mánudagur, desember 17, 2007

Hvar er, hvar er, hvar er, hvar er húfan mín?

Það er fátt að gerast hjá mér þessa dagana. Desemberþreytan er farin að láta á sér kræla og hin nýtilkomna A mannsekja í mér er á undanhaldi. Það er farið að kólna í Kaupmannahöfn og hafa ullarsokkarnir verið fundnir fram og eru dregnir á fætur mér um leið og ég kem úr vinnunni. Mér tekst þó að týna þeim í hvert skipti sem ég fer úr þeim og stend ég því í sokkaleit á hverjum degi eftir vinnu.

Við Marianne fórum í smá innkaupaleiðangur á föstudaginn, liður í undirbúningi fyrir árshátíð. Þemað í ár er Hawaii og fannst okkur heldur slappt að þurfa að mæta í strápilsum og skeljabrjóstahöldum svo við gerðum það besta úr aðstæðum. Ég keypti bleika Hawaiiskyrtu, alltof stóra þar sem þær voru ekki til í kvenmannsstærðum, sólhatt, flugmannasólgleraugu, yfirvaraskegg, byssu og hassplöntu-blómakrans. Vantar svo Bermúdabuxur, skjalatösku, vindil, sósulit og Niveakrem (árið sem minn bekkur átti að hafa Tansaníuhátið var hætt að halda þær, svo ég hef alltaf þráð að prófa sósulitarkremið). Við ætlum sem sagt að vera Hawaii gangsterar í staðinn fyrir blómarósir. Miklu skemmtilegra:)


Í lestinni í morgun kom ég auga á tösku úr kunnulegu efni. Ég horfði vel á töskuna sem stóð á gólfinu á milli fóta eldri konu, opin, og fattaði að hún var úr alveg eins efni og tælenskur búningur sem ég á. Ég var hálf nývöknuð svo ég áttaði mig ekki alveg á því að ég var með störu á töskuna. Ekki fyrr en konan horfði á mig, tók töskuna upp af gólfinu, lokaði henni kyrfilega með rennilásnum, og hélt þéttingsfast um hana. Ég leit á konuna og hún horfði tortryggnislega á mig. Ég var eiginlega of þreytt til að finnast þetta fyndið, en skellti nú aðeins upp úr þegar ég steig út úr lestinni á næstu stöð og áttaði mig á klæðnaði mínum...í nýkomnu kuldakasti hafði ég nefnilega vafið um mig sjalinu mínu og sett upp árans úlpuhettuna áðurnefndu...Úlpuhettan, ógnarvaldur eldra fólksins.

föstudagur, desember 14, 2007

Fólk getur verið algjört yndi

Það er oft gaman að hlusta á fólk sem hringir inn í útvarpið til að viðra skoðanir sínar. Kona sem hringdi í Bylgjuna kom með einstaklega skemmtilegan lokahnykk á ræðu sína um fátækt á Íslandi. Hérna má heyra snilldina.

Hefði þetta verið ég sem hringdi hefði ég nú byrjað á því að nafngreina viðkomandi konu, það hefði gefið þessu svolítið krydd.

miðvikudagur, desember 12, 2007

Gott hús er gestum heill

Þá er ég orðin húseigandi. Eða hálfur húseigandi mætti segja. Húsinu er skipt í tvær íbúðir og á ég aðra þeirra. Þetta er þriðja íbúðin sem ég eignast á ævinni. Aftur á móti ég hef aldrei átt bíl. Geri aðrir betur.

Þetta er eiginlega allt Ma að kenna. Eins og kunnugir kannski vita er hún mikil húsaáhugamanneskja og sleppur engin fasteigna auglýsing fram hjá hennar kvika auga. Hún var því ekki sein á sér, þegar hún sá ævafornt timburhús á eyrinni til sölu, að síma til útlanda og telja mig á að fjárfesta í kotinu. Svo sem ekki erfitt að fá mig í svona vitleysu:)

Það var því boðið í íbúðina, skrifað undir og borgað út, og nú á ég hálft hús á Akureyri. Jólafríið mitt mun því, að hluta til, fara í að rífa af gólfum, mála veggi og pússa tréverk.

Glæsivillan mín stendur við Lundargötu og hér má sjá slotið.


þriðjudagur, desember 11, 2007

Hvernig stendur á svona?

Eitt sinn var ég á leið heim úr áður umtöluðu bakaríi sem ég vann í endur fyrir löngu. Björnsbakarí var það. Ég var að vinna frá sjö til eitt. Ég gekk áleiðis upp Klapparstíg í þungum þönkum, var vön að hjóla þessa leið á fína hjólinu mínu en því hafði nýlega verið stolið fyrir utan bakaríið árla morguns. Ég hafði talað við lögregluna, hengt upp auglýsingar og miðill hafði jafnvel gefið mér upplýsingar um hvar hjólið væri að finna, án árangurs. Nú megið þið ekki halda að ég hafi heimsótt miðil til að finna stolna hjólið mitt, hlutirnir æxluðust bara þannig að ég var heima hjá miðli stuttu eftir harmleikinn.

Allavega þá var ég hjóllaus á leið heim úr rúnstykkjasölunni, í þungum þönkum, á leið upp brattan Klapparstíginn, þegar ég sé glænýja Volkswagen Golf bifreið renna út úr stæði sínu við hlið mér. Mér þótti þetta undarlegt þar sem bifreiðin var mannlaus.. svo ég hljóp til þvert yfir götuna og greip í handfangið á framhurð bifreiðarinnar og stöðvaði hana. Þar stóð ég svo, ein í miðri brekku með bíl í hendinni. Ég horfði í kringum mig en það var enginn nálægt til að bjarga mér. Ég tók í handfangið til að opna bílinn en hann var læstur. Ég prófaði að sleppa bílnum en hann rann áfram niður götuna. Ég greip aftur í bílinn og teygði mig í afturhurðina til að opna. Hún var líka læst.

Mér var farið að líða þó nokkuð ansalega. Það labbaði kona fram hjá mér og ég horfði á hana, haldandi í bílhurðina, langaði að kalla á hjálp en vissi ekki hvað ég átti að segja...þetta var jú ansi fáránleg staða sem ég var í. Ég reyndi því að ýta bílnum aðeins til baka og sleppa honum svo en hann hélt áfram að renna.

Þegar þarna var komið við sögu fór ég að spá í kringumstæður og komst að því að ég hlyti að vera með í falinni myndavél. Þetta væri einfaldlega of asnalegt. Ég beið eftir að myndavélafólkið gæfi sig fram, en þegar ekkert gerðist og enginn kom, ég enn haldandi traustataki í bílinn, ákvað ég að flýja. Ekki ætlaði ég að standa þarna eins og ansi þangað til eigandi bílsins kæmi. Svo ég sleppti bílnum, eins blíðlega og ég gat. Og viti menn, hann hélt kyrru fyrir! Ég bakkaði í burtu frá bílnum, hálfum úti úr stæðinu, sneri mér við og var fljót að skunda upp Klapparstíginn án þess að líta við.

Veit ég eigi hver örlög bílsins urðu.

miðvikudagur, desember 05, 2007

Mér er ýmislegt til lista lagt

Einu sinni fyrir mörgum árum bjó ég í Reykjavík í nokkra mánuði. Það var áður en ég flutti þangað síðar. Ég fór á þriggja vikna ítölsku námskeið og fékk mér vinnu í bakaríi. Eftir að ítölsku námskeiðinu lauk þorði ég ekki að segja upp vinnunni í bakaríinu og fékk mér því líka vinnu á veitingastað og leigði mér herbergi á Leifsgötunni.

Eitt sinn varð illt í efni á Akureyri. Ma og pa voru að standa í innanhúss-allsherjar-breytingum og komið var að því að flytja húsgögnin aftur inn í húsið eftir að búið var að byggja það upp frá grunni. Ma hringir í mig á föstudegi, en þá er allt í voða, pa lagstur mikið veikur inn á sjúkrahús, amma lögst inn á sjúkrahús og Gumms litli lagstur í rúmið með ógurlegan hita. Og koma þurfti mublunum í hús. Ma var nú ekki á því að ég þyrfti að koma norður, svaka kvendi sem hún er, en það var auðvitað ekki annað í stöðunni en að bruna niður á völl og reyna að komast í flug.

Öll fargjöld voru á uppsprengdu verði svo fátæka ég skráði mig á hopplista. Fyrsta flug fór án mín, annað flug og þriðja. Ég sá að þetta myndi aldrei ganga svona og ég þyrfti að komast með síðustu vélinni, svo ég arka í innritun og spyr hvort ekki sé möguleiki á að komast með, ég þurfi nauðsynlega að komast norður. Konan segir mér að það sé eitt laust sæti en ég þurfi að fara í miðasöluna til að kaupa miðann. Jú takk segi ég, sé mér ekki annað fært en að kaupa þennan dýra miða. Ég tek upp töskuna mína og býst til að rölta yfir að miðasölunni en sé þá að maður sem stóð við hliðina á mér, og heyrði samtal mitt við innritunarkonuna, stekkur af stað og hleypur yfir að miðasölunni. Nú jæja.. ég stilli mér bakvið hann og þegar kemur að mér þá er mér tilkynnt að því miður hafi síðasti miðinn verið að seljast. Ég gapti. Karl kúkur!

Ég labbaði út með töskuna mína og þar féllust mér hendur. Ég settist í kuldanum á steinöskubakka fyrir utan dyrnar og hágrét.

Kemur þá ekki flugfreyja gangandi frá bílastæðinu. Hún stoppar við, horfir á mig og spyr hvort ekki sé allt í lagi. "Neeiiii" segi ég með ekkasogum, "ég kemst ekki í flug, það keypti einhver kall miðann minn." "Þarftu að komast norður?" spyr hún. "Jáá það eru allir á sjúkrahúsi", tilkynni ég henni tárvot og bólgin. Konan góða drífur mig þá upp af öskubakkanum og inn í flugstöð, beint í innritun og biður um að mér verði vinsamlegast hleypt í kokkpittinn. Það hljómar ekkert voða vel þegar maður veit ekki hvað það er.

Það fór allt í uppnám og á fleygiferð, flugvélin á leið í loftið hvað úr hverju. Hópur drukkinna karlmanna var á leið út í vélina á síðustu stundu en einn þeirra virtist hafa týnt brottfararspjaldinu sínu. Ég stóð ráðþrota og fylgdist með, enginn skipti sér af mér. Ég horfi svo hvolpaaugum á innritunarkonuna og spyr hvað sé í gangi, hvort ég komist með. Hún þegir lengi vel og horfir á mig, réttir mér svo miða og segir mér að drífa mig út í vél. Ég þeytist af stað, fæ sæti mitt í hópi drukknu mannanna og þerra tárin. Sé svo síðasta félagann koma skjögrandi inn í vélina og sökk ansi djúpt í sætið við hlið vinar hans þegar honum er snúið út úr vélinni og skilinn eftir í Reykjavík. Köllunum fannst þetta ansi hreint fyndið.. held þeir hafi ekki áttað sig á að það var ég sem stal miða mannsins.

Þetta var sagan af því þegar ég grét út flugfar hjá Flugfélagi Íslands.

mánudagur, desember 03, 2007

Arr en bí kveld

Ég dröslaði mér í samkvæmi á laugardagskvöldið, eftir mikinn dans á föstudagskvöldinu. Einhvernveginn æxluðust mál þannig að ég var eina bleiknefja konan í samkvæminu, umkringd þeldökkum þokkagyðjum. Þeim fannst voða góð hugmynd þegar líða fór á kvöldið að draga fram Playstation tölvu og fara í Singstar. Það fannst mér alls ekki góð hugmynd. Ég lét mig því reglulega hverfa fram í eldhús þegar mig grunaði að röðin gæti komið að mér að syngja. Ég komst algjörlega upp með þessi hvörf mín þar sem þær sungu allar svo ansi vel að þær kepptust um að komast að. Merkilegt hvað svartar konur syngja vel. Mér fannst ég ansi föl þetta kvöld, ekki bætti úr skák að ég er enn fölari en venjulega eftir að hafa verið veik. Ég huggaði mig þó við það að ég var sú eina í boðinu með mitt eigið hár á höfðinu. Allar með hárlengingar og ein meira að segja með kollu. Kostulegt.

fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Erfið lífsreynsla

Módemið mitt ákvað í gærmorgun að hætta að virka. Það greip mig strax mikil angist og hringdi ég skjálfrödduð, á barmi taugaáfalls, í TDC. Við starfsmaðurinn reyndum í sameiningu að veita módeminu fyrstu hjálp en það kom fljótt í ljós að það var um seinan og panta þyrfti viðgerðarlið á staðinn. Beiðnin ætti að verða virk á föstudaginn sagði hann. Með grátstafinn í kverkunum spurði ég hvort ekki væri möguleiki á að laga þetta fyrr, en ekki hélt ungi maðurinn það. Ég varð því heldur betur glöð þegar síminn minn hringdi klukkutíma síðar og hjálpin strax á leiðinni. Hingað mættu svo tveir galvaskir menn með töskur og skiptu gamla módeminu út fyrir nýtt og reyndu sitt besta til að blása lífi í tenginguna. Ekkert gekk. Ég eyddi því gærdeginum í að reyna að tengjast, orðin vel pirruð seinnipartinn þegar annar viðgerðarmaðurinn hringir og tilkynnir komu þeirra aftur daginn eftir klukkan átta. Þeir komu áðan með stærri töskur en fyrri daginn, hurfu niður í kjallara þar sem þeir eyddu dágóðri stund, komu upp aftur, horfðu á módemið og sögðu: "Kom såååååå", og eftir þessa hvatningu hikstaði módemið sér í gang. Þungu fargi var af mér létt.

