miðvikudagur, mars 02, 2005

Kastljóss fúsk

Pabbi sagði mér í dag af hverju Kristján Jóhannsson var svona reiður og dónalegur í fræga Kastljósþættinum sem gerði hann að einum hataðasta manni landsins. Málið var nefnilega að hann vildi ekkert koma í Kastljósið til að réttlæta það að hann fengi borgað fyrir vinnuna sína svo hún Eyrún bauð honum að koma og kynna nýja diskinn sinn í staðinn. Þegar viðtalið svo hefst er hann bara yfirheyrður um þennan skitna 700 þúsund kall sem hann fékk fyrir að koma frá Ítalíu og syngja á tvennum tónleikum og ekki svo mikið sem minnst einu orði á diskinn hans. Það er ástæðan fyrir því að hann hélt á disknum sínum og spurði endalaust hvort þau vildu ekki vita eitthvað um hann! Myndi maður ekki verða þokkalega fúll yfir svona framkomu og jafnvel bauna á þáttastýruna að hún væri orðin rauð á brjóstunum þegar maður er hreinlega gabbaður í sjónvarpsviðtal á fölskum forsendum? Ef maðurinn væri ennþá talandi á íslensku hefði hann ef til vill getað orðað hlutina betur og jafnvel minnst á ástæðu þess að hann væri staddur þarna, en greyið maðurinn er auðvitað bara ótalandi á frónskunni;) Ég ætla annars ekkert að fara nánar út í það hvort maðurinn sé almennt kurteis og skemmtilegur dags daglega, en svona er allavega í pottinn búið með þetta fræga sjónvarpsviðtal.
Þetta er fengið eftir mjög áreiðanlegum heimildum nota bene.