Ákaflega geta illa þýddar bækur farið í taugarnar á mér. Þessa stundina eru Beðmál í borginni að gera mig gráhærða. Er hverjum sem er heimilt að þýða bækur og gefa út? Eru engar reglur um hversu lélega íslensku er heimilt að gefa út? Það er ekki nóg að kunna ensku til að þýða bók. Það er ekki nóg að geta þýtt orðin, samhengið er jú það sem skiptir máli, maður þarf að umorða enskuna til að úr verði góð íslenska. Ótrúlegt að það séu Íslendingar sem þýddu þesa bók, svo léleg er íslenskan. Það er ekkert flæði í bókinni, hún er byggð upp á orðrétt þýddum enskum setningum.
Önnur bók sem ég grýtti út í horn þar sem hún rykfellur núna er Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn. Aðra eins íslENSKU er erfitt að finna í "íslenskum" bókmenntum. Ég varð hreinlega yfir mig pirruð og gat ekki klárað hana.
Ég ætla að láta fylgja hérna nokkrar setningar úr Beðmálunum:
Heiti kafla númer eitt er eftirfarandi: "Minn óuppnæmi lærdómur: Ást á Manhattan? Ég held nú síður..." Hvað þýðir þetta??? Og að byrja setningu á orðinu "Minn", það er enska.
Bókin byrjaði reyndar að fara í taugarnar á mér á síðunni á undan þar sem svo segir: "Handa Peter Stevenson og Snippy sem beit einu sinni bangsann hans. Og handa öllum vinum mínum." Þarna hefði þýðandi átt að nota orðið "Tileinkað".
Þriðja setning bókarinnar: "Hún var aðlaðandi og hnyttin og komst strax í kynni við einn af hinum dæmigert eftirsóttu piparsveinum í New York." Hinum dæmigert eftirsóttu?? Halló!! Það þýðir ekki neitt!
Þetta eru setningar af fyrstu tveimur blaðsíðum bókarinnar. Ég er komin á þriðja kafla og bókin er hér um bil að fara að veita munknum félagsskap. Ég ætla að þrauka svolítið lengur.
"Þetta byrjaði allt eins og vanalega, nógu sakleysislega." Ætli þetta sé þýðing á "Innocent enough"? Þessi bók er ekki fyrir fólk sem ekki er ágætlega að sér í ensku, því maður verður að hugsa setningarnar á ensku til að skilja hvað átt er við.
Jæja, gæti komið með endalaus dæmi en læt gott heita.
Berglind Steinsdóttir og Ölvir Tryggvason, svei ykkur!!
miðvikudagur, október 29, 2008
Lærið íslensku!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 10:00 |
laugardagur, október 18, 2008
Hjálpum þeim
Núna þegar sumir halda að Kreppan (já, með stórum staf, fyrir þau okkar sem ekki hafa upplifað aðrar kreppur) sé að gera útaf við sig, þá er gott að fá smá raunveruleikaspark með þessu sígilda og fallega lagi til að sjá hvað við höfum það rosalega gott! Ég fæ alltaf gæsahúð og syng fullum hálsi með þegar ég heyri þetta lag. Fallegur boðskapur; hjálpum þeim sem minna mega sín og vinnum að friði á jörð, um lífsréttinn stöndum vörð. Búum til betri heim...
Því þó að fólk fari fjárhagslega illa út úr kreppunni þá á það enn lífið og flestir heilsuna. Um að gera að huga að og muna eftir því sem skiptir mestu máli. Vel var það orðað í einni auglýsingu um að "það besta í lífinu er ókeypis", einhvern veginn svona hljóðaði auglýsingin: "Ég þarf ekki að vakna klukkan 5 á morgnana og ganga 30 kílómetra til að sækja vatn handa mér og fjölskyldunni." Man ekki endapunktinn en hann fjallaði um að við ættum að sjá hvað við hefðum það hryllilega gott.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 02:15 |
föstudagur, október 10, 2008
. ætli þetta verði í Skólaljóðum komandi kynslóða ?
Á lítilli eyju við heimsskautahjara
býr heimakær, vansvefta, auðtrúa þjóð.
Hún leit upp til ráðsmanna loðinna svara
sem loforðum öfugt í kok hennar tróð.
Þeir níddust á trausti og trúgirni okkar
– táldrógu sannlega helvítis til.
Og allt sem þeir gerðu, þeir gordrullusokkar
gerðu þeir flottræflum sínum í vil.
En frelsið er háðara boðum og bönnum
en bláeygðir frjálshugar ímynda sér.
Þjóð mín var notuð af nýríkum mönnum
og nauðgað af útrásarvíkingaher.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 20:25 |
miðvikudagur, október 08, 2008
Sjóður 9
Þó að presturinn hlæji meðan hann jarðar óvininn þá er ekki þar með sagt að hann hafi komið honum í gröfina. Einhvernveginn þannig var það orðað á Youtube. Er málum þá þannig háttað að Glitnir hefur logið að viðskiptavinum sínum um Sjóð 9? "Var sparifé þúsunda Íslendinga notað, þvert gegn uppgefinni fjárfestingarstefnu sjóða Glitnis í kaup á skuldabréfum Baugsmanna og félögum þeim tengdum? Sjóður 9 varði miklum peningum sjóðsfélaga í að kaupa skuldabréf af félögum eigenda bankans. Stoðir skulduðu sjóði 9 hjá Glitni 18.400.000.000 krónur í lok júní."
Þetta er tekið úr myndbandinu "Glitnir 2. hluti" á youtube.
Maður spyr sig...
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:47 |
þriðjudagur, september 30, 2008
Bravó!
Mikið rosalega stóð Þorsteinn Már Baldvinsson sig vel í Kastljósinu. Ég stóð mig nokkrum sinnum að því að hrópa á Helga Seljan að þegja og leyfa manninum að tala! Er ekki löngu kominn tími á að taka Davíð Oddsson úr umferð? Stríð hans við Jón Ásgeir Jóhannesson er bara orðið þreytt og ansi áberandi persónulegt.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:49 |
Getraun vikunnar
Ég var að skoða heimasíðuna eirberg.is og rakst þar á þessa auglýsingu fyrir skurðstofu- og skoðunarhanska fyrir heilbrigðisstofnanir. Ég get engan veginn gert mér grein fyrir hvaða líkamshluti er til sýnis á myndinni sem tilheyrir auglýsingunni. Getur einhver hjálpað mér?
Birt af Gagga Guðmunds kl. 00:39 |
miðvikudagur, september 17, 2008
Sá sem sagði að sumarið væri tíminn var ekki með öllum mjalla. Haustið er tíminn!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 00:53 |
þriðjudagur, júlí 01, 2008
Landið skoðað
Turtildúfurnar skelltu sér í sumarbústað um helgina. Lögðum í hann seinnipartinn á föstudeginum og lentum auðvitað í svaka umferð, allir á leið úr bænum með tjaldvagnana sína. Keyrðum í gegnum Selfoss og Hveragerði, það er svo langt síðan að ég hef komið þangað að ég man ekki einu sinni eftir að hafa verið þar. Við eyddum helginni í að slappa af, borða, spila, sóla okkur, púsla 500 kubba púsluspil og túristast. Skoðuðum Seljalandsfoss, Skógafoss, fórum í fjöruferð á Vík og sáum Reynisdranga og kíktum á lunda í Dyrhólaey á sunnudeginum.
