þriðjudagur, nóvember 13, 2007

Að vera eða ekki vera

Það er full vinna að gera sig fallega. Það þarf að baða sig og skrúbba, bestur árangur næst með pílingkremi og skrúbbhönskum, olíur og sölt í baðið er mikið möst, þvo og næra hárið og klippa það og lita inn á milli, hreinsa eyru, greiða sér og kannski blása hárið, raspa sigg af hælunum, snyrta neglur og naglabönd á höndum og fótum, handkrem og fótakrem, fjarlægja hár af ýmsum líkamshlutum með rakstri og vaxi, plokka og lita augabrúnir, bera á sig boddílósjon, ekki verra að hafa það með smá brúnku í, hreinsa andlitið og píla, leggja maska og bera á andlitið olíur, serum og krem kvölds og morgna, varasalva til að halda vörunum mjúkum, augnkrem til að halda hrukkunum í burtu, naglaolíu til að halda nöglunum fallegum. Andlitsfarði er ómissandi, svolítill meikslatti, maskari og gloss gerir gæfumuninn, ilmvatn og líkamssprey, hárgel/sprey/mödd og hvað þetta nú heitir allt í hárið, bursta tennur, nota tannþráð og munnskol, sólarvörn.

Öll þessi vinna ber mig jafnan ofurliði og geng ég þá um óböðuð og úfin, andlitslaus, loðin, sambrýnd og illalyktandi og finnst bara ekkert að því.