miðvikudagur, janúar 05, 2005

Jarðskjálfti!!!

Ég dottaði yfir bók undir sæng og var farin að dreyma að ég væri að borða fullt af súkkulaði og nammi og bleiku og bláu laufabrauði þegar ég vaknaði við að rúmið mitt hristist og loftið nötraði. Það þarf greinilega ekkert minna en jarðskjálfta til að koma mér á fætur því ég drattaðist fram úr og hringdi í mömmu til að spyrja hvort það hefði komið jarðskjálfti eða hvort það væri loksins kominn tími til að leggja mig inn á geðdeild. Það var sem ég hélt, enn er einhver tími í innlögn, því hún fann skjálftann líka. Þetta gerðist núna tíu mínútur í fjögur og kom svo í fréttunum klukkan fjögur, jarðskjálfti fimm á richter, norð-suð-aust-vestan við Grímsey að mig minnir... ;)

Man tvisvar eftir að hafa fundið fyrir jarðskjálfta á Akureyri og bæði skiptin í blokk. Annað skiptið var ég sofandi uppi á fimmtu hæð og vaknaði við að hlutir duttu úr hillunum mínum og allt lék á reiðiskjálfi og hitt skiptið var ég á hæðinni fyrir neðan, sem sagt á fjórðu hæð, og var að spila við eldhúsborð sem tók svo að hristast heldur mikið fyrir minn smekk. Núna er ég á þriðju hæð svo ég er orðin mjög reynd í jarðskjálftamálum!