Seinnipartinn á laugardeginum var von á mömmu, ömmu og móðursystur Gunnars í bústaðinn. Þær hringdu um fimm leytið, bíllinn bilaður á Kirkjubæjarklaustri. Við renndum því á Klaustur og sóttum gengið, grilluðum svo og spiluðum Rummikub fram eftir kvöldi. Sem sagt mjög vel heppnuð helgarferð, maður ætti að gera meira af þessu, skoða landið og eiga góðar stundir saman.
Læt fylgja smá ferðamyndir með, að sjálfsögðu.
Ég við Seljalandsfoss.
Gunni í fjörunni við Vík, svaka stelling (takið eftir sandölunum). Reynisdrangar í baksýn.
Gunni hugsandi yfir púslinu.
Einmana lundi í Dyrhólaey.
Ég lofthrædd að mynda fegurðina.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 01:02 |
föstudagur, júní 20, 2008
"Leit að birni heldur áfram"
Forsíðufrétt í Morgunblaðinu í dag. Ferðamenn á leið frá Hveravöllum áleiðis að Þjófadölum fundu bjarnarspor í moldarflagi. Haft var samband við lögregluna á Blönduósi og bað hún ferðamennina um að teikna upp sporin, og fylgdi hún þeim svo aftur til Hveravalla til að skoða mætti sporin betur. Sporin fundust ekki en leit heldur áfram.
Það æðislegasta við þessa forsíðufrétt er lokamálsgreinin:
"Sævar Einarsson, bónda á Hamri í Hegranesi, dreymdi nótt eina í júníbyrjun þrjá ísbirni. Óvíst er hvort draumur bóndans kemur fram en það skýrist á næstunni."
Elska þegar stuðst er við drauma gamalla bænda úr afdölum í fréttum.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:52 |
föstudagur, júní 13, 2008
Þeir standa sig strákarnir
Stöðumælaverðir hafa aldrei átt miklum vinsældum að fagna hjá meginþorra manna. Fyrir utan blokkina mína í gettóinu eru bílastæði. Ekki er gert ráð fyrir að heimili eigi fleiri en eina bifreið, hvað þá að einhver sem býr hér fái akandi gesti. Það er nákvæmlega útdeilt einu bílastæði á íbúð og síðan ekki söguna meir. Margir í blokkinni eiga tvo bíla og fá jafnvel fólk í heimsókn annað slagið. Þá bjargar fólk sér og leggur á grasinu, enda meira en nóg pláss þar sem ekki er til neins nýtt.
Einhverjar fregnir fengu stöðuverðir borgarinnar af þessum ósóma, og ákváðu því galvaskir einn morguninn að mæta upp í Breiðholt og sekta alla bíla sem var lagt á grasinu. Ég auðvitað smellti af þeim mynd, enda fannst mér þetta bráðsmellið. Ætli þeir séu að safna í ferðasjóð, farnir að aka um úthverfin í leit að bráð?
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:31 |
fimmtudagur, maí 15, 2008
Hekl
Ráðskonuhlutverkið er ljúft. Vakna klukkan hálf sjö á morgnana til að bera út Moggann, fæ mér morgunmat og halla mér svo aftur fram að hádegi að minnsta kosti. Þá er förinni heitið í heklnám hjá ömmu Láru sem byrjaði í gær, þar sem ég sit með tunguna út úr mér fram eftir degi og hekla dúllur og hlusta á Megas. Er ég alveg að ná tökum á þessu. Í eitt teppi þarf 120 dúllur, svo ég ætti að vera að ljúka verkinu um áramótin. Amma les upp ljóð og bakar vöflur sem ég færi Gumms. Kvöldmaturinn er tilbúinn hjá mér klukkan níu þegar strákarnir koma heim úr ökuskólanum og þá fer nú að koma háttatími aftur.
"Hvað ert þú eiginlega gömul Ragnheiður?" spurði Gumms mig í gærkvöldi. "Uhh ja 28" sagði ég. "Af hverju spyrðu?". "Þú situr fyrir framan sjónvarpið og ert að HEKLA!!"
Birt af Gagga Guðmunds kl. 23:00 |
föstudagur, maí 09, 2008
Förukona
Jæja! Þá hefur húsmóður hlutverkinu verið sinnt af miklu kappi í rúma viku. Það er búið að henda og kaupa, skúra og skrúbba, elda og baka, og fer þetta alveg ljómandi vel í mig. Eins og góðri húsmóður sæmir hef ég gert eldhúsið að mínu yfirráðasvæði og hefur það val mitt ekki valdið neinum ágreiningi á heimilinu;)
Nú er þó komið að því að ég þarf að ferðast norður yfir heiðar til að sinna búskap á heimili foreldra minna í 10 daga meðan þau bregða sér af bæ til útlanda. Húsbóndinn á litla heimilinu í Breiðholtinu verður því að sjá um sig sjálfur á meðan og óljóst er á þessari stundu hvort ég muni koma að honum grindhoruðum og vannærðum eða feitum og sællegum af skyndibitamat þegar ég sný aftur. Skinkuhornin sem ég skil eftir handa honum duga skammt.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 17:52 |
miðvikudagur, maí 07, 2008
Upprifjun 2
Þrifin tókust svona ansi vel hjá okkur ma...hún þreif. Ég skrifaði auglýsingar og hengdi upp á útidyrnar í nágrannastigagöngunum, reyna að losna við húsgögnin mín, og pakkaði svo öllu dótinu mínu niður í kassa. Ótrúlegt hvað maður sankar að sér miklu drasli..ég sem hélt ég ætti ekki neitt!
Konan í næsta stigagangi sem selur þvottamyntir keypti fataskápinn minn. Hann var ferlíki. Við bönkuðum uppá hjá nágrannanum, stórum og stæðilegum manni, og báðum um aðstoð við að flytja skápinn, og ég hlóp út á götu til að finna annan álitlegan karlmann í verkið. Ég hef sjaldan eða aldrei hikað við að bera þunga hluti, en þetta taldi ég vera karlmannsverk. Ég fann engan karlmann svo ég hljóp aftur upp til að kanna stöðuna, kem þá að Lars nágranna og gömlu þvottakonunni að bera skápinn niður...jeminn...hún er sextug písl. Ég greip inní og við Lars héldum á skápnum niður tröppurnar og út á götu. Þar gafst ég upp og kallaði á mann sem var að labba framhjá.
Ég endaði svo á því að festa hurðirnar á skápinn og setja hillurnar inn fyrir gamla fólkið, þau voru alveg bjargarlaus!
Við ma lukum svo við að pakka og þrífa daginn eftir og Stína flutti dótið með okkur, bíllinn kominn í lag!
Ma fór til Íslands á sunnudegi og við Stína komum dótinu í flutning á miðvikudeginum. Afgangurinn af miðvikudeginum fór svo í að finna kjól á mig og tók það mig allan daginn. Á fimmtudeginum fór ég í flug til Íslands og er nú búin að vera í viku í Reykjavík. Það er mjög fljótt hlaupið yfir sögu í þessari færslu, en það er af því ég hef verið svo löt að skrifa:)
Og já, framhald fylgir!!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:11 |
sunnudagur, maí 04, 2008
Upprifjun
Á sumardaginn fyrsta byrjuðu miklar aðgerðir í Kaupmannahöfn. Ma var mætt á svæðið til að stýra aðgerðum, og byrjaði dagurinn vel. Stína ákvað að skutla okkur frá Lyngby og heim til mín því við vorum með tösku og kassa og það tæki mun styttri tíma en að fara í lestinni. Þar skjátlaðist henni.
