laugardagur, mars 15, 2008

Draumfarir

Mér finnst fátt hallærislegra í bíómyndum en þegar fólk er með martröð og rýkur upp öskrandi og vælandi. Það er mjög svo óraunverulegt. Hver sest upp öskrandi í svefni?

Ja...sei sei. Ég hef upplifað það tvisvar á þessu ári að ég hef vaknað við að ég öskraði. Mig var að dreyma eitthvað frekar óþægilegt og öskraði í drauminum, og vaknaði svo við það að ég var að öskra upp úr svefni. Alls ekki þægilegt. Og miðað við hvað það er hljóðbært í húsinu hérna þá efast ég um að nágrönnunum hafi þótt það þægilegt!

Ég er þó lamb í svefni miðað við uppáhalds svefnfólkið mitt, Marianne og John. Þau eru alveg sér á báti. Reglulega kemur M með yndislegar sögur af þeim skötuhjúum. Um daginn fór M með hitapoka í rúmið. J kom heim um nóttina úr keppnisferð og steinsofnaði fljótt. M vaknaði stuttu síðar við það að J reis upp í rúminu og hristi hana og hrópaði:"Hvað ertu að gera með kartöflupoka í rúminu kona!!!!!!!" Nóttina á eftir var M að dreyma að hún fengi body peeling á Skodsborg. Henni fannst hún ansi klístruð svo hún ákvað í draumnum að fara í sturtu. Hún vaknaði svo í baðherbergisdyrunum ansi gleiðfætt með handleggina út í loftið...hún var jú svo klístruð öll;)

Í sameiningu hafa þau einnig í svefni farið fram í stofu og sótt pullurnar úr sófanum og hlaðið þeim í rúmið. Man ekki alveg hvers vegna.

Ég rifja upp fleiri svefn atvik meðan ég skrifa þetta. Árni maðurinn hennar Gerðar vinkonu minnar átti fyrir mörgum árum eitt gott. Gerður vaknar við það að Árni er að brjóta saman sængurnar þeirra og stafla þeim upp ásamt koddunum.. G spyr hvað hann sé eiginlega að gera. "Ég þarf að gera pláss fyrir dverginn!!" segir Árni. "Dvergurinn verður að hafa pláss!!".

Svenni sem ég vann með á vegagerðinni var mikill svefngengill í æsku...átti það til að fara út í garð og dansa í kringum snúrustaurinn. Ég var sem betur fer laus við allt svoleiðis í okkar mælingaferðum, en ekki var ég laus við talið upp úr svefni. Hjá honum Benna á Kópaskeri gistum við oft í sama herbergi og vaknaði ég reglulega við ræðuhöld. Það eins sem ég man eftir, sökum svefndrunga, er þessi setning...eftir smá ágreining okkar á milli daginn áður;"Þú verður að læra...að fara eftir SKIIPUNUM!!!". Þá hló mín.