Ef einhver er að velta því fyrir sér af hverju ég er bara heima að slæpast alla daga, þá er ég lasin. Ef ég væri ekki lasin þá væri ég ekki enn komin með netsamband. Út frá því má sjá að það er ekki alltaf alslæmt að vera lasinn.

mánudagur, nóvember 26, 2007

Helle strikes back

"Karlmaður á fimmtugsaldri skaut í dag öryggisvörð á skattstofu í Kaupmannahöfn til bana. Lögregla handtók manninn skömmu síðar og er hann sagður hafa játað á sig verknaðinn. Ekki er ljóst hvað honum gekk til.

Maðurinn gekk inn á skattstofu við Tagensvej í norðvesturhluta Kaupmannahafnar í morgun, og krafðist þess að fá íbúð. Þegar starfsfólk sagðist ekki geta aðstoðað manninn dró hann upp byssu. Öryggisvörðurinn reyndi að fá manninn til að leggja frá sér byssuna en var þá skotinn í höfuðið.

Starfsfólk skattstofunnar, sem varð vitni að atburðinum, var flutt á sjúkrahús þar sem það fékk áfallahjálp."


Þetta er voðaleg frétt og sorglegur atburður. En það er eitthvað gruggugt við þetta. Af hverju ætti maðurinn að krefjast þess að fá íbúð hjá Skattinum? Aldrei hef ég heyrt minnst á það að Skattstofa sjái um íbúðamál í Danmörku. Ég lagði ekki saman tvo og tvo fyrr en mér var bent á tenginguna. Það hlýtur að hafa verið íbúð Helle sem maðurinn var á höttunum eftir, ósáttur við að vera ekki indæl og róleg stúlka.

Skítbuxi

Á miðvikudagskvöldið var lögreglan kölluð út til að stöðva ólæti í heimahúsi í Esbjerg. Tókst henni að skikka til friðar, tímabundið, en var kölluð að sama húsi í gærnótt. Húsráðandi var ekki alls kostar ánægður með þessa heimsókn svo hann hrinti öðrum lögregluþjóninum í gólfið. Hinn lögreglumaðurinn brást snögglega við og stökk á bak manninum og tók hann fastataki í faðm sér. Svo fast kreisti hann manninn að sá skeit í buxurnar. Var maðurinn því næst færður í fangageymslu, í hreinni brók.

Það er svo margt fróðlegt sem ég les í dagblöðunum á leiðinni heim í lestinni á kvöldin.

fimmtudagur, nóvember 22, 2007

Fátt er svo með öllu illt

Ég er greinilega að breytast í ofur A-manneskju. Get ekki sagt að ég sé alls kostar ánægð með þessar breytingar, en þær hafa vissulega sína kosti. Þar sem ég er farin að fara á fætur klukkan sex kem ég ýmsu í verk sem ég hefði hreinlega ekki tíma til að gera ef ég svæfi fram að hádegi. Fyrir utan stórhreingerningu síðustu helgar er ég búin að gefa mér góðan tíma á bókasafninu, kaupa teikniblokkir og blýanta og brasast við að skissa við kertaljós í morgunrökkrinu (greinilegt að ég hef ekki teiknað í nokkur ár), hef sankað að mér fróðleik á netinu og horft á fræðslu- og fréttaþætti í sjónvarpinu og í morgun sauð ég stóran pott af grænmetissúpu "a la Ragnheiður". Setti aðeins of mikið af chilli í súpuna, en það er bara hressandi að svitna svolítið. Svo er chilli víst grennandi. Á meðan súpan sauð borðaði ég hálft ástaraldin og hálfa lárperu með AB-mjólk og drakk te bruggað af ferskri engiferrót. Að vakna snemma hlýtur því að stuðla að hollu mataræði.

Ég hef þó gripið til "örþrifaráða" til að reyna að fá meiri svefn, þamba nú Garðabrúðute á kvöldin, en Garðabrúða er jurt sem hefur róandi og svæfandi áhrif, og núna var ég að ljúka við að snúa íbúðinni minni við, það er að segja nú er rúmið þar sem sófinn var og sófinn þar sem rúmið var. Mér finnst þetta heldur skrítið skipulag á íbúðinni, þarf að venjast því, en er spennt að sjá hvort það hafi góð áhrif, ég sef jú alltaf svo vel á sófanum.

Kaktusinn minn er farinn að blómstra bleikum blómum. Það hlýtur að boða nokkuð gott.

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Hugarleikfimi

Úr baðkrana Ragnheiðar rennur einn líter af vatni á 25 sekúndum. Það tekur 45 mínútur að fylla baðið af vatni þegar hún situr í því. Rúmmál Ragnheiðar er óþekkt stærð.

Reiknið, út frá stærð baðkarsins og tímans sem tekur að fylla það, hversu oft má ætla að Ragnheiður nenni í bað.


laugardagur, nóvember 17, 2007

Dægurtruflun

Nú held ég að komið sé að því, ég er að verða endanlega geðveik. Ég hef þjáðst af svolítilli dægurröskun undanfarið og haft ýmislegt fyrir stafni fram undir morgun en í nótt fór ég fram úr sjálfri mér í furðulegheitum. Klukkan fjögur lá ég í rúminu og bylti mér og sá svo að þetta væri ekki til neins, ég gæti allt eins farið á fætur og gert eitthvað af viti.

Ég byrjaði því á að ryðja gólf og stóla af öllu sem ekki átti þar heima, hreint í skápinn, óhreint í taukörfuna, flokkaði pappíra, henti ógrynni af drasli úr skápum og af borðum, þurrkaði af, vaskaði upp, þreif baðherbergið í hólf og gólf, pússaði spegla, skipti á rúminu, henti útrunnum mat úr ísskápnum, vökvaði blómin, flokkaði þvott, sneri sófanum á hvolf og tók af honum áklæðið, fór með glerflöskur og pappíra út í gám, auk margra ruslapoka út í tunnu. Klukkan átta setti ég í fyrstu þvottavélina, það má víst ekki byrja fyrr, kunni heldur ekki við að ryksuga fyrr en um hálf níu leytið. Klukkan níu bankaði ég uppá hjá konunni á jarðhæð til að kaupa þvottamyntir, sá inn um gluggann að hún var vöknuð. Ég þvoði og þurrkaði fjórar vélar og að öllu þessu loknu var klukkan að verða ellefu, og ég komin með langan innkaupalista yfir hluti sem mig bráðvantaði á heimilið. Ég setti því upp andlit og hár og skundaði í bæinn.

Ég fann ekki allt sem á listanum stóð en náði þó að fjárfesta í skrúfum fyrir baðhillu, kalkhreinsi fyrir hraðsuðukatla, þvottaefni, kertum, naglabursta og ruslafötu á baðherbergið. Auk þess fór ég með flöskur í endurvinnslu. Þá var ég orðin ansi svöng svo ég settist inn á uppáhalds litla staðinn minn og fékk mér kjúklingabringu, kartöflugratín og karrýpasta og las blöðin. Hélt svo heim á leið, gekk frá innkaupunum, festi upp baðhilluna og raðaði á hana, sótti síðasta fataskammtinn í þurrkarann og gekk frá.

Eftir þetta settist ég á sófann minn, virti fyrir mér verk mitt og sá að það var gott. Því var kominn tími á hvíld, enda klukkan orðin hálf tvö. Ég stillti klukkuna á fjögur til að ég myndi ekki sofa fram á kvöld og taka enn eitt næturæðið, en það gekk ekki betur en svo að ég lokaði augunum í augnablik eftir að klukkan hringdi og raknaði ekki úr rotinu fyrr en klukkan átta í kvöld og vissi þá ekki hvar ég var stödd í heiminum. Ég reif mig þá á fætur, hitaði te og kveikti á kertum og nú vantar bara ekta íslenskt óveður byljandi á glugga, þá væri þetta fullkomið. Mikið líður manni nú vel í svona hreinni og fínni íbúð, með baðhillu!

föstudagur, nóvember 16, 2007

Smá myndasería

Ég og Anna Mjöll á Dubliners í sumar, nýkomnar úr róðrarferð í Christianshavn sem var nú heldur betur sökksess. Brúnar og sætar.




Ég fór í stutt sumarfrí með ma, pa og Gumms á Lolland, Falster og Møn. Við heimsóttum Knuthenborg safari park, þar missti ég mig í að hlaupa á eftir geitum og ösnum og þetta dýr missti sig í að hlaupa á eftir mér. Ég náði þó að gefa því að borða fyrst.



Snemmsumars var Ísland sótt heim og fór ég ásamt Hugrúnu í smá túristaferð um Húsavík og nágrenni. Hestaferðin hræddi nánast úr mér líftóruna, en ég hló allan tímann og vældi úr hlátri þegar hesturinn fór á stökk. Alveg eins og Fagriblakkur!

fimmtudagur, nóvember 15, 2007

Er að missa mig

Hún er nú að breytast í hálfgert video blogg hjá mér þessi síða. En svona er þetta, ég er búin að sanka að mér of mörgum snilldar myndböndum til að láta þau fara til spillis. Svo er ég auðvitað yfir mig ástfangin af David Walliams og hef þörf fyrir að deila þeirri ást með umheiminum. Ég get svo svarið það, mig er farið að dreyma hann. Algjört sjarmatröll. Svo er hann með svo ansi laglegar hendur maðurinn.

Þetta er alveg jafn gott myndband og það með forsætisráðherranum hérna að neðan, ef ekki betra. Sebastian Love í über kynþokkafullri senu. Wrarrr, væri til í að vera forsætisráðherrann þarna!





miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Fugladansinn

Fyrir nokkrum vikum síðan kom Nicola samstarfskona mín til mín með miklum æsingi og sagði að ég hreinlega ÞYRFTI að sjá myndband sem hún var að horfa á á netinu. Það væri fugl að dansa og hann væri aaaaalveg eins og ÉG!! "Núnú" segi ég, "er ég nú orðin alveg eins og fugl?" "Já þetta er páfagaukur" segir hún... eins og það sé eitthvað skárra. "Og hvers vegna er ég alveg eins og páfagaukur?" spyr ég. "Jú hann lyftir fótunum svona þegar hann dansar" segir hún og leikur fuglinn. "Ahaaaaa" segi ég, ekki laust við að vera smá móðguð. "It just reminded me of you, he has you energy. Your are always so glad and smiling, joking and full of energy" sagði hún.. "Nú jaaaaá...ætli ég sætti mig þá ekki við samlíkinguna" sagði ég þá að deyja úr stolti yfir að vera svona æðisleg.

Ég sá þetta myndband aldrei...ekki fyrr en í kvöld er Kristján Pétur sendi mér link. Og segið mér nú, minnir þetta virkilega á mig?



þriðjudagur, nóvember 13, 2007

Að vera eða ekki vera

Það er full vinna að gera sig fallega. Það þarf að baða sig og skrúbba, bestur árangur næst með pílingkremi og skrúbbhönskum, olíur og sölt í baðið er mikið möst, þvo og næra hárið og klippa það og lita inn á milli, hreinsa eyru, greiða sér og kannski blása hárið, raspa sigg af hælunum, snyrta neglur og naglabönd á höndum og fótum, handkrem og fótakrem, fjarlægja hár af ýmsum líkamshlutum með rakstri og vaxi, plokka og lita augabrúnir, bera á sig boddílósjon, ekki verra að hafa það með smá brúnku í, hreinsa andlitið og píla, leggja maska og bera á andlitið olíur, serum og krem kvölds og morgna, varasalva til að halda vörunum mjúkum, augnkrem til að halda hrukkunum í burtu, naglaolíu til að halda nöglunum fallegum. Andlitsfarði er ómissandi, svolítill meikslatti, maskari og gloss gerir gæfumuninn, ilmvatn og líkamssprey, hárgel/sprey/mödd og hvað þetta nú heitir allt í hárið, bursta tennur, nota tannþráð og munnskol, sólarvörn.

Öll þessi vinna ber mig jafnan ofurliði og geng ég þá um óböðuð og úfin, andlitslaus, loðin, sambrýnd og illalyktandi og finnst bara ekkert að því.

