nóvember 19, 2004

Konukvöld Abaco

Ég fór á kvennakvöld Abaco á Vélsmiðjunni í gær klukkan 20. Það var nú eitthvað annað en Oddvitinn fékk ég að heyra því ég fór einmitt með mömmu og samstarfskonum hennar. Þetta var frábær skemmtun þar sem boðið var upp á Campari fordrykk og fullar skálar af Nachos, osta- og salsasósu og var fyllt á stöðugt allt kvöldið. Kvöldið byrjaði með fyrirlestri og slædsjóvi frá Ottó lýtalækni þar sem hann kynnti fyrir okkur fegrunaraðgerðir, það var magnað að sjá. Hann er búinn að búa í Bandaríkjunum í einhver ár og notaði þess vegna þvílíkar enskuslettur og fræddi okkur um það að í Bandaríkjunum væri sko enginn maður með mönnum (eða kona með konum) nema að eiga sinn eigin lýtalækni, það finnst mér algjör brandari. Á eftir lækninum kom svo hún Margrét Eir og söng nokkur lög, alveg er hún mögnuð konan, lifir sig svo skemmtilega inn í sönginn, og allir voru heillaðir af henni. Að því loknu var tískusýning frá GS Akureyri og Isabellu undirfataverslun sem stóð alveg fyrir sínu þrátt fyrir að fyrirsæturnar væru greinilega ekkert alltof vanar sýningarstörfum nema auðvitað hún Heiðrún fitness sem tók sig gríðarlega vel út á naríunum, jeminn eini þvílíkur kroppur! Svo kom karlakór Akureyrar Geysir í köflóttum skyrtum, gallabuxum girtum ofan í ullarsokka með húfur, axlabönd og vodkapela veltandi inn í salinn við mikinn fögnuð og reif upp stemmninguna og salurinn tók vel undir í söng og klappi, skemmti mér mjög vel þar! Í lokin var svo magadanssýning og happdrætti þar sem ég vann ekkert, en allir sem tengdust Abaco á einhvern hátt unnu, meira að segja eiginkona eigandans, frekar dularfullt;) Já og mig langar þokkalega að læra magadans núna, held það eigi mjög vel við mig, meira að segja bara kostur að hafa soldinn maga svo ég er perfect kandidat í það. Við ma brunuðum svo hífaðar og í gleðivímu heim um hálf tólf, ætluðum nú að koma við á Oddvitanum í einn öller fyrir heimferð, en því miður var lokað...;)

Já svona í lokin, það var alveg magnað að fylgjast með lýtalækninum það sem eftir var kvöldsins, hann gekk á milli borða, settist á chattið við einhverjar konur, var greinilega að krækja sér í kúnna, slísí bastard, og þegar við löbbuðum út stóð hann með konu við barinn og hélt undir hökuna á henni og horfði á hana rannsakandi augum. *Brrrrrr*