Þegar við erum nýkomnar á hraðbrautina fer bíllinn að hegða sér undarlega. Útvarpið slökkti á sér, ljósin fóru og hraðamælirinn lét undarlega. Nokkrum mínútum síðar gaf bíllinn svo upp öndina og við beygðum út á hliðarreinina. Þar sátum við í nokkurn tíma og hugsuðum málið uns við ma ákváðum að fara út og ýta bílnum. Stína setti í annan gír og þar sem brekka var framundan þá ætti þetta að virka. Við ýtum og ýtum, komnar í andnauð og farið að sortna fyrir augum, gefumst á endanum upp og setjumst aftur inn í bílinn. Ég blásandi og másandi lít þá fram í bílinn...arg...Stínfríður...þú verður að hafa svissinn á!!!
Við ýttum svo bílnum í gang og komumst ansi langt í annarri tilraun...það er að segja inn á mið ljósa gatnamót...vinstri beygja...bíllinn dó inn á miðjum gatnamótum. Við ma orðnar þaulvanar, hentumst út úr bílnum á ferð, næstum oltnar um koll báðar tvær, og ýttum bílnum yfir gatnamótin. Þar skildum við ma Stínu eftir, tókum föggur okkar og héldum af stað gangandi. Náðum svo leigubíl á miðri leið og komumst heim til mín í góðu standi.
Framhald fylgir...
Birt af Gagga Guðmunds kl. 13:09 |
þriðjudagur, apríl 22, 2008
Sumarið er tíminn
Sumarið er að koma í Kaupmannahöfn. Á Österbro situr fólk úti á tröppum og borðar samlokur, leikvöllurinn er fullur af glöðum foreldrum með skríkjandi börn, hjólreiðafólkið lætur axlirnar síga. Sólin skín og þíðir vetrarfreðin hjörtu. Köld golan vekur minningar um íslenskt sumar.
Íslenskt sumar með miðnætursól, íslenskt sumar í lopapeysu, íslenskt sumar að safna skeljum í fjörunni í stígvélum. Rauðar kinnar, saltstorkið hár, eistnesk mjólkurferna og krossfiskur.
Sumarið er tíminn...
Birt af Gagga Guðmunds kl. 15:46 |
laugardagur, apríl 19, 2008
Menn sem hata konur
Ég hef lokað mig af frá umheiminum síðasta sólarhringinn meðan ég kláraði bókina "Mænd der hader kvinder" eftir Stieg Larsson. Ég byrjaði á henni fyrir löngu en datt aldrei almennilega inn í lestrar tempóið fyrr en í gærmorgun. Það var ekki fyrr en á síðu 300 sem sagan byrjaði að vera virkilega spennandi. Ég kláraði svo bókina rétt í þessu, 556 blaðsíður. Snilldar bók. Leiðin liggur beint út í bókabúð til að fjárfesta í bók númer tvö, "Pigen der legede med ilden". Stieg Larsson skrifaði þrjár bækur um Mikael Blomkvist og Lisbeth Salander, "et enestående nyt makkerpar i skandinavisk kriminallitteratur", eins og stendur aftan á bókinni.
Stieg Larsson var sænskur rithöfundur, fæddur árið 1954 og lést árið 2004 úr hjartaáfalli. Kaldhæðni örlaganna að fyrsta bókin í seríunni kom ekki út fyrr en árið 2005 svo hann náði aldrei að upplifa gríðarlegar vinsældir bókanna. "Mænd der hader kvinder" vann Glerlykilinn árið 2006 fyrir bestu glæpasögu á Norðurlöndunum, sömu verðlaun og Arnaldur Indriðason fékk árið 2002 fyrir "Mýrina" og 2003 fyrir "Grafarþögn". Larsson hafði annars gert samning um 10 bækur í seríunni, en dó jú áður en hann náði svo langt. Mér skilst að fjórða bókin sé skrifuð en familían stendur í einhverju lögfræðistappi með útgáfuna.
Þriðja bókin heitir "Luftkastellet der blev sprængt" og eru allar bækurnar jafn ári þykkar, svo ég hef eitthvað að gera í sumarfríinu mínu í maí;) Ég skrifa bókaheitin á dönsku því ég hef ekki hugmynd um hvað þær heita á íslensku!
Ég get allavega mælt með "Mænd der hader kvinder" fyrir þá sem eru lestrarhestar. Fyrir þá sem ekki eru jafn bókhneigðir mæli ég með "Skugga-Baldri" eftir Sjón. Las hana síðasta haust og hún greip mig það fljótt að ég kláraði hana á nokkrum tímum.
Jæja...nennti einhver að lesa þetta? Hehe....
Birt af Gagga Guðmunds kl. 13:59 |
miðvikudagur, apríl 02, 2008
Smá speki í viðbót
Watch your words, for they become actions.
Watch your actions, for they become habits.
Watch your habits, for they become character.
Watch your character, for it becomes your destiny.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:12 |
mánudagur, mars 31, 2008
Einar Ben kann að orða hlutina
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.
Úr Einræðum Starkaðar.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 17:19 |
miðvikudagur, mars 19, 2008
Stundum ætti ég að þegja
Heppni mín í matsalnum heldur áfram. Ég fékk ekki hádegispásu fyrr en klukkan eitt í dag og þegar ég kom niður í matsal var maturinn allur upp étinn. En heppna ég, full skál af súpu var eftir! Ég jós á diskinn með vatn í munninum, fékk mér sæti og sökkti mér í súpudiskinn. Jakkiddí jakk! Þetta var súpa frá helvíti, bragðaðist eins og fjósalykt, get ekki lýst því öðruvísi. Ég var að sálast úr hungri svo ég lét hringja upp í eldhús eftir einhverju ætilegu.
Amalie hringdi eftir mat og spurði í leiðinni hver hefði eiginlega mallað súpuna, hún væri horror. Það var kokkanemi sem bar ábyrgð á eitrinu, og kokkurinn sagðist skila þessu til hennar. Eftir óendanlega langan tíma kom svo loksins stelpa og tók tómu bakkana. Ég lét þá þau orð falla að það væri fáránlegt að kokkanemarnir fengju fríar hendur til að sulla saman því sem þeir vildu og væri það ekki nógu gott fyrir veitingahúsið væri því bara hent niður í starfsfólkið. Já fólkið var sammála því og við hlógum að fjósasúpunni sem var að fylla rusladallinn.
Dó! (Homer style). Við föttuðum það þegar stelpan með bakkana strunsaði út að hún hafði gert súpuna! Hún kom svo aftur með tvo bakka, annan með reyktum laxi og hinn með saltkjötsáleggi og majónesi. Jömmí! Ég er að verða hryllilega vinsæl á Skodsborg, eins gott að ég er að fara a hætta;)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:13 |
mánudagur, mars 17, 2008
Kári kuldaboli
Þegar ég fór í vinnuna í morgun var sólskin og fallegt veður. Þannig hefur veðrið verið síðustu vikuna. Þegar ég leit út um gluggann rétt fyrir hádegi var farið að snjóa. það mætti halda að ég byggi á Íslandi. Á leið heim úr vinnunni lenti ég í hríð og vindi.
Svona á veðrið líka að vera á fimmtudaginn, daginn sem ég á pantað flug til Íslands. Alveg er þetta týpískt. Vonandi verða íslenskir flugmenn undir stýri þann daginn:)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:37 |
laugardagur, mars 15, 2008
Draumfarir
Mér finnst fátt hallærislegra í bíómyndum en þegar fólk er með martröð og rýkur upp öskrandi og vælandi. Það er mjög svo óraunverulegt. Hver sest upp öskrandi í svefni?