Hjálpið mér nú fólkið mitt

Ung kona sem ég er að vinna með er á leið til Íslands um næstu helgi með kallinum og hópi fólks. Farið verður í Bláa lónið, vélsleðaferð, útreiðartúr og fleira. Öfund! Mig hefur alltaf langað í túristaferð um Ísland. Hvað um það, þau eiga víst eitt fríkvöld og hún bað mig um að stinga upp á einhverjum stað sem gaman væri að fara á, fá sér drykk og svo framvegis. Mér dettur barasta ekkert í hug, langt síðan ég hef stúderað Reykjavík, svo ég bið hér með um uppástungur að skemmtilegum stöðum.

mánudagur, nóvember 12, 2007

Ég er nú alveg met

Helbrigðisflipp

"Vaknaði klukkan hálf níu í morgun, ofurfersk! Fór í smá teiti til Birnu í gærkvöldi, allar stelpurnar samankomnar á ný auk nokkurra steggja. Ég var svooo þreytt, setti upp Tweety and Friends derhúfu, lét upptakara og kveikjara í gallajakka vasana mína og var Sue trukkalessa fram á nótt. Hrúgaði svo liðinu í bílinn og keyrði það út í nóttina og fór heim og las Herbalism bókina mína (ekki herbaLIFE nota bene).
Tók smá rúnt í morgun yfir í heiði og horfði á fallega bæinn minn, fór svo aftur heim að lesa herbalism og sofnaði svo aftur. Ætla svo í sund á eftir og vera ógeðslega heilbrigð. Mætti alveg vera meiri sól svo ég fái lit á Redneck kroppinn minn, en það verður að bíða betri tíma."


Var að renna yfir gamlar færslur og þessi er frá því í maí 2004. Ég hefði allt eins getað verið að lesa blogg einhvers annars, því ég hef ekki hugmynd um hvað ég var að skrifa um. "Setti upp Tweety and Friends derhúfu, lét upptakara og kveikjara í gallajakka vasana mína og var Sue trukkalessa fram á nótt." Hverjir eru Tweety and friends? Og hver er Sue trukkalessa? Jeminn hjálpi mér, refresh my memory please.

Evolution of Dance

Að ég skuli ekki hafa birt þetta áður á síðunni minni! Þetta myndband er æðislegt, ég horfi reglulega á það ef farið er eitthvað að slakna á brosvöðvunum. Svo er alltaf eitthvað svo sexy við menn sem kunna að dansa..;)

föstudagur, nóvember 09, 2007

Dagur hinna góðu kaupa og furðulegu manna

Ég rauk á fætur fyrir allar aldir í morgun til að ná að útrétta fyrir vinnu. "Fyrir allar aldir" þýðir að þessu sinni klukkan hálf níu þar sem ég átti ekki að mæta í vinnu fyrr en hálf tólf. Fyrst sótti ég afmælisgjöfina mína frá ma, áðurnefndan undra-ljósa-lampa, fróðlegt að sjá hvernig hann virkar. Ég arkaði með hann heim og skilaði af mér og hélt leiðangri mínum svo áfram. Næsta stopp var aðalbrautarstöðin.

Til að komast á aðalbrautarstöðina þurfti ég að taka lestina frá Nordhavn station. Þegar ég er á leiðinni upp tröppurnar sé ég að lestin er að renna að palli og skokka því af stað til að ná henni. Lestarstjórinn skrúfar niður rúðuna, stingur höfðinu út um gluggann og sér mig koma hlaupandi, fylgist með mér nálgast, ég hleyp framhjá honum og að lestardyrunum sem eru svona þrjá metra frá glugganum, hann horfir á eftir mér, ég ýti á takkann til að opna aftur dyrnar sem eru að lokast, lestarstjórinn enn með hausinn út um gluggann og horfir á mig, læsir dyrunum og horfir enn á mig, ég horfi á hann með undrunarsvip, hann hverfur úr glugganum, skrúfar rúðuna upp og keyrir í burtu. Sumt fólk er bara furðulegt.

Ég komst með næstu lest á aðalbrautarstöðina en þar hafði ég haft uppi á búð sem selur Little Britain á hreinu gjafaverði. Ég fjárfesti í öllum þremur seríum, sex diskum, og borgaði aðeins 365.- kr fyrir. Danir þekkja sem sagt ekki þessa þætti. Er svo búin að bíða í allan dag með fiðrildi og hnúta í maganum eftir að komast heim og horfa á þriðju seríuna. Þar sem ég er komin með smá leiða á að enginn skilji brandarana mína í vinnunni (sem skiptir svo sem engu máli, það hlæja allir samt) lánaði ég Marianne fyrstu seríuna og skikkaði hana til að horfa á hana í kvöld. Á morgun ætlum við svo að hafa Girls Night IN, horfa á Litla Bretland, borða mikið af pizzu og rústa Playstation gítarleiknum hans Johns.

Að sjálfsögðu keypti ég smá gos og snakk á leiðinni heim úr vinnunni til að njóta Mr. Walliams maraþonsins sem best, og greip nokkrar nauðsynjar með í leiðinni, þrammaði svo heim á leið og þar sem hálfgerð slydda var í lofti setti ég upp loðhettuna á úlpunni minni. Það var ansi hvasst og hettan vildi ekki vera á sínum stað svo ég tosa hana alveg niður í augu, set höfuðið undir mig og tek pokann í fangið. Ég trítla í hælana á eldra pari en manninum virtist ekkert vera mjög vel við það, hann sneri sér ítrekað við og horfði á mig. Ég lendi vinstra megin við þau því þau gengu svo hægt en fatta svo að ég þarf að beygja til hægri svo ég tek skarpa hægri beygju aftur fyrir þau og þá hélt ég að manninum væri hreinlega öllum lokið, hann snarsneri sér við með hliðarhoppi og starði á mig svo ég varð bara hálf skelkuð, en hélt þó ótrauð áfram ferð minni. Hann hefur örugglega haldið að ég ætlaði að ráðast á þau. 160 sentimetra hár ofbeldisdólgur með loðkragahettu og Irma poka í fanginu.

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Little Britain - Sebastian in the US

Ég er mikill aðdáandi Little Britain. Svo mikill aðdáandi að sjúkt gæti talist. Er búin að horfa á öll atriði úr þáttunum mörgum sinnum. Ég fer jafnan með fleyg orð úr þáttunum í vinnunni, til mikillar gleði viðstaddra, sem þó hafa aldrei séð þættina. David Walliams er orðinn átrúnaðargoð mitt, kynþokkafyllri mann er varla hægt að finna, og forsætisráðherrann kemur sterkur inn í annað sætið. Þetta er eitt uppáhalds atriðið mitt úr þáttunum.

Heilræði ömmu


Æviskeið mitt ungi vinur
ætla má að styttist senn.
Harla fátt af fornum dómum
fullu gildi heldur enn.
Endurmeti sínar sakir
sá er dæmir aðra menn.

Gleðstu yfir góðum degi,
gleymdu því sem miður fer.
Sýndu þrek og þolinmæði
þegar nokkuð útaf ber.
Hafi slys að höndum borið
hefði getað farið ver.

Aldrei skaltu að leiðum lesti
leita í fari annars manns,
aðeins grafa ennþá dýpra
eftir bestu kostum hans.
Geymdu ekki gjafir þínar
góðum vini í dánarkrans.

Heiðrekur Guðmundsson

Þá veit ég hvaðan Pollýönnu hugsunarháttur minn kemur;)

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Engin er saga án sannana...

...segir nýtt máltæki. Tinne snillingur lumaði á þessari í símanum sínum.




Fyrir þá sem ekkert skilja í þessari færslu er útskýringin hér

mánudagur, nóvember 05, 2007

Ammili

Þá er maður orðinn árinu eldri en í gær. Tíminn líður hratt..!

Dagurinn byrjaði mjög furðulega á því að ég fór á fætur klukkan sjö án þess að snúsa og fékk mér danska AB-súrmjólk með speltfleksi. Hvorugt hefur gerst í langan tíma. Í vinnunni arkaði Nellieann samstarfskona mín í hótel eldhúsið, ákveðin á svip, og bað um að afmæliskringla yrði bökuð í tilefni dagsins, sem og var gert þegjandi og hljóðalaust; við sóttum kaffi og kakó og buðum svo til afmælisveislu.

Yfirkonu minni fannst ég eiga skilið smá dekur eftir þrælkunarvinnu síðustu mánuða (orðaði það reyndar ekki þannig en ég valdi að skilja það þannig) og splæsti á mig klukkutíma nuddi frá ellefu til tólf í boði Nellie. Ég nudda jú "hálfan liðlangan daginn" en hef sjálf ekki fengið nudd síðan við stelpurnar í skólanum þjösnuðumst hver á annarri fyrir ári síðan eða svo, og voru nuddhæfileikarnir þar mjög misjafnir, svo ég var ansi sátt við þetta framtak. Ég fann heldur betur fyrir því hvað ég er aum í kroppnum, var farin að væla á tímabili, en það "á" víst "að vera vont áður en það verður gott".. haft eftir sjálfri mér.

Ég fór svo beint eftir vinnu í mat til S og P í Lyngby þar sem tekið var á móti mér með kyndlum og fánum og steik með bernais. Fátt betra en það. Lak svo niður eftir matinn, alveg búin á því, enda hálf ósofin af spenningi yfir að eiga afmæli!

Ég þakka fyrir allar afmæliskveðjurnar sem ég hef fengið í dag í gegnum miðla nútímans. Þeir sem sendu mér ekki kveðju, þið getið bara átt ykkur...!

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Séra Svavar og afi

Ég rakst nýverið á bloggsíðu séra Svavars Alfreðs, sóknarprests í Akureyrarkirkju, og hef ég gaman af að lesa hana. Heitar umræður sem eiga sér stað þar oft og tíðum. Ég kipptist þó heldur betur við í dag þegar ég sé efst á síðu hjá honum fyrirsögnina "Rangir menn á röngum stöðum" og mynd af afa mínum heitnum undir fyrirsögninni. Ekki leist mér nú á það, en eftir að hafa lesið greinina er augljóst að fyrirsögnin ætti að vera "Réttir menn á röngum stöðum" :) Hér er færslan

þriðjudagur, október 30, 2007

Þá er ég meira en lítið fallin

Ég hef nú alltaf verið hálf skotin í spinning kennaranum mínum, en í kvöld kolféll ég alveg. Ég hef mjög gaman af spinning og mæti reglulega í tíma til að halda blóðinu á hreyfingu, og oftast er það hjá þessum unga manni. Ég er búin að hjóla hjá honum í ár núna (ekki að árangurinn sé sjáanlegur, en það er önnur saga) og það er alltaf jafn gaman að mæta.

Hann er svolítið öðruvísi en hinir kennararanir. Þeir eru allir voða sporty töffarar, litlir, massaðir naggar sem öskra mann áfram og eiga það til að koma og þyngja á hjólinu hjá manni. Það er allt gott og blessað, gott að láta pína sig áfram, en ég kýs að hjóla hjá mínum manni. "Lítillátur, ljúfur, kátur" passar vel við hann. Með góðleg augu og bjartan svip. Segir skemmtilegar sögur af sjálfum sér, hleypur skoppandi um salinn og telur fyrir okkur taktinn; "Þetta er alveg eins og að dansa!" segir hann alltaf og hoppar frá öðrum fætinum yfir á hinn. Honum er mikið í mun að við höldum taktinn. Svo spilar hann alltaf svo skemmtilega tónlist, í sumar var hann með Madonnu þema þar sem við hjóluðum við uppáhalds Madonnu lögin hans. Seinna var hann líka með Justin Timberlake þema, í tilefni af því að hann var á leið á tónleika með honum í Parken. Svo finnst honum voða gaman að spjalla. Spyr okkur um eitthvað í hverjum tíma, eitthvað úr fréttunum, það sem er að gerast í bænum, hvað sem er. Hann yrðir reyndar sjaldan á mig (þó hann kíki nú stundum á mig) en lendir oft í hörku samræðum við Tinne, sextugan spinningfélaga minn. Hún er reyndar með króníska munnræpu svo það er varla hjá því komist að tala við hana. Hún talar við alla í ræktinni og þekkir flesta með nafni. Hvað um það.

