laugardagur, júlí 30, 2005

Jehú!

Loksins er verzló gengin í garð! Ekki til að geta tjúttað sem mest, heldur fæ ég loksins þriggja daga helgi sem mig hefur dreymt um síðustu mánuði:) Þessar venjulegu tveggja daga helgar eru einfaldlega of stuttar þegar maður vinnur á fjöllum alla virka daga, þær líða alltof hratt! Hugmyndin var sú að gera eitthvað nytsamlegt eins og að pakka og þrífa og standa í íbúðabraski, en ekki byrjar það vel, sofnaði klukkan níu í gær og var að skríða undan feldi núna um ellefuleytið, er búin að bíða eftir að geta sofið út svo lengi að ég píndi mig til að vera í rúminu jafnvel þó ég væri löngu vöknuð. Reyndar gerði ég mér ferð í Ríkið í gær og byrgði mig aðeins upp, aldrei að vita uppá hverju maður tekur um helgina:)

Íbúðin mín er að vekja mikla lukku, búin að fá þrjú tilboð á nokkrum dögum, en ekkert nógu hátt, ég er sallaróleg og bíð bara eftir réttu upphæðinni. Það er reyndar ekki nema mánuður til stefnu, á pantað flugfar út í heim 27. ágúst, það er bara alveg að koma að þessu og ég er engan veginn að átta mig á því!! Jú, þarna kom smá stresshnútur í magann, best að kíkja á netið sem snöggvast og athuga með íbúðir. Ta ta í bili!