Ja...sei sei. Ég hef upplifað það tvisvar á þessu ári að ég hef vaknað við að ég öskraði. Mig var að dreyma eitthvað frekar óþægilegt og öskraði í drauminum, og vaknaði svo við það að ég var að öskra upp úr svefni. Alls ekki þægilegt. Og miðað við hvað það er hljóðbært í húsinu hérna þá efast ég um að nágrönnunum hafi þótt það þægilegt!
Ég er þó lamb í svefni miðað við uppáhalds svefnfólkið mitt, Marianne og John. Þau eru alveg sér á báti. Reglulega kemur M með yndislegar sögur af þeim skötuhjúum. Um daginn fór M með hitapoka í rúmið. J kom heim um nóttina úr keppnisferð og steinsofnaði fljótt. M vaknaði stuttu síðar við það að J reis upp í rúminu og hristi hana og hrópaði:"Hvað ertu að gera með kartöflupoka í rúminu kona!!!!!!!" Nóttina á eftir var M að dreyma að hún fengi body peeling á Skodsborg. Henni fannst hún ansi klístruð svo hún ákvað í draumnum að fara í sturtu. Hún vaknaði svo í baðherbergisdyrunum ansi gleiðfætt með handleggina út í loftið...hún var jú svo klístruð öll;)
Í sameiningu hafa þau einnig í svefni farið fram í stofu og sótt pullurnar úr sófanum og hlaðið þeim í rúmið. Man ekki alveg hvers vegna.
Ég rifja upp fleiri svefn atvik meðan ég skrifa þetta. Árni maðurinn hennar Gerðar vinkonu minnar átti fyrir mörgum árum eitt gott. Gerður vaknar við það að Árni er að brjóta saman sængurnar þeirra og stafla þeim upp ásamt koddunum.. G spyr hvað hann sé eiginlega að gera. "Ég þarf að gera pláss fyrir dverginn!!" segir Árni. "Dvergurinn verður að hafa pláss!!".
Svenni sem ég vann með á vegagerðinni var mikill svefngengill í æsku...átti það til að fara út í garð og dansa í kringum snúrustaurinn. Ég var sem betur fer laus við allt svoleiðis í okkar mælingaferðum, en ekki var ég laus við talið upp úr svefni. Hjá honum Benna á Kópaskeri gistum við oft í sama herbergi og vaknaði ég reglulega við ræðuhöld. Það eins sem ég man eftir, sökum svefndrunga, er þessi setning...eftir smá ágreining okkar á milli daginn áður;"Þú verður að læra...að fara eftir SKIIPUNUM!!!". Þá hló mín.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 21:33 |
miðvikudagur, mars 12, 2008
Gleði gleði
Vá hvað mig langar að spila Pictionary eftir síðustu færslu. Alltof langt síðan ég hef reynt mig í því. Og Trivial! Spilaði það reyndar aðeins um jólin. Er með einhverja spilasýki núna. Fimbulfamb, munið þið eftir því? Ég held ég hafi spilað það síðast í 10. bekk og er búið að langa að spila það aftur alveg síðan. Lumar einhver á því djúpt inni í skáp? Ég læt mér einstaka Buzz Big Quiz spilakvöld nægja í bili þar til ég hitti fleiri spilanörda:)
Svo er það Ísland eftir viku! Jeij hvað ég hlakka til:) Stíf dagskrá þá fáu daga sem ég verð á Akureyri, en held ég sé búin að gera ráð fyrir öllum í hitting. Ef ég er að gleyma einhverjum þá er bara að leggja fram formlega kvörtun og beiðni um hitting.
Mynd verður nú að fylgja færslunni þar sem ég er orðin svo myndaglöð.
Jeminn hvað menn eru sætir:) Thíhí...
Birt af Gagga Guðmunds kl. 20:15 |
mánudagur, mars 10, 2008
Breaking news
Lögreglan fann sprengju fyrir utan mosku. Hættuástandi var aflýst þegar lögreglunni tókst með lagni að ýta sprengjunni aftur inn í moskuna.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 20:50 |
sunnudagur, mars 09, 2008
Hótel Hørsholm
Ég skrapp í heimsókn til Marianne á föstudagskvöldið. Ég var að koma heim núna. Ég fer sko ekki í heimsóknir nema gera það almennilega. Tilgangur heimsóknarinnar var að slappa af og spila Buzz fram á rauða nótt, sem við og gerðum. Nema hvað, ég er alveg úrvinda núna. Það vildi þannig til að síðasti hokkíleikur tímabilsins hjá John, manninm hennar M, var á föstudagskvöldinu, og klukkan þrjú um nóttina fylltist húsið af hokkígaurum og bjór. Ég var fljót að forða mér inn í rúm með bók, svaf þó furðu vel þrátt fyrir smá læti. Í gær lágum við M svo í makindum fyrir framan sjónvarpið mestallan daginn meðan gleðskapurinn hélt áfram hjá guttunum, þeir komu og fóru allan daginn, mismargir.
Því miður áttaði ég mig ekki á að taka mynd af mér, fékk nefnilega lánuð föt af John sem er tveir metrar á hæð, þar sem ég hafði mætt í kjól og á hælum á föstudeginum. Ég var því í ermalausum gríðarlega víðum bol sem náði mér næstum niður á hné, svörtum joggingbuxum sem voru hálfum metra of síðar og tíu númerum of víðar og ullarsokkum sem náðu mér upp að hnjám; sem sagt einstaklega lekker! Ekta kósí klæðnaður:) Sem betur fer fattaði ég þó að taka mynd af Marianne.
Við M fórum að sofa um miðnætti í gærkvöldi, en ekki svaf ég alveg jafn vel og nóttina áður. Klukkan 3 komu tveir guttar heim og klukkan 6 komu svo næstu tveir, svo ég var meira og minna vaknandi alla nóttina vegna umgangs og blaðurs. Einn naggur villtist svo inn í herbergið mitt hinn hressasti og var honum harkalega vísað á réttan stað.
Ég er því ansi sybbin núna og býst við að ég skríði snemma undir feld í kveld eftir afslöppunarhelgina miklu;)
Hérna er svo John "Rocky" í svarta bolnum og Johan félagi hans.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 17:38 |
fimmtudagur, mars 06, 2008
Death becomes her
Ég er að spá í að gerast líksnyrtir. Hvernig fær maður vinnu við það? Hvað er gott að hafa á ferilskránni ef maður vill gerast líksnyrtir? Ætli það hjálpi að kunna að hreinsa, peela, nudda og farða? Já að kunna að farða hlýtur að hjálpa! Hvers konar fólk gerist líksnyrtar? Hvað fær fólk til að velja það starf? Ég meina, gamalt fólk sem deyr...ekki málið..en börn sem deyja og fólk sem deyr í slysum og er kannski sundurtætt? Það hýtur að vera erfitt. En eitthvað við þetta starf virðist heilla fólk. Kannski sporðdreka meira en aðra..?
Jæja þið látið mig vita ef þið heyrið að óskað sé eftir líksnyrti í Reykjavík!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:26 |
mánudagur, mars 03, 2008
Smá dramasaga
Jæja þá lenti maður í smá drama i vinnunni, loksins! Við Marianne heyrðum í gær hróp innan úr einu herberginu og þutum af stað til að kanna málið. Þar stóð þá Cate með nakta, meðvitundarlausa stelpu í fanginu að reyna að leggja hana á bekkinn. Við skelltum henni í heimatilbúna hliðarlegu og Marianne hljóp fram til að hringja eftir lækni. Ég byrjaði á því að frjósa alveg, vissi ekkert hvað ég átti að gera, en áttaði mig þó fljótt, vafði hana inn í lak og tékkaði púls og öndun. Hjartað sló á fullu og stelpan var kald sveitt og hálf blá grá í framan með hálf opin augun, frekar óhugnalegt. Ég reyndi að vekja hana, kalla nafnið hennar en náði engu sambandi.