Fyrir nokkrum mánuðum hélt hann eighties spinning. Ég var að vinna svo ég komst því miður ekki, en hann mætti með sítt að aftan brodda hárkollu og hjólaði með hana tvöfaldan tíma. Mjög svekkt að hafa misst af því. Minnisleysi hefur eitthvað verið að hrjá mig undanfarið svo ég mundi ekki eftir þema tímans í dag, en mundi það um leið og ég kem inn í salinn. Og þar með er komin ástæðan fyrir stórfalli mínu í kvöld; Þar stendur minn maður í rökkvuðum sal í skini kertaljósa í beinagrindarsamfestingi í óða önn að safna saman miðum. Ég brosti út að eyrum! Ekki minna spaugilegt hvað samfestingurinn var þröngur. Svo þegar tíminn byrjar toppar hann þetta gjörsamlega með því að draga yfir höfuðið á sér hauskúpu-lambhúshettu (bara göt fyrir augun) og setja upp beinagrindarhanska. Ég var ekki ein um það að hlæja mikið þá. Yndislegur maður. Hann hjólaði með árans lambhúshettuna allan tímann, ekki einu sinni gat fyrir munninn, og hegðaði sér ekkert öðruvísi en í venjulegum tíma. Snillingur. Það sem gerir þetta allt ennþá fyndnara er það að þessi maður vinnur ekki dags daglega sem spinningþjálfari...nei nei, hann er prestur!

föstudagur, október 26, 2007

Oldie goldie

Þegar ég bjó í Danmörku 1990 til 1991 átti ég flottan nágranna, Kaptein Lundberg. Hann var yfirlífvörður drottningar, gekk fremstur í flokki í vaktskiptunum og heilsaði okkur með stafnum sínum. Kapteinninn bauð okkur í heimsókn í Amalienborg, bústað drottningar og í Fredensborg þar sem hann lét lífverðina bera fyrir okkur kökur og kaffi. Fyrstu tvær myndirnar eru teknar í Amalienborg og sú þriðja fyrir utan Fredensborg. Pabbi og Heiggi eru þarna á annari myndinni. Takið eftir klæðnaðinum á okkur, ég er sérstaklega móðins, stuttu gulrótarbuxurnar og gallaskyrtan við, hvítu sokkarnir og leðurskórnir, einstaklega smekkleg samsetning. Takið einni eftir hvernig bolurinn minn er vel girtur ofaní bleiku krumpubuxurnar, og að sjálfsögðu í leðurskónum við. Skóbúðir í hálfu Þýskalandi voru þræddar til að finna þessa skó á mig. Ég hef alltaf verið með mjög sérstakan og ákveðinn skósmekk. Þegar ma sendi mér þessar myndir spurði ég hvað hún hefði eiginlega verið að hugsa þegar hún klæddi mig í gamla daga, hún dæsti bara og sagðist ekki vita það.






Úmg! Er að taka eftir axlapúðunum núna!! Var einmitt að spá í hvað ég var ansi herðabreið í denn... Einnig gaman að því að á síðustu myndinni er Inger, kona kapteinsins, með hundinn Sófus, klædd í gallabuxur og gallaskyrtu..ég hef greinilega verið ansi vel inni í tískunni!

miðvikudagur, október 24, 2007

Sokkaskrímslið

Í síðustu viku var ég að útrétta á Nordre Frihavnsgade, ágætis verslunargata með allskyns skemmtilegum búðum, þegar ég kem auga á skilti sem fær mig heldur betur til að stansa. "Sok 10 kr" stendur á skiltinu sem stendur í miðjum haug af sokkum, fimm í pakka. Þetta fannst mér kostaboð og maður getur aldrei átt nóg af sokkum, svo ég vel mér eitt búnt af svörtum sokkum og eitt í blönduðum litum og fer inn í búðina. Ég skoða mig aðeins um í búðinni, máta eitt pils, en finn ekkert sem mér líst á svo ég fer að kassanum til að borga. Afgreiðslumaðurinn var mjög hommalegur maður á miðjum aldri í blátíglóttri peysu með ljósar strípur í hárinu. Hann stimplar sokkana inn í kassann og ég sé á skjánum að hann hefur stimplað inn 50 krónur fyrir hvort búnt. "Hummm" segi ég, "kosta þeir ekki tíu krónur?". Og svipurinn sem kom á manninn. Það var eins og ég hefði kúkað upp í hann! Hann gefur frá sér ógurlega stunu, mínusar sokkana út úr kassanum og segir; "Auðvitað get ég ekki selt þér fimm sokka á tíkall!". "Af hverju ekki?", spyr ég. "Hvað eiga þá stöku sokkapörin að kosta?" spyr hann. "Uhhh það voru engir stakir sokkar" segi ég. "!" segir hann, ranghvolfir í sér augunum og gengur út úr búðinni. Ég stóð og horfði á eftir honum, vissi ekki almennilega hvað ég átti að gera en ákveð svo að best sé að labba á eftir honum. Hann treður sokkabúntunum mínum aftur ofan í kassann, grefur upp stakt sokkabúnt og otar því að mér. "Hvað er þá þetta?" "Nú þarna voru þeir já, segi ég" og horfi á þrjú stök sokkapör útí horni í hrúgunni. Svo kom þögn, hann raðaði sokkum og dæsti og urraði og ég tvísté, ekki alveg viss um hvað ég átti að gera. Segi svo "ja þú ættir þá kannski að fjarlægja þetta skilti, það er svolítið misvísandi." Hann horfir á mig þvílíkum fyrirlitningaraugum að ég forða mér hið snarasta, vildi helst ekki láta klóra úr mér augun fyrir tvo sokkapakka.


mánudagur, október 22, 2007

Af birtumeðferð og B konum

Það er ótrúlegur munur á að koma sér fram úr rúminu núna og fyrir mánuði síðan. Þegar klukkan hringir klukkan sjö á morgnana (sem er nú ekki oft, en kemur fyrir) þá á ég alltaf jafn bágt með að trúa því að það sé ekki mið nótt ennþá. Það er jú niðamyrkur og ég sé varla handa minna skil. Þetta ætti hreinlega að vera ólöglegt, þarf greinilega að fara að drífa mig á þing til að gera það að lögum að eftir 1. október og fram til 1. apríl skuli enginn þurfa að fara á fætur fyrr en í fyrsta lagi klukkan átta. Þegar það er svona dimmt á morgnana er heilinn einfaldlega ekki tilbúinn til að vakna svona snemma, og það er ekkert "sálrænt" heldur algjörlega líkamlegt hormónaástand.

Danir eru jú alveg sér þjóðflokkur eins og vitað er svo í fyrravetur var mikið fjallað um það í blöðunum að skipta ætti fólki niður í A og B fólk; A fólkið sem er morgunhanar og B fólkið sem er nátthrafnar. Eða á hinn veginn, A fólkið sem fer snemma á fætur og B fólkið sem fer seint á fætur. Það sem umræðan snérist um var það að leyfa ætti B fólki að mæta seinna í vinnu og skóla og vinna í staðinn aðeins lengur á daginn. Og þetta var engin grín umræða, það liggja víst frammi vísindalegar sannanir á þessum mun á fólki. Þetta finnst mér alveg mögnuð hugmynd, myndi bæta skap margra til muna.

Ég stóð á lestarstöðinni í kvöld að bíða eftir lestinni minni þegar ég sá auglýsingu rúlla yfir auglýsingaskilti á næsta brautarpalli. Ég stekk nær til að sjá betur og viti menn, held ég hafi hreinlega séð ljósið! Þetta er snilldar uppfinning. Wake Up Light frá Philips. Hálftíma áður en maður ætlar að vakna kveiknar á ljósinu og það verður sífellt sterkara á þessum 30 mínútum þangað til það nær 250 Lux (ljósstyrksmælieining). Í gegnum augun fara skilaboð til heilans um að framleiða meira magn af hormóninu kortisol sem er nokkurs konar "orkuhormón" sem fær líkamann til að vakna. Svo getur maður valið milli mismunandi vekjaratóna, til dæmis fuglakvak, ölduhljóð eða endur og froska. Ég meina, getur maður annað en vaknað brosandi við endur og froska!? Snilld:) Svo getur maður notað lampann sem leslampa og fengið birtumeðferð (light therapy, upp á útlenskuna) í leiðinni. Það hefur reynst virka vel gegn skammdegisþunglyndi, eða "vetrar óyndi" eins og svo vel hefur verið orðað...þyrfti sem sagt að vera til svona lampi á öðru hverju heimili á Íslandi;)




Annars er helst að frétta að ég er gjörsamlega lurkum lamin! Fékk þvílíka útrás í sjálfsvörninni í gær, barði alla púða í spað (með tilþrifum og tilheyrandi svip) með þeim afleiðingum að ég held ég hafi rifið alla vöðva í líkamanum. Get ekki klætt mig í jakkann minn án þess að fara í furðulegustu stellingar, og gat varla nuddað í dag, fann svo ógurlega til í handleggjunum, frá úlnliðum aftur á herðarblöð. Af anditinu er það að frétta að vörin er bara orðin ansi lagleg, sár gróa víst mjög hratt í munninum, en það er farinn að síga örlítill blámi á augað. Ég þurfti að sjálfsögðu að segja Kung Fu söguna tíu sinnum í vinnunni í dag, stór vinnustaður, var að spá í að boða bara til blaðamannafundar, var komin með svo mikinn leiða á að þurfa að útskýra aftur og aftur. Marianne tók að sér helminginn og sagði flott frá því þegar hún sá mig koma labbandi að henni með blóðið fossandi niður andlitið. Henni brá ansi mikið. Það fyrsta sem hún gerði var víst að rífa upp á mér ginið til að athuga hvort allar tennur væru á sínum stað;) Við erum samt svo nettar á þessu, skildi enginn í vinnunni hvað við hlógum að þessu öllu, bjuggust allir við að við værum í sjokki. En við erum bara glaðar að ekki fór verr og svo er þetta nú pínu fyndið svona eftirá, litla ég að stökkva á brjálaða ofbeldisdólga!

laugardagur, október 20, 2007

Rocky is my middle name

Það ríkir engin lognmolla í kringum mig núna fremur en fyrri daginn. Ég fór á sjálfsvarnarnámskeið fyrir konur á föstudaginn, ótrúlega gaman. Áhugavert, en auðvitað "kommon sens" ef maður spáir í það, það sem kennarinn lagði aðaláherslu á. Þegar ég vann í Ríkinu í Austurstræti fengum við smá sjálfsvarnarnámskeið, flott trikk sem hægt er að nota ef ráðist er á þig. Það sem námskeiðið hér gengur út á er að ef ráðist er á þig, þá verður þú auðvitað mjög hrædd og hjartað slær alveg á milljón, og þegar maður er svona hræddur, þá er ómögulegt að ætla sér að nota einhver flott og flókin trikk. Svo það sem við æfðum var einfaldlega að sparka og slá af fullum krafti og öskra. Nota mjög einfalda tækni sem meiðir þann sem ræðst á þig. Sem sagt, hné í punginn, fótur í punginn, olnbogi í magann, fótur í sköflung og hné og flatur lófi til að kýla upp undir hökuna á árásarmanninum. Við æfðum saman tvær og tvær á boxpúða sem önnur hélt og hin misþyrmdi. Og það er ótrúlegt hversu mikinn kraft við höfum í líkamanum stelpur! Maður uppgötvar það þegar maður heyrir skellinn á boxpúðanum. Og það er víst þannig í pottinn búinn að þó að karlmenn séu sterkari en konur þá munar einungis 20 prósentum á kraftinum! Og 80 prósent mannskraftur er ansi mikið. Annar hluti námskeiðisins er á sunnudaginn, og þar sem ég er nú ekki þekkt fyrir neitt hálfkák, þá mun ég mæta all glæsileg í þann tíma. Útskýring fylgir hér að neðan.

Ég hitti góðvinkonun mína og vinnufélaga Maríönnu og vinkonur hennar eftir námskeiðið og við sitjum og spjöllum fram á nótt en ákveðum svo að hitta John kærastann hennar í bænum. Hann er tveggja metra sænskur íshokkírumur, stór og sterkur, flottur maður. Við tökum smá pöbbarölt og erum svo að síga heim á leið í gegnum bæinn, við þrjú og vinur Johns þegar allt í einu gerist eitthvað sem ekkert okkar fattar almennilega núna, gerðist svo hratt. Allavega koma þrír, fjórir gaurar að okkur og byrja eitthvað að bögga Maríönnu og John brjálast og æðir í einn gaurinn. Vernda konuna sína. Það næsta sem gerist er að guttarnir ráðast allir sem einn á John, henda honum niður á hjólagrind á götunni og byrja að berja og sparka í hann liggjandi. Ég varð ógurlega hrædd þegar ég sé að þeir fara að sparka í andlitið á honum og sé að þetta stefnir í eitthvað hættulegt, svo ég hleyp af stað og stekk á einn mannana sem situr ofan á John og er að kýla hann. Hélt þeir myndu drepa hann svo ég ætlaði mér að hindra það. Það er kannski ekki skynsamlegt að blanda sér í svona slagsmál en það var ekki alveg það sem ég var að hugsa um þarna, varð hrædd um John. Held að flestir myndu gera það sama.

