Mikið rosalega stóð Þorsteinn Már Baldvinsson sig vel í Kastljósinu. Ég stóð mig nokkrum sinnum að því að hrópa á Helga Seljan að þegja og leyfa manninum að tala! Er ekki löngu kominn tími á að taka Davíð Oddsson úr umferð? Stríð hans við Jón Ásgeir Jóhannesson er bara orðið þreytt og ansi áberandi persónulegt.
þriðjudagur, september 30, 2008
Getraun vikunnar
Ég var að skoða heimasíðuna eirberg.is og rakst þar á þessa auglýsingu fyrir skurðstofu- og skoðunarhanska fyrir heilbrigðisstofnanir. Ég get engan veginn gert mér grein fyrir hvaða líkamshluti er til sýnis á myndinni sem tilheyrir auglýsingunni. Getur einhver hjálpað mér?
Birt af Gagga Guðmunds kl. 00:39 |
miðvikudagur, september 17, 2008
Sá sem sagði að sumarið væri tíminn var ekki með öllum mjalla. Haustið er tíminn!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 00:53 |
þriðjudagur, júlí 01, 2008
Landið skoðað
Turtildúfurnar skelltu sér í sumarbústað um helgina. Lögðum í hann seinnipartinn á föstudeginum og lentum auðvitað í svaka umferð, allir á leið úr bænum með tjaldvagnana sína. Keyrðum í gegnum Selfoss og Hveragerði, það er svo langt síðan að ég hef komið þangað að ég man ekki einu sinni eftir að hafa verið þar. Við eyddum helginni í að slappa af, borða, spila, sóla okkur, púsla 500 kubba púsluspil og túristast. Skoðuðum Seljalandsfoss, Skógafoss, fórum í fjöruferð á Vík og sáum Reynisdranga og kíktum á lunda í Dyrhólaey á sunnudeginum.
Seinnipartinn á laugardeginum var von á mömmu, ömmu og móðursystur Gunnars í bústaðinn. Þær hringdu um fimm leytið, bíllinn bilaður á Kirkjubæjarklaustri. Við renndum því á Klaustur og sóttum gengið, grilluðum svo og spiluðum Rummikub fram eftir kvöldi. Sem sagt mjög vel heppnuð helgarferð, maður ætti að gera meira af þessu, skoða landið og eiga góðar stundir saman.
Læt fylgja smá ferðamyndir með, að sjálfsögðu.Ég við Seljalandsfoss.
Gunni í fjörunni við Vík, svaka stelling (takið eftir sandölunum). Reynisdrangar í baksýn.
Gunni hugsandi yfir púslinu.
Einmana lundi í Dyrhólaey.
Ég lofthrædd að mynda fegurðina.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 01:02 |
föstudagur, júní 20, 2008
"Leit að birni heldur áfram"
Forsíðufrétt í Morgunblaðinu í dag. Ferðamenn á leið frá Hveravöllum áleiðis að Þjófadölum fundu bjarnarspor í moldarflagi. Haft var samband við lögregluna á Blönduósi og bað hún ferðamennina um að teikna upp sporin, og fylgdi hún þeim svo aftur til Hveravalla til að skoða mætti sporin betur. Sporin fundust ekki en leit heldur áfram.
Það æðislegasta við þessa forsíðufrétt er lokamálsgreinin:
"Sævar Einarsson, bónda á Hamri í Hegranesi, dreymdi nótt eina í júníbyrjun þrjá ísbirni. Óvíst er hvort draumur bóndans kemur fram en það skýrist á næstunni."
Elska þegar stuðst er við drauma gamalla bænda úr afdölum í fréttum.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:52 |
föstudagur, júní 13, 2008
Þeir standa sig strákarnir
Stöðumælaverðir hafa aldrei átt miklum vinsældum að fagna hjá meginþorra manna. Fyrir utan blokkina mína í gettóinu eru bílastæði. Ekki er gert ráð fyrir að heimili eigi fleiri en eina bifreið, hvað þá að einhver sem býr hér fái akandi gesti. Það er nákvæmlega útdeilt einu bílastæði á íbúð og síðan ekki söguna meir. Margir í blokkinni eiga tvo bíla og fá jafnvel fólk í heimsókn annað slagið. Þá bjargar fólk sér og leggur á grasinu, enda meira en nóg pláss þar sem ekki er til neins nýtt.
