föstudagur, september 28, 2007

KjánaRollur!

Jæja, þá er það nokkuð ljóst að ég er ekki á leiðinni í sólarhringsapótekið við brautarstöðina næstu árin eða svo. Ég fór þangað fyrir nokkrum mánuðum til að sækja lyf, en læknirinn minn ætlaði að senda lyfseðilinn þangað. Það afgreiðir mig ungur myndarlegur maður en það kemur svo í ljós að læknirinn minn virtist ekki vera búinn að senda reseftið. Ungi maðurinn spyr mig hvaða lyf þetta ættu að vera og ég þuldi það upp og horfði upp í loft á meðan, finnst alltaf vandræðalegt að tala um lyf. Ég kem svo aftur 2 dögum síðar, dreg miða og lendi aftur hjá honum. Ég brosti og sagði hæ og hann alveg hææ, varstu ekki hérna í fyrradag? Jújú segi ég, lyfseðillinn minn ætti að vera kominn núna. Já skrítið að ég muni eftir þér sagði hann, það koma svo margir hingað. Það kom smá vandræðalegt moment og ég brosti bara og hann afgreiddi svo lyfin og brosti sætt;) Hvað um það, ég þurfti svo aftur í apótekið í kvöld að kaupa miður skemmtilegan hlut og var mjög fegin að sjá að maðurinn var ekki til staðar. Ég dreg númer og meðan ég bíð ákveð ég að kaupa fleiri skemmtilega hluti í leiðinni, ekki svo oft sem ég fer í apótek. Ég finn ansi sniðugt anti-andfýlu-munnskol, mjög sniðugt þar sem ég vinn nú oní andlitinu á fólki alla daga og kippi svo með mér double pakkningu með þungunarprófum, alltaf gott að hafa við höndina in case of emergency. Svo blikkar númerið mitt og ég var mjög nálægt því að fá panikk og hlaupa út úr apótekinu þegar ég sé hver á að afgreiða mig. En ungi maðurinn var búinn að koma auga á mig svo ég setti bara upp sparibrosið og arka að kassanum og skelli varningnum á borðið og bið svo um það sem ég ætlaði mér að kaupa. Já segir hann, viltu bara kremið? Uhh ég vil svona fidd fidd dót segi ég með tilheyrandi hreyfingum. "Já, indføringshylster?" Segir hann. "Veit það hljómar asnalega en það heitir það." Uhh já...einmitt það, segi ég. Þarna byrjaði að fara um mig ónotalegur kjánahrollur. Og það sem verra er, hann byrjar líka að fara hjá sér. Svo stimplar hann vörurnar inn í kassann og þegar kemur að þungunarprófunum kemur læknirinn upp í gaurnum; "Já, þú verður að vera komin framyfir tímann til að nota þetta." Já segi ég og finn eitthvað helvítis spassaglott myndast á andlitinu á mér. Hann fór alveg í kleinu og mig langaði að sökkva niðrí gólfið, gref oní veskið mitt eftir kortinu, stimpla inn pin númerið og stari svo bara á pokann minn á meðan greiðslan fer í gegn, enn með glottið á fésinu og hann stóð bara og sagði ekkert og horfði út í loftið. Bæði mjööög meðvituð um hvað þetta var vandræðalegt. Hann lét kvittunina niður í pokann og rétti mér hann, ég skælbrosti, alveg að fara að hlæja, segi takk og bless og hann segir bara ekki orð og ég flýti mér út. Missti mig alveg í kjánaflissi þegar ég kom út og er ekki búin að ná mér enn. Ef ég fer aftur í þetta apótek verð ég greinilega að kaupa einhvern ógeðslega kúúúl hlut. Einhverjar uppástungur? Ég get allavega gleymt því að maðurinn bjóði mér á deit, andfúlli og ófrískri;)