Ég reyni að rífa hann í burtu og öskra á hann að hætta. Svo finn ég bara högg í andlitið og er svo hent í götuna og finn mikið til í andlitinu. Ég brölti á fætur og skil ekki almennilega hvað gerðist, var mjög ringluð, en sé allt í móðu með vinstra auganu. Ég sé að slagurinn er enn í gangi og Marianne er að reyna að rífa einn gaurinn af John svo ég skakklappast að þeim til að hjálpa þegar allt í einu kemur fullt af fólki hlaupandi að mér skrítið á svipinn og einhver skellir pappír í andlitið á mér. Ég lít þá niður á peysuna mína, ljós peysa, og sé að hún er öll í blóði , hendurnar á mér líka, buxurnar og skórnir ("og ég sem VAR að þvo skóna!", hugsa ég (Bleikir adidasskór)) og svo held ég á karlmannsúri í annarri höndinni. Það lekur blóð úr munninum á mér og úr enninu niður í augað á mér. Allt í einu fyllist svo gatan af löggum, þeir voru ansi snöggir á staðinn svo það hlýtur einhver að hafa hringt í þá um leið og þetta byrjaði. Ég sé tvo menn spretta í burtu niður hliðargötu og lögreglumenn á eftir.

Eftir þetta er allt í hálfgerðri móðu hjá mér, man bara að ég stóð og titraði og skalf og lögreglumaður að reyna að tala við mig. Ég sýndi þeim skilríki og þeir skrifuðu niður hver ég var, veit ekki hvar Marianne og John voru á þessum tímapunkti, ég var öll í því að reyna að stoppa blæðingar í andlitinu á mér. Svo kemur John og bara starir á mig, ég tók ekkert eftir hvernig hann leit út þarna, en hann spyr hver í fjandanum hafi gert mér þetta. Ég segist ekki vita það en tveir ungir menn sem voru vitni að þessu bentu lögreglunni á manninn og ég bendi á hann og segist hafa heyrt að það hafi verið þessi. Þá tryllist John gjörsamlega aftur og æðir af stað í manninn, ekki mjög gáfulegt þar sem það var komin RÚTA af löggum á staðinn svo hann fékk fjóra lögregluþjóna á sig um leið sem snéru hann í götuna, handjárnuðu hann og færðu í fangageymslu! Ég get samt ekki neitað því að mér þykir ótrúlega vænt um að hann hafi brugðist svona við. Ekki hver sem er sem þorir að verja vinkonur vitandi það að löggan muni líklega fangelsa hann. Hann var samt það skynsamur að hann lét handjárna sig alveg mótþróalaust.

Þegar John var farinn kemur svo ungur löggumann, man það að hann var mjög myndarlegur;) og segir við mig að ég geti kært en ég verði þá að fara á slysó og fá áverkana staðfesta. Ég segi við hann eins og er að ég viti ekki hver gerði þetta og muni ekki alveg hvað gerðist. Hann segir þá að það skipti engu því það séu tvö vitni sem séu búin að benda á manninn. Þeir stóðu álengdar og voru að tala við aðra löggu og horfðu á mig vorkunnaraugum;) Ég hálf vælandi segi að ég hafi jú ráðist á hann! "Þú gerðir ekkert rangt" segir hann, "þú varst bara að reyna að stöðva slagsmálin." Svo skrifaði hann niður á miða hvert ég ætti að hafa samband til að kæra. Honum hefur líklega fundist rétt að ég myndi kæra miðað við blóðbaðið á peysunni minni. Ja, svo að yfirheyrslum loknum fannst Mariönnu skynsamlegt að ég myndi bara kom með henni heim svo við drifum okkur inní leigubíl, "árásarmaðurinn" var ennþá á staðnum og ég vildi bara komast í burtu. Svo við förum heim til hennar, leggjum fötin mín í bleyti og bíðum eftir að heyra frá John. Hann kemur svo heim um 9 leytið um morguninn og jeminn eini! Maðurinn er blár og marinn í framan með risa kúlur á höfðinu og skrapaðar og bólgnar hendur. Hann hefur greinilega náð nokkrum höggum. Marianne getur varla hreyft á sér vinstri handlegg þar sem einn mannanna snéri svo illa uppá hann að hún heyrði eitthvað bresta. Ekki mjög gott þar sem hún er nuddari. Við vorum svo all glæsileg í dag, liggjandi klessur á sófanum, marin og blá og stirð;)

Áverkarnir mínir eru ekki svo slæmir, þetta leit bara mjög illa út í byrjun því það fossaði svo úr sárunum. Ég er með skurð á augabrúninni sem Marianne teipaði vel um nóttina, hún er vön augabrúnaskurðum þar sem hún hjúkrar John eftir íshokkíleiki, og svo með skurð á vörinni, sem betur fer er á innanverðri vörinni svo ég mun ekki fá ör. Svo er ég ansi aum í nefinu. Því miður mun ég fá ör á augabrúnina. Flott að hafa eitt stykki Rocky ör í andlitinu. Úrið sem ég hélt á reyndist tilheyra John og ég hef ekki hugmynd um af hverju ég hélt á því! Ég hef ekki hugsað mér að kæra þar sem ég er hálf vonlaust vitni, veit hvorki alveg hvað gerðist né hver gerði það.
Og svo verð ég að segja það að eitt er að lumbra á tveggja metra vöðvabúnti, það er allt annað mál að berja litla stelpu sem reynir að stöðva slagsmál. Þvílíkt svín.

Ansi verður gaman að mæta á sjálfsvarnarnámskeiðið á morgun, krambúleruð og teipuð í framan. Það sýnir jú að ég tek þetta námskeið mjög alvarlega og vinn heimavinnuna mína vel!

föstudagur, október 19, 2007

Færeyska sauðkindin

Ég er mikill aðdáandi Vísindavefjar Háskóla Íslands. Get gleymt mér þar tímunum saman. Á vefnum er skemmtileg spurning...og mjög skemmtilegt svar sem ég verð að birta hér.


Spurning:
"Eru kindur í Færeyjum með mislangar lappir, til að geta staðið betur í hlíðunum þar?"


Svar:
"Í Færeyjum eru tvö sauðfjárkyn. Annað er með lengri vinstri lappir, hitt með lengri hægri lappir. Það fyrra snýr alltaf hægri hliðinni upp í hlíðina, hitt vinstri hliðinni. Það fyrra fer í sífellu réttsælis kringum eyjuna, hitt rangsælis. Þetta er kallað aðlögun í þróunarfræðinni."

"Bændur þurfa að gæta þess vel að þessi kyn blandist ekki því að þá gætu komið út kindur sem væru jafnlangar í báðar lappir, og náttúruvalið verkar gegn því. Á þessu er raunar ekki heldur nein veruleg hætta vegna þess að kindur af mismunandi stofnum snúa aldrei eins og æxlast því ekki."




Þorsteinn Vilhjálmsson
prófessor í vísindasögu og eðlisfræði

fimmtudagur, október 11, 2007

Andy Pipkin and the Proclaimers

Ef þessi snilld kemur manni ekki í gott skap þá er maður nú bara einhver fýlupoki:) Dýrka þetta lag, vantar einn svona mann!

miðvikudagur, október 10, 2007

Only great minds can read this

ég er ekki alveg að trúa að einungis 55% sklji þennan texta.


This is weird, but interesting!

fi yuo cna raed tihs, yuo hvae a sgtrane mnid too.Cna yuo raed tihs? Olny 55 plepoe out of 100 can. i cdnuolt blveiee taht I cluod aulaclty uesdnatnrd waht I was rdanieg. The phaonmneal pweor of the hmuan mnid, aoccdrnig to a rscheearch at Cmabrigde Uinervtisy, it dseno't mtaetr in waht oerdr the ltteres in a wrod are, the olny iproamtnt tihng is taht the frsit and lsat ltteer be in the rghit pclae. The rset can be a taotl mses and you can sitll raed it whotuit a pboerlm. Tihs is bcuseae the huamn mnid deos not raed ervey lteter by istlef, but the wrod as a wlohe. Azanmig huh? yaeh and I awlyas tghuhot slpeling was ipmorantt!

Stafsetning ER mikilvæg! Stafsetningarvillur fara óstjórnlega í taugarnar á mér, það sama gildir um málfræðivillur. Og ekki benda mér á mínar villur, kýs að horfa fram hjá þeim;)

þriðjudagur, október 09, 2007

Ég veit - er ég dey - svo að verði ég grátinn,
þar verðurðu eflaust til taks.
En ætlirðu blómsveig að leggj´á mig látinn
- þá láttu mig fá hann strax.

Og mig, eins og aðra, sem afbragðsmenn deyja,
í annála skrásetur þú;
og hrós um mig ætlarðu sjálfsagt að segja,
en - segðu það heldur nú.

Og vilji menn þökk mínum verðleikum sýna,
þá verður það eflaust þú,
sem sjóð lætur stofna í minningu mína,
en - mér kæmi hann betur nú.

Og mannúðarduluna þekki ég þína,
sem þenurðu dánum í hag.
En ætlirð´ að breiða yfir brestina mína,
þá breidd´yfir þá í dag.

föstudagur, september 28, 2007

Helle hjá Skattinum er mögnuð kona

Það er margt skrítið í kýrhausnum! (Getur einhver útskýrt fyrir mér af hverju maður tekur svona til orða?)

Ég er búin að vera að kíkja á íbúða auglýsingar og rakst á þessa, ansi góð.


"Flot lyst værelse på 30 kvm. i Hellerup udlejes"


"Stort lyst værelse på 30 kvm udlejes billigt incl. varme, vask, eget køleskab og TV og evt. fri internet, mdl. Kr. 900.
Du skal til gengæld gøre rent i vores hus 6 timer ugentligt (ej weekend) og hente William i børnehave og se efter ham ca. 1 time 2 gange ugentligt.
Du skal være god og grundig når du gør rent og ikke have behov for at lave særligt meget mad, da du ikke har eget køkken. Du skal endvidere være ikke ryger og ingen husdyr.
Ring til os, hvis det er noget for dig og du er en sød og rolig pige.
Tlf. 51515592 helle.gudmann@skat.dk"


Fyrir þá sem eru ekki alltof sleipir í dönskunnu þá er hún Helle að auglýsa stórt og bjart herbergi til leigu, hiti, vaskur, ísskápur, sjónvarp og e.t.v. internet innifalið og kostar 900 danskar krónur á mánuði. Í skiptum fyrir herbergið skal leigjandi, sem á að vera indæl og róleg stúlka, þrífa húsið í 6 tíma á viku, vel og vandlega og sækja William í leikskólann og gæta hans tvisvar í viku í klukkutíma í senn. Auk þess má viðkomandi stúlka ekki hafa þörf fyrir að elda mikið þar sem hún hefur ekki eigið eldhús, og hún má hvorki reykja né eiga gæludýr. (Sérstök athygli skal vakin á því að hvergi er minnst á að leigjandinn hafi aðgang að klósetti eða sturtu. Þeim þörfum skal viðkomandi kannski sinna í áðurnefndum vaski?) Undir þessa snilldar auglýsingu kvittar svo Helle Gudmann sem vinnur hjá Skattinum!

Konunni hefur líklega fundist of mikið vesen að fá sér Au-Pair stúlku því henni þarf jú að gefa mat og leyfa henni að komast í bað annað slagið. Og hver ætli þessi William sé? Mig grunar að þetta sé maðurinn hennar sem er fóstra og þarf smá hlýju frá indælli og rólegri stúlku tvisvar í viku, klukkutíma í senn.

KjánaRollur!

