sunnudagur, ágúst 06, 2006

Sóóóólstrandar-gella!

Þessarri helgi var eytt í mikla afslöppun í Lyngby. Sofið fram að hádegi, morgunmatur snæddur og svo lagst út í garð í sólbað. Sex tímar í gær og fimm í dag. Það var vel heitt í gær og smá gola en fram til klukkan fjögur í dag var nær ólíft úti, heiðskýrt og blanka logn. Um hálf þrjú leytið var ég komin með svima, þrátt fyrir mikla vatnsneyslu, og svitinn lak í stríðum straumum, svo ég tók mér pásu og skellti mér í kalda sturtu, bar á mig smá sólarvörn, fékk mér spaghettí, og svo hélt ég áfram í maraþon sólbaðinu mínu. Núna HLÝT ég að fá smá lit á kroppinn. Er orðin svolítið pirruð á litleysinu á mér, er með einhverja fílshúð held ég. Maður sér þvílíkt súkkulaði brúnu gellurnar hérna um allt meðan ég er einungis með einhverja smá brúna slettu á handleggjum og bringu. Næsta vika hjá mér verður róleg, er einungis að vinna þrjá daga, svo ég hyggst halda brúnkumeðferðinni ótrauð áfram. Hef ekki verið með almennilega brúnan kropp frá því ég var smá peð á Spáni endur fyrir löngu, og langar svona einu sinni þegar maður hefur almennilegt tækifæri á því að fá fallegan lit. Ekki oft sem maður lendir í svona frábæru veðri mánuð eftir mánuð. Ég verð bara að vera þolinmóð og sætta mig við að húðin mín er ekkert sú virkasta í að taka lit. Svei mér þá, ég held ég setjist aðeins út aftur, synd að láta þessa blíðu fara til spillis;)