mánudagur, apríl 26, 2004

Kraftaverk

Ég var andvaka í alla nótt. Ég náði að festa blund eftir 06:18 í morgun og mér til mikillar ánægju hringdi svo vekjarinn klukkan 07:30. Ég snúsaði til korter í átta og þurfti þá að dröslast á fætur til að mæta í skólann. Þetta er því búinn að vera frekar erfiður morgunn en sem betur fer er skólinn búinn í dag og ég barasta verð að leggja mig ef ég á að geta gert eitthvað meira í dag. Þæfði þessa líku fínu tösku í skólanum þó að orkan væri lítil, og næst á dagskrá er að þæfa mér sjal og þrykkja á rúmföt. Nóg að gera í verkefnum þessa síðustu skólaviku.

Ég las í gærkvöldi viðtal við eiginkonu Kristjáns Jóhannssonar óperusöngvara í Nýju Lífi. Þar segir hún frá baráttu sinni við ólæknandi lungnasjúkdóm sem gerir það að verkum að hún var með svokölluð steinlungu; ör myndast á lungunum og súrefnisupptakan var komin niður í tæp 40%. Þessi ör hverfa aldrei, og eftir því sem sjúkdómurinn ágerist, fjölgar örunum. Hún þurfti að vera endalaust á sterum til að halda sjúkdómnum niðri, en engin lækning er til við honum. Eftir nokkurra ára baráttu er hún svo stödd í kirkju úti á Ítalíu þar sem þau búa, og biður þar Guð um að gera á sér kraftaverk og finna fyrir sig lækningu. Hún lofar honum í staðinn að láta allan heiminn vita af því. Þegar hún gengur út úr kirkjunnu finnur hún hita innra með sér, eins og að lítið ljós hafi kviknað þar og sé að stækka og breiða sig út um líkamann. Hún fékk kraftaverkið sitt! Örin hurfu og í dag er hún laus við þennan ólæknandi sjúkdóm og súrefnisupptakan orðin 100%!!! Í kjölfarið fer hún í Vatikanið til páfa og staðfestir þar kraftaverk sitt, og hún og fjölskskylda hennar hittir páfann og fá blessun hans. Hún segist sjálf vera nútíma kona og að það hafi virkilega verið erfitt fyrir sig að uppfylla loforð sitt við Guð, því trúin sé henni svo mikið einkamál. En hún gat ekki hætt að hugsa um þetta fyrr en hún lét heiminn vita.

Er þetta ekki yndisleg vitneskja, að fá það staðfest að Guð sé til, hann vaki yfir okkur og bænheyri! Ég varð svo lítil þegar ég las þetta viðtal og full af kærleik, og tárin spruttu fram í augnkrókunum. Ef maður bara trúir og biður, þá virkilega geta kraftaverkin gerst!