Einhverjar fregnir fengu stöðuverðir borgarinnar af þessum ósóma, og ákváðu því galvaskir einn morguninn að mæta upp í Breiðholt og sekta alla bíla sem var lagt á grasinu. Ég auðvitað smellti af þeim mynd, enda fannst mér þetta bráðsmellið. Ætli þeir séu að safna í ferðasjóð, farnir að aka um úthverfin í leit að bráð?
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:31 |
fimmtudagur, maí 15, 2008
Hekl
Ráðskonuhlutverkið er ljúft. Vakna klukkan hálf sjö á morgnana til að bera út Moggann, fæ mér morgunmat og halla mér svo aftur fram að hádegi að minnsta kosti. Þá er förinni heitið í heklnám hjá ömmu Láru sem byrjaði í gær, þar sem ég sit með tunguna út úr mér fram eftir degi og hekla dúllur og hlusta á Megas. Er ég alveg að ná tökum á þessu. Í eitt teppi þarf 120 dúllur, svo ég ætti að vera að ljúka verkinu um áramótin. Amma les upp ljóð og bakar vöflur sem ég færi Gumms. Kvöldmaturinn er tilbúinn hjá mér klukkan níu þegar strákarnir koma heim úr ökuskólanum og þá fer nú að koma háttatími aftur.
"Hvað ert þú eiginlega gömul Ragnheiður?" spurði Gumms mig í gærkvöldi. "Uhh ja 28" sagði ég. "Af hverju spyrðu?". "Þú situr fyrir framan sjónvarpið og ert að HEKLA!!"
Birt af Gagga Guðmunds kl. 23:00 |
föstudagur, maí 09, 2008
Förukona
Jæja! Þá hefur húsmóður hlutverkinu verið sinnt af miklu kappi í rúma viku. Það er búið að henda og kaupa, skúra og skrúbba, elda og baka, og fer þetta alveg ljómandi vel í mig. Eins og góðri húsmóður sæmir hef ég gert eldhúsið að mínu yfirráðasvæði og hefur það val mitt ekki valdið neinum ágreiningi á heimilinu;)
Nú er þó komið að því að ég þarf að ferðast norður yfir heiðar til að sinna búskap á heimili foreldra minna í 10 daga meðan þau bregða sér af bæ til útlanda. Húsbóndinn á litla heimilinu í Breiðholtinu verður því að sjá um sig sjálfur á meðan og óljóst er á þessari stundu hvort ég muni koma að honum grindhoruðum og vannærðum eða feitum og sællegum af skyndibitamat þegar ég sný aftur. Skinkuhornin sem ég skil eftir handa honum duga skammt.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 17:52 |
miðvikudagur, maí 07, 2008
Upprifjun 2
Þrifin tókust svona ansi vel hjá okkur ma...hún þreif. Ég skrifaði auglýsingar og hengdi upp á útidyrnar í nágrannastigagöngunum, reyna að losna við húsgögnin mín, og pakkaði svo öllu dótinu mínu niður í kassa. Ótrúlegt hvað maður sankar að sér miklu drasli..ég sem hélt ég ætti ekki neitt!
Konan í næsta stigagangi sem selur þvottamyntir keypti fataskápinn minn. Hann var ferlíki. Við bönkuðum uppá hjá nágrannanum, stórum og stæðilegum manni, og báðum um aðstoð við að flytja skápinn, og ég hlóp út á götu til að finna annan álitlegan karlmann í verkið. Ég hef sjaldan eða aldrei hikað við að bera þunga hluti, en þetta taldi ég vera karlmannsverk. Ég fann engan karlmann svo ég hljóp aftur upp til að kanna stöðuna, kem þá að Lars nágranna og gömlu þvottakonunni að bera skápinn niður...jeminn...hún er sextug písl. Ég greip inní og við Lars héldum á skápnum niður tröppurnar og út á götu. Þar gafst ég upp og kallaði á mann sem var að labba framhjá.