Eftir nokkrar mínútur byrjaði hún að skjálfa og ég hélt hún væri að fá krampa. Skjálftinn varð svo meiri og þá varð mín nú smá smeyk! Ég er greinilega ekki góð undir álagi! Ég skildi Cate því eftir með stelpuna og hljóp fram í afgreiðslu til að tékka á læknastöðunni, en það er sjúkrahús á hótelinu og því ekki langt í hjálp. Læknirinn kom, eða hjúkkan, veit ekki hvort hún var, og ég vísaði henni inn í herbergið þar sem stelpan lá og skalf. Stuttu seinna mætti kærastinn svo á svæðið, hann hafði verið í dekri líka, en þá var stelpugreyið byrjað að kjökra svo hún var að ranka við sér.
Ég lét mig hverfa þarna, var með kúnna í fótsnyrtingu og þurfti að lakka neglur. Ég titraði svo að ég veit ekki hvernig mér tókst eiginlega að lakka táneglurnar á henni rauðar;) En hún var mjög ánægð!
Þegar ég kvaddi kúnnann minn sat stelpan svo inni í biðherberginu með smoothie, svo ég andaði léttara.
Hún hafði verið í baði og orðið ómótt og fór úr baðinu því hún þurfti að æla. Við vaskinn hafði hún svo hnigið niður en Cate náð að grípa hana.
Ég er að hugsa um að vinna aldrei á sjúkrahúsi bara!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 20:13 |
laugardagur, mars 01, 2008
Life of a saleswoman
Ég er ekki mikil sölukona í mér. Það eru alltaf einhverjar sölukeppnir í vinnunni en einhvernveginn fara þær alveg fram hjá mér. Þegar mikið er að gera, sem er eiginlega alltaf, gef ég mér engan tíma í að selja vörur, oftast þó vegna þess að ég hreinlega nenni því ekki. Það væri svo sem ekki slæm hugmynd að reyna að selja meira því ég fæ 10% í sölulaun, en neinei, engin græðgi á þessum bæ!
Á venjulegum mánuði er ég vön að selja fyrir kannski 100 þúsund krónur, en síðustu tvo mánuði hef ég bara ekkert nennt að standa í þessu, vil bara ljúka vinnudeginum af og komast heim;) Í gær var ég hins vegar greinilega í banastuði í sölumennskunni og seldi fyrir 40 þúsund kall. Góð! Konur geta alveg misst sig í innkaupum þegar þær komast í feitt. Ef ég gerði þetta á hverjum degi væri ég í góðum málum, ha!
Reyndi nú aðeins fyrir mér aftur í dag en gekk ekki alveg jafn vel og í gær. En ja, margt smátt gerir eitt stórt sagði maðurinn. Gallinn við mig sem sölukonu er líka að ég er svo ansi heiðarleg, myndi aldrei ráðleggja fólki að kaupa vörur sem mér sjálfri finnst ekki góðar. Og ég ætla bara að halda mig við þann stíl, hvað sem sölulaunum líður:)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 18:08 |
fimmtudagur, febrúar 28, 2008
Af hverju á ég aldrei nein svona móment?
Fyrir nokkrum árum var Skodsborg spa ekki nærri því eins stórt og það er í dag. Í dag ganga hlutirnir þannig fyrir sig að fólk tilkynnir komu sína í hótelafgreiðslunni og er þaðan vísað inn í stórt og flott biðherbergi þar sem boðið er upp á te, vatn og ávexti meðan fólk bíður þess að verða sótt af sínum snyrtifræðingi eða nuddara. Ég veit ekki alveg hvernig þetta var í "gamla daga" en þá voru allavega ekki nærri því eins mörg herbergi og fólk tilkynnti komu sína í spa afgreiðslunni.
Eitt sinn mætti þangað maður (köllum hann þann svartklædda) sem átti pantaðan nuddtíma. Það var enginn í afgreiðslunni svo hann stillti sér upp og beið. Stuttu síðar gengur að honum maður klæddur í hvítt frá toppi til táar og stillir sér upp við hliðina á honum. Það var enginn annar á svæðinu svo eftir stutta stund spyr sá hvítklæddi hinn manninn; "Nudd?" Jújú svartklæddi maðurinn tók undir það og saman gengu þeir svo bakvið tjald og inn í nuddstofuna... könnuðust greinilega við sig á staðnum. Þeir snúa baki hvor í annan, eins og vandi er þegar fólk afklæðist, en þegar sá svartklæddi snýr sér við sér hann að sá hvítklæddi er ber að ofan. "Fyrirgefðu" segir hann, "ert þú ekki að fara að nudda mig?". "Ha! Nei! Ert þú ekki að fara að nudda mig?" spyr sá hvítklæddi. Ja nei, ekki hélt sá svartklæddi það nú!
Get ímyndað mér að þeir hafi verið snöggir í fötin og rokið aftur út! Sá hvítklæddi var sem sagt kokkur á hótelinu sem skaust niður í nudd í hádeginu og var bara að brydda upp á umræðuefni við þann svartklædda meðan þeir stóðu svona tveir einir að bíða eftir afgreiðslu;)
Ja sei sei...ef maður væri ekki bundinn þagnarskyldu í vinnunni þá ætti ég nokkrar fleiri sögur í pokahorninu... en ég bíð spennt eftir að gera góðan skandal sem ég má segja frá!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 21:07 |
mánudagur, febrúar 25, 2008
Sumir eru bara óheppnir!
Þetta er Elizabeth. Ég vinn með henni. Hún er hálf pólsk, hálf bornhólmsk. Ég skil sjaldan meira en tæplega þriðjung af því sem hún segir, en hún talar endalaust við mig. Segir oft;"Manstu það ekki? Ég sagði þér það í gær!!". Hún á það til að vera soldið spes. Eftirfarandi sögu sagði hún í staffa teitinu á laugardaginn. Ég þurfti að fá helminginn af henni þýdda.
Eitt sinn átti Elizabeth von á Dorte vinkonu sinni og nýjum kærasta hennar í meðferð á Skodsborg. Þetta er seinnipart dags og síðasti kúnninn hennar var umræddur kærasti sem hún hafði aldrei hitt. Hún auðvitað tekur honum opnum örmum og dekrar við hann og eftir meðferðina segir hún; "Við hittumst svo bara á barnum á eftir", því það hafði verið ákveðið. "Jájá!" segir maðurinn. Elizabeth klárar að loka og fer svo á barinn þar sem maðurinn bíður hennar hinn stilltasti. "Og hvað viltu drekka?" spyr hún manninn og hann pantar öl handa þeim. "Hvar er Dorte svo?" spyr Elizabeth og maðurinn svarar því til að hún standi í afgreiðslunni. "Nú við skulum bara ná í hana" segir Elizabeth og maðurinn hlýðir því og saman fara þau fram í afgreiðslu að sækja Dorte.
Vá...ég veit ekki hvernig ég á að halda áfram með þessa sögu.
Allavega. Elizabeth uppgötvar það þegar þau sækja Dorte að hún hafði farið svona all svakalega mannavillt. Kona mannsins var ekki Dorte vinkona hennar! En ekki gat hún farið að viðurkenna þessi vandræðalegu mistök sín. Nei nei, hún kynnir sig bara og segist hafa haft manninn hennar í nuddi og nú ætli þau á barinn. Svo þau setjast öll saman á barinn og fá sér í glas.
