mánudagur, mars 14, 2005

Ýmislegt á seyði sko!

Ég missti af fyrsta þættinum af Desperate Housewives á fimmtudaginn var, svo kallinn var látinn sækja hann á netið. Að sjálfsögðu sótti hann þá alla seríuna, svo um helgina er ég búin að sitja límd við skjáinn og hef horft á 9 fyrstu þættina...ég verð svo auðveldlega húkkt á svona þáttum að það er með ólíkindum. Sem sagt alveg magnaðir þættir sem ég mæli eindregið með að þið kíkið á. Þess vegna meðal annars er ég ekki búin að blogga síðan á föstudaginn og einnig vegna vinnu og krónískrar leti.

Ég var að reikna út vinnutímana mína í gær vegna skattamála og komst að því að ég vinn 45 stundir á viku sem er rúmlega 100% vinna. Það kom mér á óvart. Gallup er nú ekkert skemmtilegasti kosturinn á vinnumarkaðinum en ég sem sagt vinn þar 20 tíma á viku sem ætti að vera nóg til að fá hvern heilbrigðan mann til að reita hár sitt og skegg. En svona er ég bara dugleg;)

Og já JEMINN aðalfréttirnar mega ekki gleymast! Oprah ætlar að gera þátt um íslenskar konur! Haldiði að það sé nú! Hún kemur að vísu ekki sjálf til Íslands, en hvur veit, kannski að Selma Björns og Ragnhildur Steinunn fegurðardrottning komi í þættinum? Helvedes klíkuskapur að fá að hitta eða koma fram í þættinum hennar Opruh, ha?! Mér finnst hún eigi að gera meiri svona desperate houswives þátt um íslenskar konur og tala við okkur stelpurnar sem erum með músagrátt hár, íbúðina á hvolfi, vinnum innantóma vinnu fyrir lúsarlaun og berjumst gegnum þvöguna í Bónus til að fá fría mjólk fyrir gríslingana okkar. Það myndi lýsa betur hinni almennu íslensku konu en Selma Björnsdóttir tilvonandi tvöfaldur Eurovisionfari með meiru og hin íðilfagra Ragnhildur Steinunn bjútíkvín og sjónvarpsþáttastjórnandi, einnig með meiru.