Jæja, þá er það nokkuð ljóst að ég er ekki á leiðinni í sólarhringsapótekið við brautarstöðina næstu árin eða svo. Ég fór þangað fyrir nokkrum mánuðum til að sækja lyf, en læknirinn minn ætlaði að senda lyfseðilinn þangað. Það afgreiðir mig ungur myndarlegur maður en það kemur svo í ljós að læknirinn minn virtist ekki vera búinn að senda reseftið. Ungi maðurinn spyr mig hvaða lyf þetta ættu að vera og ég þuldi það upp og horfði upp í loft á meðan, finnst alltaf vandræðalegt að tala um lyf. Ég kem svo aftur 2 dögum síðar, dreg miða og lendi aftur hjá honum. Ég brosti og sagði hæ og hann alveg hææ, varstu ekki hérna í fyrradag? Jújú segi ég, lyfseðillinn minn ætti að vera kominn núna. Já skrítið að ég muni eftir þér sagði hann, það koma svo margir hingað. Það kom smá vandræðalegt moment og ég brosti bara og hann afgreiddi svo lyfin og brosti sætt;) Hvað um það, ég þurfti svo aftur í apótekið í kvöld að kaupa miður skemmtilegan hlut og var mjög fegin að sjá að maðurinn var ekki til staðar. Ég dreg númer og meðan ég bíð ákveð ég að kaupa fleiri skemmtilega hluti í leiðinni, ekki svo oft sem ég fer í apótek. Ég finn ansi sniðugt anti-andfýlu-munnskol, mjög sniðugt þar sem ég vinn nú oní andlitinu á fólki alla daga og kippi svo með mér double pakkningu með þungunarprófum, alltaf gott að hafa við höndina in case of emergency. Svo blikkar númerið mitt og ég var mjög nálægt því að fá panikk og hlaupa út úr apótekinu þegar ég sé hver á að afgreiða mig. En ungi maðurinn var búinn að koma auga á mig svo ég setti bara upp sparibrosið og arka að kassanum og skelli varningnum á borðið og bið svo um það sem ég ætlaði mér að kaupa. Já segir hann, viltu bara kremið? Uhh ég vil svona fidd fidd dót segi ég með tilheyrandi hreyfingum. "Já, indføringshylster?" Segir hann. "Veit það hljómar asnalega en það heitir það." Uhh já...einmitt það, segi ég. Þarna byrjaði að fara um mig ónotalegur kjánahrollur. Og það sem verra er, hann byrjar líka að fara hjá sér. Svo stimplar hann vörurnar inn í kassann og þegar kemur að þungunarprófunum kemur læknirinn upp í gaurnum; "Já, þú verður að vera komin framyfir tímann til að nota þetta." Já segi ég og finn eitthvað helvítis spassaglott myndast á andlitinu á mér. Hann fór alveg í kleinu og mig langaði að sökkva niðrí gólfið, gref oní veskið mitt eftir kortinu, stimpla inn pin númerið og stari svo bara á pokann minn á meðan greiðslan fer í gegn, enn með glottið á fésinu og hann stóð bara og sagði ekkert og horfði út í loftið. Bæði mjööög meðvituð um hvað þetta var vandræðalegt. Hann lét kvittunina niður í pokann og rétti mér hann, ég skælbrosti, alveg að fara að hlæja, segi takk og bless og hann segir bara ekki orð og ég flýti mér út. Missti mig alveg í kjánaflissi þegar ég kom út og er ekki búin að ná mér enn. Ef ég fer aftur í þetta apótek verð ég greinilega að kaupa einhvern ógeðslega kúúúl hlut. Einhverjar uppástungur? Ég get allavega gleymt því að maðurinn bjóði mér á deit, andfúlli og ófrískri;)

mánudagur, september 24, 2007

Lifðu í ljósi en ekki í fjósi!

Gott kvöld frá Kaupmannahöfn. Dansandi klæðskiptingurinn sem mig er farið að gruna að sé ef til vill kynskiptingur eftir að ég sá hann brjóstahaldaralausan á strætóstoppistöðinni, heldur áfram að kvelja mig. Hann æðir þrammandi um allar nætur og íbúðin mín titrar og skelfur. Tvisvar hef ég barið dyra en hann þorir ekki að opna.. ég mun hrópa inn um bréfalúguna næst. "I know you are in theeeere!!" Einhver á fjórðu hæðinni vinnur á næturnar og hleypur niður alla stigana hverja nótt, það er hressandi. Í nótt sparkaði hann svo í reykskynjara sem lá á gólfinu og flaug sá niður á næstu hæð. Reykskynjarinn píppaði lengi á föstudagsnóttina. Það var einnig hressandi. Alla miðvikudagsmorgna klukkan hálf sjö koma ruslakallarnir með mjög hávaðasamt tæki sem ég hef aldrei séð því ég er með hausinn undir kodda. Hressandi þar sem ég þarf ekki að vakna fyrr en 10. Á mánudagsmorgnum um svipað leyti er flöskugámurinn tæmdur. Ekki má gleyma því að dönum finnst mjög gaman að bera út póst á nóttunni, hressandi þar sem bréfalúgan er svona þrjá metra frá hausnum á mér. Þegar ég á frídag sef ég því allan daginn, eini tíminn sem þögn er í íbúðinni. Býst fastlega við því að eina nóttina snappi ég og stökkvi nakin fram á gang, felli fjórðuhæðarbúann og berji hann í hausninn með reykskynjara áður en ég stekk upp á næstu hæð með æðisglampa í augum, brjóti upp hurðina hjá klæðskiptingnum Jeppe og bindi hann við ofn..með fæturnar upp í loft. Ef pósturinn hættir sér inn í stigaganginn meðan á þessu stendur mun ég bíta hann í ökklann. Að því loknu mun ég sofna sætum svefni með bros á vör.

Annars var ég að horfa á Jóakim prins í sjónvarpinu áðan. Mikið óóógurlega er hann HOMMAlegur! Hef ekki séð hann svona "live" áður, en skil núna að einhverjir efist um kynhneigð hans. Svo reykir hann víst 54 sígarettur á dag sá ég í blaði um daginn. Það sést á honum, hann er grár í framan, hálf lík-legur.

Verkefni vikunna er að læra þennan texta, ekki utanað, en að syngja hann á réttum hraða í réttri tónhæð. Svo ték ég þetta með stæl í karókí.



Yo VIP let's kick it

Ice ice baby (x2)
All right stop collaborate and listen
Ice is back with my brand new invention
Something grabs a hold of me tightly
Flow like a harpoon daily and nightly
Will it ever stop yo I don't know
Turn off the lights and I'll glow
To the extreme I rock a mic like a vandal
Light up a stage and wax a chump like a candle
Dance go rush to the speaker that booms
I'm killing your brain like a poisonous mushroom
Deadly when I play a dope melody
Anything less than the best is a felony
Love it or leave it you better gain weight
You better hit bull's eye the kid don't play
If there was a problem yo I'll solve it
Check out the hook while my DJ revolves it

CHORUS
Ice ice baby vanillla (x4)

Now that the party is jumping
With the bass kicked in and the vegas are pumpin'
Quick to the point to the point no faking
I'm cooking MC's like a pound of bacon
Burning them if you ain't quick and nimble
I go crazy when I hear a cymbal
And a hi-hat with a souped up tempo
I'm on a roll and it's time to go solo
Rollin' in my 5.0
With my rag-top down so my hair can blow
The girlies on standby waving just to say hi
Did you stop no I just drove by
Kept on pursuing to the next stop
I busted a left and I'm heading to the next block
The block was dead
Yo so I continued to A1A Beachfront Avenue
Girls were hot wearing less than bikinis
Rockman lovers driving Lamborghinis
Jealous 'cause I'm out getting mine
Shay with a guage and Vanilla with a nine
Reading for the chumps on the wall
The chumps acting ill because they're so full of eight balls
Gunshots rang out like a bell
I grabbed my nine all I heard were shells
Falling on the concrete real fast
Jumped in my car slammed on the gas
Bumpet to bumper the avenue's packed
I'm trying to get away before the jackers jack
Police on the scene you know what I mean
They passed me up confronted all the dope fiends
If there was a problem yo I'll solve it
Check out the hook while my DJ revolves it

REPEAT CHORUS

Take heed 'cause I'm a lyrical poet
Miami's on the scene just in case you didn't know it
My town that created all the bass sound
Enough to shake and kick holes in the ground
'Cause my style's like a chemical spill
Feasible rhymes that you can vision and feel
Conducted and formed
This is a hell of a concept
We make it hype and you want to step with this
Shay plays on the fade slice like a ninja
Cut like a razor blade so fast other DJs say damn
If my rhyme was a drug I'd sell it by the gram
Keep my composure when it's time to get loose
Magnetized by the mic while I kick my juice
If there was a problem yo I'll solve it
Check out the hook while Shay revolves it

Ice ice baby vanilla
Ice ice baby (oh-oh) vanilla
Ice ice baby vanilla
Ice ice baby vanilla ice
Yo man let's get out of here
Word to your mother
Ice ice baby too cold
Ice ice baby too cold too cold (x2)
Ice ice baby



Ps. Muniði eftir pósíbókunum?

mánudagur, september 10, 2007

Þrífarar dagsins!

Tom Jones, allsherjarGOÐI...
Thomas Helmig, Bjöggi Halldórs Danmerkur...
Bjartmar Guðmunds, fjöllistamaður með meiru...hefði líklega átt á heita Tómas... Eftir 15 ár mun hann líta nákvæmlega eins út og Thomas Helmig!

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Ég átti glimrende góðan dag í dag. Fór í bankann og borgaði reikninga, það var kannski ekkert mjög gaman, en gott að vera búin að því. Labbaði enn eina ferðina framhjá uppáhalds skóbúðinni minni og horfði löngunaraugum á djásnin, kom auga á ansi laglega skó á útsölu, síðasta parið og akkúrat í minni stærð svo ég mátti til með að máta þá. Hælsærið gaf sig og mér blæddi í skóna svo ég neyddist til að kaupa þá (það sagði ég a.m.k við búðarkonuna). Gott að hafa fullgilda ástæðu fyrir skókaupum. Lækkaðir frá 800 niður í 300. Ég snarstansaði svo við búðina við hliðina sem er fornbókabúð og áður en ég vissi af var ég komin með fimm bækur og eina dvd seríu, 6 diska, í fangið. Eigandinn var frekar spes og þuldi upp allt sem ég ætlaði að kaupa, ekki laust við að ég hafi ef til vill roðnað eilítið þegar hann hrópaði; “Lesbian Pulp Fiction, 60 krónur.” Hefði verið aðeins skárra hefði hann hrópað undirtitilinn með (The Sexually Intrepid World of Lesbian Paperback Novels 1950-1965) hehe, en sem betur fer voru ekki margir í búðinni. Einnig keypti ég til dæmis bækurnar “Föt og stíll fyrir menn” frá 1993, þó kápan gefi frekar til kynna að hún sé frá 1983, og “Bókin um vasareikna” frá 1976. Eftir þetta settist ég út á veitingastað og pantaði mér kjúklingasalat á hádegistilboði, 39 krónur, og eitt glas af rauðvíni hússins og naut sólarinnar, aldei þessu vant. Yndislegt að eiga frídag frá vinnunni.

Hmmm...held ég hafi eldrei skrifað jafn mikið af tölum í einni færslu. Ég hlýt að vera undir áhrifum bókarinnar um vasareikna. Reyndar alveg magnaðar myndir í þeirri bók... látið bara vita ef þið viljið fá hana lánaða. Býst við mikilli eftirspurn svo það verður bara “fyrstir koma, fyrstir fá.” Líka áhugaverð bókin um lesbíusögurnar. Þær voru skrifaðar á eftirstríðsárunum í Bandaríkjunum þar sem samfélagið leit á samkynhneigða sem sjúka og samkvæmt lögunum voru þeir glæpamenn. Útgáfufyrirtækin voru því með strangar reglur um hvernig þessar sögur skyldu enda; “Make sure you tack on an ending of misery, punishment, sadness - that was the commercial voice, loud and distinct.” Sumar sögurnar enduðu þó vel, og ef þær þurftu að enda illa var “góði hlutinn” bara hafður um miðbik sögunnar, eða endirinn skrifaður á einskonar dulmáli samkynhneigðra. 22 spennandi sögur bíða lesningar, ef ég verð ekki orðin “kynvillt” eftir þá lesningu veit ég ekki hvað;) Já og ekki má gleyma að minnast á bókarkápurnar. Það hefur greinilega orðið mikil afturför í útliti lesbía á síðustu fimmtíu árum! Kápurnar prýddu kvikmyndastjörnu útlítandi kynbombur með seiðandi augu og sprengibrjóst. Ef allar lesbíur litu svona út í gamla daga skil ég vel að konur hafi snúsist allasvakalega og skilið við mennina sína;)


En dagurinn er ekki búin enn, kom bara við heima til að skila af mér og nú er ég rokin út aftur. Birti jafnvel nokkrar myndir með næsta bloggi, mikið að hlakka til!

miðvikudagur, júlí 18, 2007

A herd of buffalo can move only as fast as the slowest buffalo

When the herd is hunted, it is the slowest and weakest ones at the back that are killed first. This natural selection is good for the herd as a whole, because the general speed and health of the whole group is maintained by the regular culling of the weakest members. Much the same way, the human brain can only operate as fast as the slowest brain cells. Excessive intake of alcohol, as we all know, kills brain cells, but naturally it attacks the slowest and weakest brain cells first. In this way regular consumption of beer eliminates the weaker brain cells, making the brain a faster and more efficient machine. That's why you always feel smarter after a few beers.

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Come on hold my hand,
I wanna contact the living.
Not sure I understand,
This role I’ve been given.

I sit and talk to god
And he just laughs at my plans,
My head speaks a language,
I don’t understand.

(chorus)I just wanna feel real love,
Feel the home that I live in.
’cause I got too much life,
Running through my veins, going to waste.

I don’t wanna die,
But I ain’t keen on living either.
Before I fall in love,
I’m preparing to leave her.

I scare myself to death,
That’s why I keep on running.
Before I’ve arrived, I can see myself coming.

(chorus)I just wanna feel real love,
Feel the home that I live in.
’cause I got too much life,
Running through my veins, going to waste.

And I need to feel, real love
And a life ever after.
I cannot get enough.

(instrumental)

(chorus)I just wanna feel real love,
Feel the home that I live in,
I got too much love,
Running through my veins, going to waste.

I just wanna feel real love,
In a life ever after
There’s a hole in my soul,
You can see it in my face, it’s a real big place.

