sunnudagur, janúar 30, 2005

Nikotínbölið

Þegar ég hætti að reykja síðasta sumar notaði ég bæði nikótínplástur og tyggjó því ég hélt ég myndi aldrei meika að vera allan daginn vinnandi uppá fjöllum í miðju hvergilandi án rettunnar minnar góðu. Svenni hætti líka og saman jöpluðum við á gúmmíi í pásum í staðinn fyrir hinn venjulega smók sem var eina ánægja okkar eftir nokkurra tíma brölt törn í þúfum og hrauni. Svenni féll síðan og strompaði fyrir framan mig nokkrum dögum síðar, en ég entist og japlaði á stráum og át fiskbúðing og ferskjur. Ég entist í 12 daga.

Núna ákvað ég að hætta bara án þess að nota nokkurt hjálpartæki til þess og ég hef gert merkilega uppgötvun...sem er að sjálfsögðu ekki baun merkileg ef maður spáir í hana; Ef maður notar plástur og tyggjó fær líkaminn reglulega nikótín og kallar því alltaf á sinn skammt á hverjum degi. Maður heldur líkamanum í rauninni húkkt á nikótíninu. En ef maður bara þraukar fyrstu tvo þrjá dagana alveg nikotínlaus, þá hættir líkaminn að kalla á þetta! Svo ef einhver þarna úti er á leið að hætta að reykja ráðlegg ég honum að sýna (óendanlega mikinn) styrk og þrautseigju og halda þessa fyrstu daga út án nikótíns!

(Ekki það að mig langi ekki í sígarettu ennþá og falli ef til vill ... finn bara mun á þessum tveimur aðferðum.)