mánudagur, nóvember 05, 2007

Ammili

Þá er maður orðinn árinu eldri en í gær. Tíminn líður hratt..!

Dagurinn byrjaði mjög furðulega á því að ég fór á fætur klukkan sjö án þess að snúsa og fékk mér danska AB-súrmjólk með speltfleksi. Hvorugt hefur gerst í langan tíma. Í vinnunni arkaði Nellieann samstarfskona mín í hótel eldhúsið, ákveðin á svip, og bað um að afmæliskringla yrði bökuð í tilefni dagsins, sem og var gert þegjandi og hljóðalaust; við sóttum kaffi og kakó og buðum svo til afmælisveislu.

Yfirkonu minni fannst ég eiga skilið smá dekur eftir þrælkunarvinnu síðustu mánuða (orðaði það reyndar ekki þannig en ég valdi að skilja það þannig) og splæsti á mig klukkutíma nuddi frá ellefu til tólf í boði Nellie. Ég nudda jú "hálfan liðlangan daginn" en hef sjálf ekki fengið nudd síðan við stelpurnar í skólanum þjösnuðumst hver á annarri fyrir ári síðan eða svo, og voru nuddhæfileikarnir þar mjög misjafnir, svo ég var ansi sátt við þetta framtak. Ég fann heldur betur fyrir því hvað ég er aum í kroppnum, var farin að væla á tímabili, en það "á" víst "að vera vont áður en það verður gott".. haft eftir sjálfri mér.

Ég fór svo beint eftir vinnu í mat til S og P í Lyngby þar sem tekið var á móti mér með kyndlum og fánum og steik með bernais. Fátt betra en það. Lak svo niður eftir matinn, alveg búin á því, enda hálf ósofin af spenningi yfir að eiga afmæli!

Ég þakka fyrir allar afmæliskveðjurnar sem ég hef fengið í dag í gegnum miðla nútímans. Þeir sem sendu mér ekki kveðju, þið getið bara átt ykkur...!