þriðjudagur, desember 11, 2007

Hvernig stendur á svona?

Eitt sinn var ég á leið heim úr áður umtöluðu bakaríi sem ég vann í endur fyrir löngu. Björnsbakarí var það. Ég var að vinna frá sjö til eitt. Ég gekk áleiðis upp Klapparstíg í þungum þönkum, var vön að hjóla þessa leið á fína hjólinu mínu en því hafði nýlega verið stolið fyrir utan bakaríið árla morguns. Ég hafði talað við lögregluna, hengt upp auglýsingar og miðill hafði jafnvel gefið mér upplýsingar um hvar hjólið væri að finna, án árangurs. Nú megið þið ekki halda að ég hafi heimsótt miðil til að finna stolna hjólið mitt, hlutirnir æxluðust bara þannig að ég var heima hjá miðli stuttu eftir harmleikinn.

Allavega þá var ég hjóllaus á leið heim úr rúnstykkjasölunni, í þungum þönkum, á leið upp brattan Klapparstíginn, þegar ég sé glænýja Volkswagen Golf bifreið renna út úr stæði sínu við hlið mér. Mér þótti þetta undarlegt þar sem bifreiðin var mannlaus.. svo ég hljóp til þvert yfir götuna og greip í handfangið á framhurð bifreiðarinnar og stöðvaði hana. Þar stóð ég svo, ein í miðri brekku með bíl í hendinni. Ég horfði í kringum mig en það var enginn nálægt til að bjarga mér. Ég tók í handfangið til að opna bílinn en hann var læstur. Ég prófaði að sleppa bílnum en hann rann áfram niður götuna. Ég greip aftur í bílinn og teygði mig í afturhurðina til að opna. Hún var líka læst.

Mér var farið að líða þó nokkuð ansalega. Það labbaði kona fram hjá mér og ég horfði á hana, haldandi í bílhurðina, langaði að kalla á hjálp en vissi ekki hvað ég átti að segja...þetta var jú ansi fáránleg staða sem ég var í. Ég reyndi því að ýta bílnum aðeins til baka og sleppa honum svo en hann hélt áfram að renna.

Þegar þarna var komið við sögu fór ég að spá í kringumstæður og komst að því að ég hlyti að vera með í falinni myndavél. Þetta væri einfaldlega of asnalegt. Ég beið eftir að myndavélafólkið gæfi sig fram, en þegar ekkert gerðist og enginn kom, ég enn haldandi traustataki í bílinn, ákvað ég að flýja. Ekki ætlaði ég að standa þarna eins og ansi þangað til eigandi bílsins kæmi. Svo ég sleppti bílnum, eins blíðlega og ég gat. Og viti menn, hann hélt kyrru fyrir! Ég bakkaði í burtu frá bílnum, hálfum úti úr stæðinu, sneri mér við og var fljót að skunda upp Klapparstíginn án þess að líta við.

Veit ég eigi hver örlög bílsins urðu.