föstudagur, nóvember 09, 2007

Dagur hinna góðu kaupa og furðulegu manna

Ég rauk á fætur fyrir allar aldir í morgun til að ná að útrétta fyrir vinnu. "Fyrir allar aldir" þýðir að þessu sinni klukkan hálf níu þar sem ég átti ekki að mæta í vinnu fyrr en hálf tólf. Fyrst sótti ég afmælisgjöfina mína frá ma, áðurnefndan undra-ljósa-lampa, fróðlegt að sjá hvernig hann virkar. Ég arkaði með hann heim og skilaði af mér og hélt leiðangri mínum svo áfram. Næsta stopp var aðalbrautarstöðin.

Til að komast á aðalbrautarstöðina þurfti ég að taka lestina frá Nordhavn station. Þegar ég er á leiðinni upp tröppurnar sé ég að lestin er að renna að palli og skokka því af stað til að ná henni. Lestarstjórinn skrúfar niður rúðuna, stingur höfðinu út um gluggann og sér mig koma hlaupandi, fylgist með mér nálgast, ég hleyp framhjá honum og að lestardyrunum sem eru svona þrjá metra frá glugganum, hann horfir á eftir mér, ég ýti á takkann til að opna aftur dyrnar sem eru að lokast, lestarstjórinn enn með hausinn út um gluggann og horfir á mig, læsir dyrunum og horfir enn á mig, ég horfi á hann með undrunarsvip, hann hverfur úr glugganum, skrúfar rúðuna upp og keyrir í burtu. Sumt fólk er bara furðulegt.

Ég komst með næstu lest á aðalbrautarstöðina en þar hafði ég haft uppi á búð sem selur Little Britain á hreinu gjafaverði. Ég fjárfesti í öllum þremur seríum, sex diskum, og borgaði aðeins 365.- kr fyrir. Danir þekkja sem sagt ekki þessa þætti. Er svo búin að bíða í allan dag með fiðrildi og hnúta í maganum eftir að komast heim og horfa á þriðju seríuna. Þar sem ég er komin með smá leiða á að enginn skilji brandarana mína í vinnunni (sem skiptir svo sem engu máli, það hlæja allir samt) lánaði ég Marianne fyrstu seríuna og skikkaði hana til að horfa á hana í kvöld. Á morgun ætlum við svo að hafa Girls Night IN, horfa á Litla Bretland, borða mikið af pizzu og rústa Playstation gítarleiknum hans Johns.

Að sjálfsögðu keypti ég smá gos og snakk á leiðinni heim úr vinnunni til að njóta Mr. Walliams maraþonsins sem best, og greip nokkrar nauðsynjar með í leiðinni, þrammaði svo heim á leið og þar sem hálfgerð slydda var í lofti setti ég upp loðhettuna á úlpunni minni. Það var ansi hvasst og hettan vildi ekki vera á sínum stað svo ég tosa hana alveg niður í augu, set höfuðið undir mig og tek pokann í fangið. Ég trítla í hælana á eldra pari en manninum virtist ekkert vera mjög vel við það, hann sneri sér ítrekað við og horfði á mig. Ég lendi vinstra megin við þau því þau gengu svo hægt en fatta svo að ég þarf að beygja til hægri svo ég tek skarpa hægri beygju aftur fyrir þau og þá hélt ég að manninum væri hreinlega öllum lokið, hann snarsneri sér við með hliðarhoppi og starði á mig svo ég varð bara hálf skelkuð, en hélt þó ótrauð áfram ferð minni. Hann hefur örugglega haldið að ég ætlaði að ráðast á þau. 160 sentimetra hár ofbeldisdólgur með loðkragahettu og Irma poka í fanginu.