miðvikudagur, mars 23, 2005

Mér blöskrar!

Við fjögurra barna móðirin skruppum í Bónus með litlu tvíbbastelpurnar áðan. Það mætti halda að mjólkin sé enn gefins miðað við örtröðina sem var þar. Við brutumst áfram með fullt af kerrum og gripum það sem við náðum í og komum loks titrandi, úfnar og sveittar út, hlaðnar pokum og börnum. Það merkilegasta við þessa ferð fannst mér hvað fólk getur verið dæmalaust ókurteist; Það keyrir á mann, svínar á mann, hleypir manni ekki að körfunum (jafnvel þó það séu ungabörn í þeim), treðst og ýtir og enginn biðst afsökunar á einu eða neinu. Ég sjálf var á "fyrirgefðinu" af og til og beið jafnvel eftir að komast að án þess að ýta og troðast. Í bílnum ræddum við svo um kurteisi svona almennt og komumst að því að fólk á bágt! Konan hefur lent í því að vera að koma heim með öll börnin og poka og pinkla, og fleira fólk er á leiðinni inn á sama tíma, en nei það getur ekki séð af tíu sekúndum til að bíða eftir henni og halda dyrunum opnum, heldur skellur hurðin á nefið á henni. Hversu oft hefur maður ekki lent í einhverju svona? Dettur í hug atvik í fyrra er ég kom út úr Ríkinu með kassa af bjór og rauðvín og fleira fyrir afmælið mitt. Ég var búin að opna skottið á bílnum til að vera reddí en það vill svo illa til að það lokast. Það var fljúgandi hálka úti og bílnum lagt í smá halla og ég ætlaði að reyna að opna bílinn og koma varningnum inn en það var bara engan veginn að ganga. Ég var þarna í stökustu vandræðum með að opna bílinn, alveg að fljúga á hausinn með allt í fanginu, og rétt hjá stóð hópur af fólki að spjalla saman og horfa á mig... og ekki datt einum einasta manni í hug að aðstoða mig, ó nei!

En mikið var ég ánægð þegar ég kom svo heim, pirruð útí ókurteisingja, með fimm poka í höndunum og eldhúsrúllur undir arminum, að sjá ókunnugan mann koma stökkvandi til mín til að opna fyrir mig dyrnar...og ekki bara einar dyr heldur tvær!