Ég endaði svo á því að festa hurðirnar á skápinn og setja hillurnar inn fyrir gamla fólkið, þau voru alveg bjargarlaus!
Við ma lukum svo við að pakka og þrífa daginn eftir og Stína flutti dótið með okkur, bíllinn kominn í lag!
Ma fór til Íslands á sunnudegi og við Stína komum dótinu í flutning á miðvikudeginum. Afgangurinn af miðvikudeginum fór svo í að finna kjól á mig og tók það mig allan daginn. Á fimmtudeginum fór ég í flug til Íslands og er nú búin að vera í viku í Reykjavík. Það er mjög fljótt hlaupið yfir sögu í þessari færslu, en það er af því ég hef verið svo löt að skrifa:)
Og já, framhald fylgir!!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:11 |
sunnudagur, maí 04, 2008
Upprifjun
Á sumardaginn fyrsta byrjuðu miklar aðgerðir í Kaupmannahöfn. Ma var mætt á svæðið til að stýra aðgerðum, og byrjaði dagurinn vel. Stína ákvað að skutla okkur frá Lyngby og heim til mín því við vorum með tösku og kassa og það tæki mun styttri tíma en að fara í lestinni. Þar skjátlaðist henni.
Þegar við erum nýkomnar á hraðbrautina fer bíllinn að hegða sér undarlega. Útvarpið slökkti á sér, ljósin fóru og hraðamælirinn lét undarlega. Nokkrum mínútum síðar gaf bíllinn svo upp öndina og við beygðum út á hliðarreinina. Þar sátum við í nokkurn tíma og hugsuðum málið uns við ma ákváðum að fara út og ýta bílnum. Stína setti í annan gír og þar sem brekka var framundan þá ætti þetta að virka. Við ýtum og ýtum, komnar í andnauð og farið að sortna fyrir augum, gefumst á endanum upp og setjumst aftur inn í bílinn. Ég blásandi og másandi lít þá fram í bílinn...arg...Stínfríður...þú verður að hafa svissinn á!!!
Við ýttum svo bílnum í gang og komumst ansi langt í annarri tilraun...það er að segja inn á mið ljósa gatnamót...vinstri beygja...bíllinn dó inn á miðjum gatnamótum. Við ma orðnar þaulvanar, hentumst út úr bílnum á ferð, næstum oltnar um koll báðar tvær, og ýttum bílnum yfir gatnamótin. Þar skildum við ma Stínu eftir, tókum föggur okkar og héldum af stað gangandi. Náðum svo leigubíl á miðri leið og komumst heim til mín í góðu standi.
Framhald fylgir...
Birt af Gagga Guðmunds kl. 13:09 |
þriðjudagur, apríl 22, 2008
Sumarið er tíminn
Sumarið er að koma í Kaupmannahöfn. Á Österbro situr fólk úti á tröppum og borðar samlokur, leikvöllurinn er fullur af glöðum foreldrum með skríkjandi börn, hjólreiðafólkið lætur axlirnar síga. Sólin skín og þíðir vetrarfreðin hjörtu. Köld golan vekur minningar um íslenskt sumar.
Íslenskt sumar með miðnætursól, íslenskt sumar í lopapeysu, íslenskt sumar að safna skeljum í fjörunni í stígvélum. Rauðar kinnar, saltstorkið hár, eistnesk mjólkurferna og krossfiskur.
Sumarið er tíminn...
Birt af Gagga Guðmunds kl. 15:46 |
laugardagur, apríl 19, 2008
Menn sem hata konur
Ég hef lokað mig af frá umheiminum síðasta sólarhringinn meðan ég kláraði bókina "Mænd der hader kvinder" eftir Stieg Larsson. Ég byrjaði á henni fyrir löngu en datt aldrei almennilega inn í lestrar tempóið fyrr en í gærmorgun. Það var ekki fyrr en á síðu 300 sem sagan byrjaði að vera virkilega spennandi. Ég kláraði svo bókina rétt í þessu, 556 blaðsíður. Snilldar bók. Leiðin liggur beint út í bókabúð til að fjárfesta í bók númer tvö, "Pigen der legede med ilden". Stieg Larsson skrifaði þrjár bækur um Mikael Blomkvist og Lisbeth Salander, "et enestående nyt makkerpar i skandinavisk kriminallitteratur", eins og stendur aftan á bókinni.