(instrumental)

Come and hold my hand,
I wanna contact the living,
Not sure I understand,
This role I’ve been given

Not sure I understand.
Not sure I understand.
Not sure I understand.
Not sure I understand.

fimmtudagur, júní 21, 2007

Ég er að horfa á þátt um Britney Spears í sjónvarpinu. Þvílík della. Fólk sem lítur á sjálft sig sem "professional" gagnrýnendur að tala um hvar Britney hefur mistekist. Þeir segja að hún geri sér ekki grein fyrir hvað hún lítur illa út og hvernig það hafi áhrif á framann. Að vera vinkona Paris Hilton geri henni aðeins slæmt því Paris lítur vel út við hliðina á henni, hún er feit, illa greidd og illa klædd. Hún ætti að ráða sér stílista, make up artist og hárstílista. Aðdáendurnir eru horfnir, hún er ljót og í stóru messi. Æ hvað ég varð reið að horfa á þetta. Spáðu aðeins í þetta...Britney var 17 ára þegar hún sló í gegn með Oops I did it again. Sautján ára. Hvað varst þú að gera þegar þú varst sautján? Ég var allavega einhversstaðar veltandi um í mínum eigin haus, þótti ég að sjálfsögðu alltof feit með mín 52 kíló og vissi ekki almennilega hvert mitt hlutverk var í þessum heimi. Og tíu árum síðar veit ég það varla enn. Það eina sem ég get sagt um miss Spears er að ég dauð vorkenni henni. Hún getur ekki farið út úr húsi með bólu á nefinu án þess að vera ljósmynduð. Og það að hún hafi hætt að gangast upp í þessu Hollywood image , sem mér finnst bara frábært, virðist fara fyrir brjóstið á mjög mörgum. Af hverju má stelpugreyið ekki fara ómálað í joggingfötum útúr húsi, einstæð tveggja barna móðirin? Það er greinilega ómögulegt fyrir hana að ætla sér að verða normal eftir að hafa verið teenage sex symbol í mörg ár. Og hverjum er um að kenna? Mömmunni, umboðsmanninum, ljósmyndurunum eða okkur lesendum slúðurblaða? Ég veit það ekki... veit bara að ég finn til með stelpunni.

fimmtudagur, júní 14, 2007

Þetta er nú í þriðja skipti á rúmum þremur árum sem ég birti þetta ljóð... en það er líka ennþá uppáhalds ljóðið mitt:)

Lokaljóðið

Þegar ég sest loksins niður til að yrkja,
kafnar allt, hverfur, stíflast.

Það gæti einhver komist í þetta.
Það má enginn vita neitt.
Það má enginn vita að ég drekk blóð.
Það má enginn vita að ég fæ hugmyndir.
Það má enginn vita að ég verð að hverfa
inn í landið mitt, alvörulandið í ullarsokkum og kjól
og veiða mér til matar og vaða straumhörð fljót
og kúra mig í hellisskúta.
Það má enginn vita um mig.

(Þessvegna er ég að deyja. Þessvegna elska ég.)

Það má enginn vita að ég heyri jökla gráta,
það má enginn vita að hraunið hvíslar til mín,
það má enginn vita að ég dansa við kletta,
það má enginn vita að hafið kallar á mig,
það má enginn vita hvað ég elska mýrina,
það má enginn vita að ég baða mig upp úr ám.

(Ég þrái aðeins að komast upp á eitthvert fjall, bara það er sannleikurinn.)

Mig langar að vera hlýtt og sofa
og vera ekki hrædd við að sofna.
Ég er svo hrædd um að allt nái mér.
Ég er svo hrædd um að svefninn nái mér og taki mig til sín,
hrædd um að hugmyndirnar taki mig til sín,
hrædd um að ástin taki mig til sín,
hrædd um að lífið taki mig til sín.
Ég er svo hrædd um að einhver ætli að taka mig til sín.

Viltu taka mig til þín. Og vera góður. Svona.

Það má enginn ná mér. Það má enginn taka mig.
Ég er á verði. Ég bjó mér til minn heim
þar sem ég var óhult
og nú þjarmar þessi heimur að mér.

Það endaði með því að ég var lokuð inni,
með þennan lokaða heim.
Og ég fór í marga hringi
og hugsaði um stráka á meðan
og eitthvað heilagt, ósnertanlegt...heilagt.
Ég er svo hrædd um að hræðslan taki mig til sín
og geri mig brjálaða
og enginn vilji vera með mér og jörðin hætti að tala til mín.

Ég sit bara við hyldýpið og hugsa um brú og hugsanafugla
og þetta endalausa blóð,
blóð sem streymir yfir landið.

Ég veit ekki hvaðan það kemur
en það er allt fljótandi í blóði.
Það er það eina sem ég tek mark á.
Það flytur súrefni.

(Mig verkjar svo í hjartað. Mitt dramatíska hjarta.)

En svo myndi ég nú bara jafna mig
og þá væri þetta allt í lagi
og fara í kjól og dansa eftir lagi,
einmitt þessu lagi í höfðinu á mér
og skreyta mig með þangi
og hlaupa upp fjallið með hafið í bala
og þarna er hann,
maðurinn sem þorir að elska.
Hann kemur.

Og ég opna munninn.


Elísabet Jökulsdóttir

Of hrædd við að elska,
of hrædd við að bíða,
of hrædd við hjartað sem er fullt af kvíða.
Of hrædd við ábyrgð,
of hrædd við að lofa,
of hrædd við drauma sem þurfa aldrei að sofa.

KANNSKI

Kannski verðum við að hitta ranga fólkið áður en við hittum rétta fólkið, svo að við kunnum að vera þakklát þegar við hittum loksins þann sem hentar okkur.

Kannski opnast dyr hamingjunnar á einum stað um leið og þær lokast á öðrum, en oft störum við svo lengi á lokuðu dyrnar að við sjáum ekki hinar sem hafa opnast.

Kannski er besti vinurinn sá sem þú getur rólað þér með á veröndinni án þess að segja orð og síðan gengið í burtu og liðið eins og þú hafir átt eitt besta samtal ævi þinnar.

Kannski er satt að við vitum ekki hvað við höfum átt þangað til að við missum það, en það er líka satt að við vitum oft ekki hvers við höfum saknað fyrr en við öðlumst það. Það eitt að gefa einhverjum alla okkar ást tryggir ekki að viðkomandi elski okkur á móti. Ekki búast við ást í skiptum fyrir ást; bíddu þangað til ástin vex í hjörtum annarra og ef það gerist ekki, skaltu þakka fyrir að ástin hafi vaxið og dafnað í þínu hjarta.

Kannski tekur það einungis mínútu að brjóta einhvern niður, klukkutíma að láta sér líka við einhvern og einn dag að verða ástfanginn af einhverjum, en það getur tekið lífstíð að gleyma einhverjum.

Kannski ættir þú að reyna að ná í einhvern sem fær þig til að brosa, vegna þess að eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. Ekki fara eftir útliti, það getur blekkt. Ekki fara eftir auðævum, þau geta horfið. Finndu einhvern sem fær hjarta þitt til að brosa.

Þegar þú fæddist varstu grátandi og allir í kringum þig voru brosandi.

Lifðu þannig að þegar þú deyrð verðir þú brosandi og allir í kringum þig grátandi.

Ég er loksins búin að uppgötva kosti þess að blogga. Fyrir minnislausa manneskju eins og mig er þetta alveg frábært. Til dæmis var ég búin að gleyma þessu skemmtilega atviki sem ég fann fyrir tilviljun aftur þegar ég var að fletta í gegnum síðuna mína í kvöld:


föstudagur, febrúar 11, 2005

Af hvejru er himininn blár?

Ég hitti skondinn mann í ræktinni áðan. Ég var að ganga á bretti eftir aðhaldstímann minn þegar það drynur í einhverjum "Góðan DAAAGINN" beint fyrir aftan mig. Mitt litla hjarta hrökk í kút en ég bauð samt manninum sem steig á brettið við hlið mér góðan daginn. Hann kunni ekki á brettið svo ég sýndi honum hvernig ætti að starta því. Og svo byrjaði hann að spyrja. Og hann spurði og spurði og spurði og mér fannst hann svo fyndinn að ég tók bara þátt þó að maðurinn væri vægast sagt stór undarlegur. Mér fannst þessar aðstæður voða kunnulegar eitthvað og fattaði það þegar ég kom heim að þetta var alveg eins og auglýsingarnar frá Pennanum "með svar við öllu" eða hvað þær nú heita. Dæmi um spurningaflóð frá manninum:"Hvað heitirðu? Hver vann í Ædolinu? Ertu búin að æfa lengi? Ætlarðu að safna vöðvum? Er prógrammið þitt gott? Áttu íbúð? Keyptirðu hana af mömmu þinni? En ömmu? En langömmu? Hvað ertu gömul? Áttu bíl? Hvaða tegund er hann? Er hann fjórhjóladrifinn? Ferðu á honum upp á hálendið? Hvað heldurðu að ég sé gamall? Hvaðan ertu ættuð? Hvar vinnurðu? Er það vel launað? Veistu hvað Tiger Woods er með á mánuði? Ætlarðu að missa nokkur kíló?"Og að sjálfsögðu sagði hann mér ýmsar sögur af sjálfum sér á milli þess sem ég svaraði honum. Hann var að spá í að skrifa smásögu um mann sem býr í Hafnarfirði og finnst gott að fá sér krakk um helgar og keyra svo á sportbílnum sínum upp á fjöll og skjóta hreindýr á haustin og svo sagði hann mér frá konu sem hann bara byrjaði að tala við einhversstaðar og það samband entist í hálft ár. Þá slökkti ég á brettinu mínu og sagðist þurfa að drífa mig heim;) Ég var nú svo hugulsöm að sýna honum fyrst hvernig hann ætti að slökkva á brettinu sínu svo hann færi sér ekki að voða.

Sælt veri fólkið...ef einhver er hérna ennþá;) Ég er komin með fasta internet tengingu núna... sem þýðir þó kannski ekki að ég muni blogga meira en áður en ég hef að minnsta kosti möguleikann á því. Hér í Kaupmannahöfn er búið að vera alltof heitt síðustu vikuna, hitastigið hefur farið upp í 31 gráðu Celcius og að vinna á SPA-i með hitateppi, hitalampa, heit böð og gufu er næstum óbærilegt. Ég þarf að skipta um bol tvisvar á dag og hef ávallt handklæði við höndina þegar ég nudda svo það dropi ekki á kúnnana;) Að sjálfsögðu er ég komin með sólarexem á handleggina, farið að verða sjálfsagður hlutur í byrjun sumar, og það eftir aðeins einn dag í sólinni. Ég er bara ekki gerð fyrir sól.

Ég er að spá í að sækja um nuddnám þessa stundina, námið byrjar 3. september, sem passar mjög vel þar sem starfsnámið mitt endar 1. september, og tekur aðeins rúma þrjá mánuði. Af því sem ég vinn með sem snyrtifræðingur finnst mér nuddið mest heillandi og kúnnarnir eru ánægðir og hrósa mér mikið svo ég held að það sé sterkur leikur að læra það almennilega, svo ég viti aðeins meira hvað ég er að gera;) Ég nuddaði vinkonu mína sem ég er að vinna með um daginn og hún sagði að ég hefði karlmannshendur. Það var sem sagt hrós;) Mínar litlu hendur...
Svo ég er allavega ekki á leiðinni að flytja til Íslands á næstunni. Búin að vera hér í tvö ár núna og ætli ég verði ekki í nokkur ár enn! En þið megið endilega koma og heimsækja mig...:) Ég er enn eina ferðina i pinku lítilli íbúð en það er alltaf nóg pláss:)

Jæja nóg af bloggi í bili, látið nú heyra í ykkur...ég hef ekki efni á símreikningnum mínum en svara næstum alltaf ef síminn hringir!

þriðjudagur, júní 05, 2007

Ég veit ekki... ætti að banna svona lagað?



Litlir sæti strákar

Ég dirfist ekki um stelpur meir, við stelpurnar að þrátta.
Þær eru tælandi frá aldrinum frá 12 og niður’ í 8.
En ef þú ert að pæla í hvað það er sem er koma skal.
Litlir sætir strákar eru langtum betra val.

Þú mændir sem einn afglapi á ókleyfan múr.
Þú veist af beiskri reynslu að vínberin eru súr.
Og þú saknar einhvers sem þú getur kelað við og kysst,
og litlir sætir stráka vekja stöðugt góða list.

Þú ert kalinn bæði og svið’inn nú.
En áttirðu von á öðru?
Það finnur enginn gæfuna í faðmlagi við nöðru.
En þegar lífsins fárið vilja færa þig í kaf:
Litlir sætir strákar þeir stinga þig ekki af.

Sortnaðir geislar, sólar sem djúpt er hnigin
myrkva líf þitt, og löngu fallin vígin,
og einsemdin hún er svo dimm og átakanlega köld.
Litlir sætir stráka verma og lýsa upp þín kvöld.