Þegar þarna var komið við sögu var ég um það bil að æla úr mér lungunum af hlátri svo ég missti aðeins úr sögunni. Hvað um það, nokkru síðar kemur hin rétta Dorte á barinn að finna Elizabeth eins og þær höfðu ákveðið, og finnur hana í góðum félagsskap með ölkrús í hendi. Hún spyr auðvitað hvaða fólk þetta sé og þá neyddist Elizabeth til að láta grímuna falla og útskýra þessa furðulegu hegðun sína fyrir aumingja hjónakornunum sem voru neydd á barinn með nuddaranum.
Já, við veitum sko góða þjónustu á Skodsborg. Barferð með snyrtifræðingnum innifalin í meðferðinni!
Heyrði svo aðra ansi góða sögu í dag...hún kemur á morgun;)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:02 |
laugardagur, febrúar 23, 2008
föstudagur, febrúar 22, 2008
Bara muna.....
Munið eftir beltunum!
Munið eftir að fara í bað!
Munið eftir að nota sólarvörn!
Munið eftir að borða!
Og munið svo eftir því sem skiptir máli.....
Birt af Gagga Guðmunds kl. 03:11 |
fimmtudagur, febrúar 14, 2008
Allt í góðu sko!
Ég er ekki að standa mig í blogginu. Hef varla kveikt á tölvunni í heila viku. Undur og stórmerki gerast! En nú er ég mætt aftur af fullum krafti...:)
Ég átti ljómandi góða langa helgi, frí í vinnunni frá föstudegi og mætti ekki aftur fyrr en á miðvikudaginn. Ég átti von á heimsókn frá Íslandi um hálf níu leytið á fimmtudagskvöldinu, en eitthvað var íslenska veðrið að stríða mér, svo fimmtudagskvöldi og -nóttu var eytt einhvern veginn svona:
Gott að hafa Marianne og Hawaii gallann innan handar í vonsku veðri:)
Klukkan fimm um nóttina var ég búin að gefa upp alla von og skreið í bólið, en sei sei þá ákvað Ísland að fara í loftið. Af sjálfsdáðum (nota bene) vaknaði ég því klukkan átta og tók á móti gesti góðum upp úr níu. Helginni var svo eytt í glaum og gleði og skoðunarferðir um Kaupmannahöfn og nágrenni...*hóst* .. Neinei helginni var eytt voða mikið í Næstvedgade 6a og nánasta nágrenni;)
Og hver var hinn dularfulli gestur? (Gæti einhver spurt sig..ekki margir).
Nú auðvitað yndið mitt:)
Jæja...búið að taka mig marga tíma að skrifa þessar nokkru línur, brjálað að gera á meðan! Smelli kannski inn færslu á morgun;) Ciao ciao!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:31 |
þriðjudagur, febrúar 05, 2008
Skrúbbi skrúbbbb...
Þá er vorhreingerningum lokið. Ég get greinilega ekki tekið til án þess að það taki allan daginn. Byrjaði á að taka til og ryksuga, flutti svo húsgögnin horna á milli, ryksugaði aftur, þvoði þvott og þreif og skrúbbaði hátt og lágt eldhús og bað, ryksugaði loftin og veggina, og gólfin svo í þriðja skiptið. Hefði þurft að fá Cillit Bang konuna í flísarnar yfir eldavélinni, en þetta tókst með Ajaxinu. Afkalkaði svo hitakönnuna og skrúbbaði og olíubar stofuborðið.
Núna á ég bara eftir að leggja sjálfa mig í bleyti og þvo af mér köngulóarvefinn, og þá er allt reddí. Maður gæti jafnvel fengið fólk í heimsókn í íbúðina eins og hún glansar núna! Sei sei...
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:32 |
sunnudagur, febrúar 03, 2008
Blindur er bóklaus maður
Ég var að ljúka við að horfa á myndina "Girl with a pearl earring". Ógurlega varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Ég las bókina á ensku fyrir jólin og heillaðist algjörlega. Sagan er góð og lýsingarnar svo fallegar. Persónurnar ljóslifandi og hin dulda spenna á milli þeirra skein í gegn án þess að vera yfirgnæfandi. Myndin var hörmuleg. Það vantaði tvo þriðju hluta sögunnar inn í hana. Mér leið eins og ég væri að lesa tuttugustu hverja blaðsíðu bókarinnar meðan ég horfði á myndina. Sagan afbökuð og "dramatíseruð" fram úr öllu hófi, áhrifamiklum atriðum sleppt algjörlega. Og svo er gert ráð fyrir að áhorfandi sé all verulega heimskur. En svona eru kvikmyndir eftir bókum víst.
Er komin með bakþanka um að sjá Flugdrekahlauparann í bíó í næstu viku. Las bókin. Tími varla að spilla þeirri upplifun.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:11 |
fimmtudagur, janúar 31, 2008
miðvikudagur, janúar 30, 2008
Hjartað opnað
Hringnum þriggja hefur verið snúið við. Í þetta sinnið skal ég svara Drafnar spurningum.
1.Ef þú værir kjóll, hvernig kjóll værir þú?
Ég væri brúðarkjóll. Fáránlegur við flestar aðstæður, viðeigandi aðeins einstaka sinnum.
2. Nefndu 4 atriði sem þú vilt afreka á æfinni.
Ég vil heimsækja allar heimsálfur. Ég vil gera líf einhvers betra. Mig langar að eignast draum og láta hann rætast. Mig langar að prófa að fæða barn, þó ég sé ekki enn viss um að mig langi í eitt slíkt;)
3. Hvað viltu vera að gera þegar þú verður 57 ára gömul?
57 ára gömul..það er ekki mikill aldur. Ég vona allavega ég verði loksins búin að læra að prjóna og hekla! Ef lukkan leyfir hefur mig kannski langað að eignast barn og á ef til vill nokkur af þeim. Ja svei mér þá ef ég á ekki huggulegt heimili, jafnvel góðan mann, og heil á sál og líkama! Eftir 30 ár er ég vonandi að vinna að því að gera heiminn betri. Hvernig sem farið er að því. Maður getur ef til vill gert heiminn í kringum sig betri þó maður geti ekki bjargað öllum heimsins börnum. Aðallega óska ég þess að 57 ára þurfi ég ekki að líta til baka með sorg og eftirsjá heldur með gleði og þakklæti.
4. Hver er þinn mesti kvíði núna og þín mesta tilhlökkun núna?
Minn mesti kvíði er kannski að ég standi ekki undir eigin væntingum. Mín mesta tilhlökkun núna er sjöundi febrúar;)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 20:41 |
Andvökusálmur
uni þér hver sem má.
Þú hefur mæðumarga
myrkurstund oss í hjá
búið með böl og þrá,
fjöri og kjark að farga.
Fátt verður þeim til bjarga,
sem nóttin níðist á.
Myrkrið er manna fjandi,
meiðir það líf og sál,
sídimmt og síþegjandi
svo sem helvítis bál
gjörfullt með gys og tál.
Veit ég, að vondur andi
varla í þessu landi
sveimar um sumarmál.
Komdu, dagsljósið dýra!
dimmuna hrektu brott;
komdu, heimsaugað hýra!
helgan sýndu þess vott,
að ætíð gjörir gott, -
skilninginn minn að skýra,
skpenunni þinni stýra;
ég þoli ekki þetta dott.
Guðað er nú á glugga;
góðvinur kominn er,
vökumanns hug að hugga;
hristi ég nótt af mér,
uni því eftir fer.
Aldrei þarf það að ugga:
aumlegan grímu skugga
ljósið í burtu ber.