Stieg Larsson var sænskur rithöfundur, fæddur árið 1954 og lést árið 2004 úr hjartaáfalli. Kaldhæðni örlaganna að fyrsta bókin í seríunni kom ekki út fyrr en árið 2005 svo hann náði aldrei að upplifa gríðarlegar vinsældir bókanna. "Mænd der hader kvinder" vann Glerlykilinn árið 2006 fyrir bestu glæpasögu á Norðurlöndunum, sömu verðlaun og Arnaldur Indriðason fékk árið 2002 fyrir "Mýrina" og 2003 fyrir "Grafarþögn". Larsson hafði annars gert samning um 10 bækur í seríunni, en dó jú áður en hann náði svo langt. Mér skilst að fjórða bókin sé skrifuð en familían stendur í einhverju lögfræðistappi með útgáfuna.
Þriðja bókin heitir "Luftkastellet der blev sprængt" og eru allar bækurnar jafn ári þykkar, svo ég hef eitthvað að gera í sumarfríinu mínu í maí;) Ég skrifa bókaheitin á dönsku því ég hef ekki hugmynd um hvað þær heita á íslensku!
Ég get allavega mælt með "Mænd der hader kvinder" fyrir þá sem eru lestrarhestar. Fyrir þá sem ekki eru jafn bókhneigðir mæli ég með "Skugga-Baldri" eftir Sjón. Las hana síðasta haust og hún greip mig það fljótt að ég kláraði hana á nokkrum tímum.
Jæja...nennti einhver að lesa þetta? Hehe....
Birt af Gagga Guðmunds kl. 13:59 |
miðvikudagur, apríl 02, 2008
Smá speki í viðbót
Watch your words, for they become actions.
Watch your actions, for they become habits.
Watch your habits, for they become character.
Watch your character, for it becomes your destiny.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:12 |
mánudagur, mars 31, 2008
Einar Ben kann að orða hlutina
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.
Úr Einræðum Starkaðar.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 17:19 |
miðvikudagur, mars 19, 2008
Stundum ætti ég að þegja
Heppni mín í matsalnum heldur áfram. Ég fékk ekki hádegispásu fyrr en klukkan eitt í dag og þegar ég kom niður í matsal var maturinn allur upp étinn. En heppna ég, full skál af súpu var eftir! Ég jós á diskinn með vatn í munninum, fékk mér sæti og sökkti mér í súpudiskinn. Jakkiddí jakk! Þetta var súpa frá helvíti, bragðaðist eins og fjósalykt, get ekki lýst því öðruvísi. Ég var að sálast úr hungri svo ég lét hringja upp í eldhús eftir einhverju ætilegu.
Amalie hringdi eftir mat og spurði í leiðinni hver hefði eiginlega mallað súpuna, hún væri horror. Það var kokkanemi sem bar ábyrgð á eitrinu, og kokkurinn sagðist skila þessu til hennar. Eftir óendanlega langan tíma kom svo loksins stelpa og tók tómu bakkana. Ég lét þá þau orð falla að það væri fáránlegt að kokkanemarnir fengju fríar hendur til að sulla saman því sem þeir vildu og væri það ekki nógu gott fyrir veitingahúsið væri því bara hent niður í starfsfólkið. Já fólkið var sammála því og við hlógum að fjósasúpunni sem var að fylla rusladallinn.
Dó! (Homer style). Við föttuðum það þegar stelpan með bakkana strunsaði út að hún hafði gert súpuna! Hún kom svo aftur með tvo bakka, annan með reyktum laxi og hinn með saltkjötsáleggi og majónesi. Jömmí! Ég er að verða hryllilega vinsæl á Skodsborg, eins gott að ég er að fara a hætta;)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:13 |