Ég heyrði það í draumi. Jú! Ég heyrði það svo skýrt
dömu eðlið er af dyggðum rýrt
Ég heyrði það í draumi þú skalt heiðra eigið kyn.
Lítinn sætan strák er ljúft að eiga fyrir vin.

En bjálfarnir þeir munu ætíð binda trúss við frúrnar
og þegar eldar brenna hjörtun í augunum þeim súrnar.
En spáirðu bara í dæmið - gömlu spekingana þá sést
að litli sætir strákar hafa löngum reynst best.

-Megas

Funeral Blues

Stop all the clocks, cut off the telephone,
Prevent the dog from barking with a juicy bone,
Silence the pianos and with muffled drum
Bring out the coffin, let the mourners come.

Let aeroplanes circle moaning overhead
Scribbling on the sky the message He is Dead.
Put crepe bows round the white necks of the public doves,
Let the traffic policemen wear black cotton gloves.

He was my North, my South, my East and West,
My working week and my Sunday rest,
My noon, my midnight, my talk, my song;
I thought that love would last forever: I was wrong.

The stars are not wanted now; put out every one,
Pack up the moon and dismantle the sun,
Pour away the ocean and sweep up the woods;
For nothing now can ever come to any good.

-- W.H. Auden

fimmtudagur, apríl 05, 2007

Austan Eden er kannski skrítin saga, en ég hafði mjög gaman af henni. Í ár áætla ég að ég sé búin að lesa sirka 10 bækur, ég er mikill lestrarhestur:) Er að lesa höfund Íslands núna. En að öðrum málum, ég var að flytja enn eina ferðina, bý núna í lítilli holu á Österbro, eitt herbergi, eldhús og bað. Hingað til hef ég búið í mubleruðum íbúðum en þessa fékk ég tóma svo ég neyddist til að kaupa allt inn í hana. IKEA ferðin á laugardaginn tók því fimm tíma og keypti ég sófa, rúm, stofuborð, kommóðu, fataskáp, gardínur, ljós og allt sem ég þurfti í eldhúsið og á baðið, splæsti svo í einn flatskjá, þó í minna laginu, hálfgerður mini flatskjár, svo nú er ég komin með ágætasta innbú fyrir lítinn pening. Ég keypti sem sagt allt það ódýrasta í IKEA. Svo fékk ég allt dótið flutt heim og fékk ég þriggja góðra kvenna hjálp við burð og samansetningu sem tók hálfan laugardag og heilan sunnudag fram á kvöld (seinkun vegna gríðarlega asnalegra skápasamsetningarmistaka), og var íbúðin ekki komin í gott stand fyrr en á mánudagskvöldið klukkan hálf tvö. Sem betur fer var ma í heimsókn og gat stýrt þessu öllu harðri hendi, annars hefði ég fengið flutningaflogsblokkeringu og bara fallist hendur og setið og starað á þessa óyfirstíganlegu hauga af drasli sem ég hef sankað að mér hérna. Núna vantar mig bara hnífapör og óhreinatauskörfu og þá er verkið fullkomnað.

Ég uppgötvaði það í dag að það hlýtur að vera þvílíkt gaman að vera lestarstjóri. Þá getur maður sagt í kallkerfið í lestinni: "Þú ungi maður sem varst að veifa framan í mig handlegg með úri áðan, ég veit ekki hvort þú varst að reyna að selja mér svart úr en ég get sagt þér það að lestin keyrir frá Gentofte klukkan 18:25 núll dútt." Þetta fannst mér fyndið og hló þess vegna. Það hló enginn annar í lestinni, allir horfðu bara á mig. Það fannst mér líka fyndið.

Ég held ég þjáist af ofþreytu vegna gríðarlegrar þjónustulundar og ofnotkunar á brosvöðvum frá 1. mars. Er orðin hálf rugluð í hausnum:) Ég er nú ekki brosmildasta manneskjan sem ég þekki að eðlisfari, svo það er skiljanlegt að þetta taki svolítið á. Best að skríða bara undir sæng held ég...í bili...bæ:)

laugardagur, mars 10, 2007



"Þér hafið alltaf átt þennan hest," sagði Adam.
"Hann er nú orðinn þrjátíu og þriggja ára gamall," sagði Samúel.
-"Tennurnar eru alveg útslitnar. Ég verð að gefa honum volga soppu og það með fingrunum. Og hann dreymir illa. Stundum skelfur hann og kjökrar í svefninum."
"Hann er sá ljótasti gamli jálkur, sem ég hef nokkru sinni séð," sagði Adam.
"Hann hefur alltaf ljótur verið. Það var víst þess vegna sem ég kaus mér hann, þegar hann var ungur foli. Vitið þið það, að ég gaf aðeins tvo dollara fyrir hann, fyrir þrjátíu og tveimur árum? Allt var gallað á honum, hófarnir eins og pönnukökur, ökklaliðirnir alltof gildir og stuttir. Hann var brattnefjaður og söðulbakaður, bringumjór og lendadigur. Og þegar maður situr á honum, er eins og maður hossist á sleða yfir malarhauga. Hann kann ekki að brokka og hnýtur í öðru hverju spori. Í öll þessi þrjátíu og tvö ár hef ég ekki orðið var við einn einasta góðan eiginleika í fari hans. Hann hefur auk þess marga hvimleiða galla. -Hann er þver og þrjóskur, illkvittinn og óhlýðinn. Til þessa dags er ég hræddur við að koma á bak honum, því að hann á það til að slá. Hann reynir að bíta í höndina á mér, þegar ég er að gefa honum mat. En mér þykir og mun þykja vænt um hann."
"Og svo nefnduð þér hann Doxology, sem þýðir "lofsöngur"," sagði Lee.
"Já, skepna sem var svo fáum kostum búin, varð að hafa eitthvað til að prýða sig með," sagði Samúel. -"Nú á hann ekki langt eftir."
"Þér ættuð kannski að binda endi á eymd hans," sagði Adam.
"Hvaða eymd?" spurði Samúel. "Hann er ein af þeim fáu hamingjusömu og ánægðu skepnum, sem ég hef þekkt."
"Hann hlýtur þó að vera bæði stirður og gigtveikur."
"Ekki álítur hann það sjálfur. Doxology heldur sig vera hreinasta úrvalsgæðing."

-Austan Eden, John Steinbeck

fimmtudagur, mars 01, 2007

Ég reyndi og reyndi að pöbblissa þetta blogg mitt meðan ég var á Íslandi en það tókst aldrei svo það kemur bara núna...


Krossaprófið var vonum framar svínslegt, hver veit svo sem hvort nýrun eru staðsett milli 7. brjóstliðar og 1. lendarliðar eða 8. brjóstliðar og 2. lendaliðar, eða hvort það er heilataug númer 4, 5, 10 eða 11 sem stýrir andlitsvöðvunum? Og hvernig það tengist snyrtifræði er ég ekki alveg að átta mig á. Svo það var frekar niðurbrotinn bekkur sem gekk út úr prófinu á fimmtudaginn og safnaðist saman á kaffihúsi til að drekkja sorgum sínum í einum öl eða tveimur. Við áttum svo að mæta í skólann klukkan tvö og fá afhent umslög með niðurstöðum úr prófunum, en vegna veðurofsans voru allir svíarnir veðurtepptir í Malmö og tóku ekki prófið fyrren klukkan tvö svo okkur var gert að bíða til hálf sex með að fá niðurstöður. Ég kippti mér ekki upp við það, enda mjög viss um að hafa ekki náð krossaprófinu svo ég var ekkert stressuð. Taldi saman þau svör sem ég var viss um að ég hefði rétt og þau voru einungis 58, svo mig vantaði 12 stig uppá til að ná. Hinar stelpurnar voru hver annarri fölari og taugaveiklaðari, grátandi og niðurbrotnar.

En sei sei, tíminn leið og bjórunum fjölgaði, og þegar ég loksins fékk umslagið mitt kom í ljós að ég hafði slysast til að ná fjandans prófinu! Sex úr bekknum féllu á því bóklega og ein á því verklega, svo það blandaðist saman grátur og hlátur. Svo fór allur hópurinn, eða að minnsta kosti þær sem náðu, út að borða og svo á skemmtistað á eftir, við vorum um 50 stelpur held ég, og það var tjúttað fram á rauðan morgun, sem var nú ekki það gáfulegasta að gera þar sem ég þurfti að vakna klukkan átta til að komast í flug;) En það tókst og ég er núna stödd á Akureyri hjá ma og pa í góðu yfirlæti, búin að kíkka á Vélsmiðjuna að sjálfsögðu, það var heldur betur gaman, og hitta vinkonurnar sem var enn meira gaman. Búin að sofa mikið þar sem ég var hálf þreytt og svefnlaus eftir síðustu viku, búin að fá góðan íslenskan mat (panta alltaf kjöt í karrý þegar ég kem til landsins) og lesa góða bók. Gæti ekki hafa fengið betri útskriftargjöf!

En já, ég náði allavega prófinu með glæsibrag, er ánægð að vera búin með þetta, svo fer ég aftur út á miðvikudaginn til að byrja starfsnámið mitt, og svo kemur bara í ljós hvað framtíðin ber í skauti sér.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Þá er verklega prófinu lokið. Það tók allan daginn, eða frá klukkan níu um morguninn til klukkan sex um kvöldið, með hálftíma matarhléi. Þetta var bara mjög afslappaður dagur svo sem, ég var ekkert stressuð þrátt fyrir nokkra magapínu undanfarna daga. Ég gat svarað öllum spurningum og framkvæmt það sem ég átti að gera án teljandi erfiðleika, en prófið fólst í öllu því sem ég hef lært undanfarið ár...ja undanfarið eitt og hálft ár ef farið er út í smáatriði;) Ég lauk svo prófdeginum með glæsilegri förðun sem vakti lukku meðal prófdómara, svo ég hlýt að útskrifast með fyrstu einkunn, hehe...

Á morgun er svo bóklega prófið sem felst í 100 krossaspurningum, og þarf ég takk fyrir að svara 70 rétt til að ná prófinu. Það þykja mér kröfur. Við tókum prufupróf fyrir einum tveimur mánuðum og þá voru ekki nema fimm úr bekknum sem náðu því, ég var þeirra á meðal en það munaði ekki mörgum stigum. Það var nú sérstaklega svínslegt próf hef ég heyrt svo ég vona að prófið á morgun verði auðveldara... sérstaklega vona ég það þar sem ég hef ekki verið neitt of dugleg við lesturinn hömm hömm.

Ég er svo á leiðinni heim á Frón á föstudaginn, elskuleg móðir mín var farin að sakna mín svo mikið að hún splæsti á mig farinu;) Ég verð á landinu fram á miðvikudag en þá neyðist ég til að fljúga aftur til Köben því að starfsnámið mitt er að byrja 1. mars. Starfsnámið, sem er full vinna, tek ég á Skodsborg kur hotel og spa þar sem ég hef verið að vinna aðra hvora helgi. Var ég kannski búin að skrifa það áður...hvað um það, allt í blóma hér í snjóstorminum í Köben, við sjáumst!

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Why women lie

One day, a seamstress was sewing while sitting close to a river and her
thimble fell into the river. When she cried out, the Lord appeared and
asked, "My dear child, why are you crying?"

The seamstress replied that her thimble had fallen into the water and that
she needed it to help her husband in making a living for their family.

The Lord dipped his hand into the water and pulled up a golden thimble set
with pearls. "Is this your thimble?" the Lord asked.

The seamstress replied, "No."

The Lord again dipped into the river. He held out a silver thimble ringed
with sapphires. "Is this your thimble?" the Lord asked again.

The seamstress replied, "No"

The Lord reached down again and came up with a leather thimble.
"Is this your thimble?" the Lord asked.

The seamstress replied, "YES."

The lord was pleased with the woman's honesty and gave her all three
thimbles to keep and the seamstress went home happy.

Some years later, the seamstress was walking with her husband along the same
riverbank and her husband fell into the river and disappeared under the
water. When she cried out, the Lord again appeared and asked her, "Why are
you crying?"

"Oh Lord, my husband has fallen into the river!"

The Lord went down into the water and came up with Mel Gibson.
"Is this your husband?" the Lord asked.

"Yes," cried the seamstress.

The lord was furious. "YOU LIED! That is an untrue!

The seamstress replied, "Oh, forgive me, my Lord. It is a misunderstanding.
You see, if I had said 'no' to Mel Gibson, you would have come up with Tom
Cruise. Then, if I said 'No' to him, you would have come up with my husband
and had I then said 'yes' you would have given me all three. Lord, I'm not
in the best of health and would not be able to take care of all three
husbands, so that's why I said 'yes' to Mel Gibson."

The moral of this story is: WHENEVER A WOMAN LIES, IT'S FOR A GOOD AND
HONORABLE REASON AND IN THE BEST INTEREST OF OTHERS. THAT'S OUR STORY, AND
WE'RE STICKING TO IT.