fimmtudagur, maí 26, 2005

Tímamót

Fékk bloggleiða dauðans. Vonandi er hann bara tímabundinn en tíminn leiðir það í ljós. Ég er pínu farin að stressast vegna íbúðamála í Köben, heimavistaumsóknin mín verður ekki virk fyrr en um miðjan júlí þrátt fyrir að ég hafi skráð mig inn fyrir löngu síðan, og íbúðaauglýsingar sem ég setti inn á Íslendingafélagið í Köben og á síðu Félags námsmanna erlendis hefur engan árangur borið. Einnig á ég eftir að leigja út mína íbúð, sækja um námslán, huga að húsaleigubótum úti og margt margt fleira og ég er hálf stressuð yfir þessu öllu saman. Afrekaði það reyndar að sækja um nýtt vegabréf þar sem mitt er löngu útrunnið og ég veit ekki einu sinni hvar það er, enda hef ég ekki stigið fæti af landinu síðan ég kom heim úr Þýskalandsdvöl minni 1998. Það myndi gera sjö ár. Ég hef ekki farið til útlanda í sjö ár! Mér finnst það ferlegt. Afleiðingarnar eru þröngsýni, þunglyndi og uppaháttur af verstu gerð. Ég hef glatað minni "slæmu" sýn á Ísland og Íslendinga sem ég fann svo vel fyrir þegar ég kom frá Þýskalandi. Það var talað um að maður gæti átt von á menningarsjokki við að flytja til nýs lands, en mitt menningarsjokk birtist ekki fyrr en ég kom aftur heim og upplifði mitt "venjulega" líf á algjörlega nýjan hátt. Maður verður blindur af að búa í sínu landi of lengi og hvet ég alla eindregið til að flytja til útlanda í smá tíma og upplifa nýja menningu og nýja siði, koma svo aftur að finna fyrir hversu mikið sú upplifun hefur breytt manni. Það versta er að ég man ekki lengur hvað sjokkeraði mig svona mikið við að koma aftur til landsins og það segir mér bara það að ég er orðin samtvinnuð því aftur og því ekki eins víðsýn og gagnrýnin eins og ég vil vera. Þess vegna er löngu kominn tími á það að ég fari aftur út fyrir landsteinana og reyni að finna mig á ný.