Jónas Hallgrímsson
Birt af Gagga Guðmunds kl. 00:44 |
mánudagur, janúar 28, 2008
Varúð til aðdáenda græns tes
En hvað græns tes hljómar eitthvað asnalega!
En hvað um það. Hollusta græns tes hefur verið rómuð í fjölmiðlum og heilsubókum síðustu ár. Full af andoxunarefnum, vernda gegn ýmsum sjúkdómum og hreinsa líkamann. Ekki dreg ég það í efa og hef ég verið dugleg að drekka það. En flest er best í hófi, það hefur sýnt sig og sannað.
Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að drykkja á grænu tei hafi leitt til lifrarbólgu í fullhraustu fólki. Þetta er að gerast á Íslandi og einnig eru sömu niðurstöður að fást úr rannsóknum utan úr heimi.
Svo ef þú ert að drekka mikið af teinu góða, þá er spurning um að minnka skammtinn aðeins.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 20:12 |
sunnudagur, janúar 27, 2008
Top model Sweden
Maður á sín gullnu móment... Pastað fræga eldaði ég eina góða nótt fyrir gott fólk. Það var aaaðeins of mikill ostur í því.
Ég þakka Louise vinkonu minni kærlega fyrir að hafa sent mér þetta hreint frábærlega fallega myndband af mér! Í blómaskónum hennar Lou Lou, alltof stórum.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:52 |
laugardagur, janúar 26, 2008
Keðjubréfaspurningaleikurinn
Það er einhver þriggja manna leikur í gangi milli mín, Guðrúnar og Drafnar. Hef ég heyrt;) Í minn hlut kom að svara eftirfarandi spurningum frá Guðrúnu:
1. Hvaða bók hefur breytt þér?
Ég hef lesið alveg ógrynni af bókum á ævinni. Ég veit ekki hvort einhver þeirra hafi hreint og beint breytt mér, en ein minnisstæðasta bók sem ég hef lesið er bókin "Býr Íslendingur hér?", minningar Leifs Muller eftir Garðar Sverrisson sem ég las þegar ég var 14 minnir mig. Leifur Muller bjó í þrælkunarbúðum nasista í Sachsenhausen í seinni heimsstyrjöldinni og segir bókin frá upplifunum hans þar.
2. Við hvaða lag spretturu á fætur og slekkur á útvapinu?
Ef eitthvað lag fengi mig til að spretta á fætur á morgnana þá myndi ég spila það daglega! Annars er ég með svo ferlegan tónlistarsmekk að það eru fá lög sem láta mig slökkva á tækinu. Það er reyndar sýnd hér í sjónvarpinu dönsk sápa sem heitir 2900 Happiness, og þegar titillag hennar kemur í útvarpinu á ég það til að skipta um stöð.
3. Hvað hélstu að þú yrðir þegar þú varst lítil, en verður ekki?
Ég er einföld sál og hef litlar væntingar til lífsins. Eða þá að ég er mjög stórbrotin og flókin sál;) Allavega átti ég mér aldrei neina drauma sem barn sem ég man eftir og á þá ekki enn. Ég lifi einn dag í einu og tek því sem að höndum ber með jafnaðargeði og stundum ekki. Jújú gamall draumur er að verða fornleifafræðingur í Egyptalandi. En ég er enn of ung til að segja að sá draumur muni aldrei rætast.
4. Skemmtileg staðreynd um þig sem ég vissi ekki fyrir?
Ég er opin bók! Vita ekki allir allt um mig? :) Ja, ég er ein af fáum konum sem ég þekki sem skarta mínum upprunalega háralit! Einnig þjáist ég af krónísku tábergssigi og langar mikið í byssuleyfi svo ég geti farið í gæs. Svo langar mig auðvitað ógurlega til að skríða um leynda ganga pýramídanna...
Birt af Gagga Guðmunds kl. 18:00 |
miðvikudagur, janúar 23, 2008
Hvar er vorið mitt?
Ég er ekki að segja að það sé vont veður í Kaupmannahöfn.. en vorblíðan mín er allavega á góðu undanhaldi!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:05 |
mánudagur, janúar 21, 2008
Sauðir!
Ég er stundum svo heppin að það er með ólíkindum. Borðaði hádegismat seint í dag og vorum við bara fáeinar hræður í mat. Það var þarna albúm með myndum frá árshátíðinni og sökktum við Trine okkur í það. Í miðju albúmi er skondin mynd af einhverri stelpu sem ég hef aldrei séð áður, augun á henni voru vægast sagt skringileg á myndinni, annað rautt af flassinu en hitt alveg matt. "Nei hihihi, en fyndin" segi ég og bendi á myndina. Heyri þá yfir öxlina á mér: "Þetta er ég...". Úbbs...tók ekki eftir neinum fyrir aftan mig! "Óóóó" segi ég, "ertu með sitthvorn litinn á augunum?", spyr ég til að reyna að bjarga mér út úr þessu. Þá pikkar hún á annað augað á sér með nöglinni og segir: "nei, ég er með glerauga". Góð Ragnheiður!
Ég átti þó engan þátt í mestu snilldinni í dag. Það er nýbúið að setja upp glervegg fyrir enda spa gangsins, sem við þurfum að labba fyrir til að komast í bakherbergið okkar. Við Cate vorum með dobbel meðferð saman í dag, förum út úr herberginu okkar og Cate er svo voða mikið að horfa aftur fyrir sig út ganginn að hún gengur beint á og stangar glerið svona líka ógurlega. Úff hvað ég hló...ekki skánaði ég þegar taut heyrist í Cate; "ohh, aftur..."
Ég beið auðvitað eftir henni bakvið vegginn næst þegar hún kom og smellti af henni mynd. Því miður mundi hún eftir að horfa fram fyrir sig.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:34 |
laugardagur, janúar 19, 2008
Helstu janúarfréttir
Sjónvarpsfjarstýringin mín hefur ansi sjálfstæðan vilja. Þegar ég hækka á hún það til að skipta um stöð og þegar ég vil skoða textavarpið þá hækkar hún í sjónvarpinu. Þetta getur verið hin besta skemmtun á einmanalegum kvöldum.
Ég hef verið að taka að mér aukavinnu í janúar vegna blankheita. Nudd í Vigör center, eða í regsnkógaloftslagi í sundlauginni, á hótelinu. Reyndar bara þrjú kvöld, en það gefur smá aur í vasann, þar sem ég er með meira en tvöföld spa laun á tímann þarna;) Svo er ég að vinna með svo fínu fólki að þetta er meiri skemmtun en vinna.
Ég er byrjuð í spinning aftur eftir mikla leti síðan í nóvember. Hef nú ekki mætt mikið en þetta kemur allt.
Íbúðin á Akureyri er heldur betur í góðum höndum. Heiggi kom norður í gær til að aðstoða pa og Gumms við málningarvinnu og er stíf vinna alla helgina. Ég á heldur betur góða að! Hermann smiður og alt mulig mand kemur svo í febrúar og leggur parket, setur upp nýtt baðherbergi og nýjan stiga. Um jólin rifum við niður tvo veggi, baðherbergið að mestu, teppi af gólfum, stigann og hillu- og naglhreinsuðum í hólf og gólf. Trúi ekki öðru en íbúðin verði gríðarlega búvænleg fyrsta mars:) Þá verður hún sett í leigu. Bið fólkið mitt um að taka myndir þegar íbúðin er tilbúin og birti hér.
