mánudagur, ágúst 22, 2005

Kósí smósí sko!

Fyrsti dagurinn í vinnunni , og sá síðasti, sem ég þarf ekki að gera nokkurn skapaðan hlut! Eftir þessum degi hef ég beðið í allt sumar:) Búin að hanga á netinu í allan dag, borða, dotta og virkilega njóta mín, þetta er lífið! Eftir að vera búin að taka snið í næstum allt sumar, oft vinna langt fram á kvöld rennandi blaut, skítug og köld, finnst mér ég nú bara eiga þetta pínu skilið;)

Ég er búin að vera að grúska á snyrtifræðisíðum og finna margt áhugavert. Snyrtifræðin er alls ekki takmarkað nám, það er hægt að læra ýmislegt til viðbótar svo sem steinanudd, heilun með litum, aromatherapy, svæða- og punktanudd, jafnvel bara nálastungu og ég gjörsamlega iða í skinninu. Hef mikinn áhuga á öllu sem viðkemur náttúrulækningum og öðrum óhefðbundnum aðferðum sem notaðar eru til að lækna líkama og sál. Spurning um að stökkva bara útí þetta af fullum krafti og læra allt sem ég mögulega get, ferðast um heiminn og kynnast fornum lækningaaðferðum, djöfull væri það magnað! En best að byrja á að ljúka hefðbundna snyrtifræðináminu og sjá svo hvað setur, ég er ung enn:)

Svo er það Danmörk á laugardaginn gott fólk! Mikið sem ég er orðin spennt, en jafnframt kvíðin, skiptist á að tísta af tilhlökkun og skjálfa af stressi. En ég krossa bara fingur og vona hið besta, hugsið nú hlýtt til mín elskurnar:)