Annars er fátt að frétta héðan úr vorblíðunni í Kaupmannahöfn og bíð ég bara eftir að janúar verði búinn svo febrúar geti komið með öll sín yndi:)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:57 |
fimmtudagur, janúar 17, 2008
Draumakonan
Mig dreymir oft og mikið. En síðustu nótt dreymdi mig mjög sterkan og undarlegan draum. Ég gisti á dýni í kjallaranum hjá ma og pa. Það var bjart í herberginu þegar ég vakna við að maríuerla er á vappi allt í kringum mig. Rétt eftir að ég ranka við mér stekkur hún upp á hausinn á mér og fer að byggja hreiður úr hárinu á mér. Ég fylgist með henni í langan tíma í draumnum hvernig hún byggir hreiðrið og tekur hvern lokkinn á eftir öðrum og strekkir á andlitinu á mér meðan hún byggir og byggir. Glæsilegasta hreiður sem ég hef séð. Og ég þreifa fyrir mér og finn hversu vel hún hefur byggt hreiðrið. Pláss fyrir egg og allt. Ákveð þá að fara upp og sýna ma og pa hversu glæsilegt hreiður er á hausnum á mér. Allir dást að hreiðrinu við eldhúsborðið en við heyrum læti niðri. Ég verð hrædd og ekki að ástæðulausu. Upp tröppurnar kemur Hildur kærasta bróður míns og segir að hún hafi haldið að það væri mús í baðskápnum svo hún hafi lamið og lamið en þegar músin var dauð hafi hún fattað að þetta var fugl. Og það var maríuerlan sem hún drap. Og ég grét.
Hver er svo draumaráðandinn mikli???
Birt af Gagga Guðmunds kl. 01:37 |
mánudagur, janúar 14, 2008
Ferðalok
Ástarstjörnu
yfir Hraundranga
skýla næturský.
Hló hún á himni,
hryggur þráir
sveinn í djúpum dali.
Veit ég, hvar von öll
og veröld mín
glædd er guðs loga.
Hlekki brýt ég hugar
og heilum mér
fleygi faðm þinn í.
Sökkvi eg mér og sé ég
í sálu þér
og lífi þínu lifi.
Andartak sérhvert,
sem ann þér guð,
finn ég í heitu hjarta.
Tíndum við á fjalli,
tvö vorum saman,
blóm í hárri hlíð.
Knýtti ég kerfi
og í kjöltu þér
lagði ljúfar gjafir.
Hlóðstu mér að höfði
hringum ilmandi
bjartra blágrasa,
einn af öðrum,
og að öllu dáðist,
og greipst þá aftur af.
Hlógum við á heiði,
himinn glaðnaði
fagur á fjalla brún.
Alls yndi
þótti mér ekki vera
utan voru lífi lifa.
Grétu þá í lautu
góðir blómálfar,
skilnað okkarn skildu.
Dögg það við hugðum,
og dropa kalda
kysstum úr krossgrasi.
Hélt eg þér á hesti
í hörðum straumi,
og fann til fullnustu,
blómknapp þann gæti
eg borið og varið
öll yfir æviskeið.
Greiddi eg þér lokka
við Galtará
vel og vandlega.
Brosa blómvarir,
blika sjónstjörnur,
roðnar heitur hlýr.
Fjær er nú fagurri
fylgd þinni
sveinn í djúpum dali.
Ástarstjarna
yfir Hraundranga
skín á bak við ský.
Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg.
En anda, sem unnast,
fær aldregi
eilífð að skilið.
Jónas Hallgrímsson
1807-1845
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:18 |
föstudagur, janúar 11, 2008
Ræfillinn
"Þessi nýja sýn hans sprettur af því að hún hefur ummyndast í reiði sinni og sárindum, hann vælir í henni í vörn með sínar barnalegu afsakanir, sýnir hvorki karlmennsku né hlýjar tilfinningar, og hún öskara á móti og gerir honum ljóst að hann sé ógeð, lygari, svikari, og hún vilji aldrei sjá hann meir. Þótt hún sé í raun bara að hrópa: "Elskaðu mig, elskaðu mig," eins og konur gera við þessar aðstæður - fellur Hrútur á prófinu. Ræfildómurinn slíkur að hann gat ekki kropið og sagst elska, gat ekki verið maður. Nú tekur farsinn við.
Þegar konur æpa í örvæntingu að þær vilji aldrei sjá mann meir æpa þær í raun ástarsorg sína og þörf, hann hefði átt að taka hana í fangið, segjast elska hana, sefa hana <...>"
Úr bókinni "Kalt er annars blóð" eftir Þórunni Erlu-Valdimarsdóttur.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 20:25 |
miðvikudagur, janúar 09, 2008
Allt í blóma
Ég fékk blómkálssúpu í hádegismatinn í dag. Ekki svona blómkálssúpu úr dufti heldur úr blómkáli. Sem sagt fullan disk að blómkáli í fljótandi formi. Til að orða það pent þá er ekki sniðugt að borða fullan disk af blómkáli þegar maður vinnur á snyrtistofu.
Í kvöldmatnum klukkan hálf fimm var maginn farinn að orga á meiri mat svo ég hljóp niður í Spiseklub til að skella einhverju í mig. Og hvað var á boðstólum? Gulrótasúpa. Svo ég borðaði fullan disk af fljótandi gulrótum. Sem betur fer var ég búin að vinna klukkan fimm og gat farið heim. Og ekki orð um það meir!
Ég tók auðvitað myndavélina með í vinnuna í dag og smellti aðeins af.
Þetta er sem sagt vinnan mín, spa-ið. Reyndar bara gangurinn.
Þetta er hálft herbergi af tíu sem eru í spa-inu.
Claire gella að gera sig klára.
Og Marianne yndið mitt. Gerir lífið bærilegra:)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 17:54 |
sunnudagur, janúar 06, 2008
Enn eitt árið liðið??
Ja ég hef greinilega eytt jólunum í eitthvað allt annað en að blogga! Í þessari fyrstu færlsu ársins 2008 ætla ég að brydda upp á nýjung í formi ljósmynda sem ekki eru hálfs árs gamlar að vanda. Ég fékk nefnilega langþráða myndavél í jólagjöf og hef verið óstöðvandi á takkanum síðan.
Ég fékk íbúðina mína afhenta daginn eftir að ég kom til landsins og var nokkrum jóladögum eytt þar við niðurrif með dyggri aðstoð pa og Gumms, hryllilega gaman.
Fyrsta mynd, Gumms fyrir neðan stigann ógurlega.
Önnur mynd, pabbi mundar kúbeinið einbeittur á svip.
Þriðja mynd, stiginn ógurlegi heyrir sögunni til.
Íbúðinni fylgir stór kjallari með lofthæð 180 cm. Fyrrverandi eigandi var mikill áhugamaður um nagla virðist vera. Hérna sést smá partur af gleðinni sem beið okkar, og tók um klukkustund fyrir tvo að naglhreinsa kjallarann.
Hérna má svo sjá afköstin, örugglega eitt kíló af nöglum.
Um áramótin var ég nú ekki alveg á því að fara út á lífið, ansi þreytt eftir allt niðurrifið, en Hugrún er þrjóskari en fjandinn og tókst að gabba mig með í bæinn. Við kíktum fyrst á opið hús hjá Klöru mömmu Nínu og þar tók Jóhann nokkur sálfræðingur þessa ljómandi flottu mynd af okkur stöllum.
Gríman var ekki tekin niður fyrr en klukkan sjö um morguninn og vöktum við mikla athygli karlpeningsins á Sveitta kaffi;)
Lengra verður bloggið ekki að sinni, enda ekki þörf á miklum skrifum með allar þessar myndir í færslunni:) Gleðilegt ár!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 16:47 |