laugardagur, nóvember 17, 2007

Dægurtruflun

Nú held ég að komið sé að því, ég er að verða endanlega geðveik. Ég hef þjáðst af svolítilli dægurröskun undanfarið og haft ýmislegt fyrir stafni fram undir morgun en í nótt fór ég fram úr sjálfri mér í furðulegheitum. Klukkan fjögur lá ég í rúminu og bylti mér og sá svo að þetta væri ekki til neins, ég gæti allt eins farið á fætur og gert eitthvað af viti.

Ég byrjaði því á að ryðja gólf og stóla af öllu sem ekki átti þar heima, hreint í skápinn, óhreint í taukörfuna, flokkaði pappíra, henti ógrynni af drasli úr skápum og af borðum, þurrkaði af, vaskaði upp, þreif baðherbergið í hólf og gólf, pússaði spegla, skipti á rúminu, henti útrunnum mat úr ísskápnum, vökvaði blómin, flokkaði þvott, sneri sófanum á hvolf og tók af honum áklæðið, fór með glerflöskur og pappíra út í gám, auk margra ruslapoka út í tunnu. Klukkan átta setti ég í fyrstu þvottavélina, það má víst ekki byrja fyrr, kunni heldur ekki við að ryksuga fyrr en um hálf níu leytið. Klukkan níu bankaði ég uppá hjá konunni á jarðhæð til að kaupa þvottamyntir, sá inn um gluggann að hún var vöknuð. Ég þvoði og þurrkaði fjórar vélar og að öllu þessu loknu var klukkan að verða ellefu, og ég komin með langan innkaupalista yfir hluti sem mig bráðvantaði á heimilið. Ég setti því upp andlit og hár og skundaði í bæinn.

Ég fann ekki allt sem á listanum stóð en náði þó að fjárfesta í skrúfum fyrir baðhillu, kalkhreinsi fyrir hraðsuðukatla, þvottaefni, kertum, naglabursta og ruslafötu á baðherbergið. Auk þess fór ég með flöskur í endurvinnslu. Þá var ég orðin ansi svöng svo ég settist inn á uppáhalds litla staðinn minn og fékk mér kjúklingabringu, kartöflugratín og karrýpasta og las blöðin. Hélt svo heim á leið, gekk frá innkaupunum, festi upp baðhilluna og raðaði á hana, sótti síðasta fataskammtinn í þurrkarann og gekk frá.

Eftir þetta settist ég á sófann minn, virti fyrir mér verk mitt og sá að það var gott. Því var kominn tími á hvíld, enda klukkan orðin hálf tvö. Ég stillti klukkuna á fjögur til að ég myndi ekki sofa fram á kvöld og taka enn eitt næturæðið, en það gekk ekki betur en svo að ég lokaði augunum í augnablik eftir að klukkan hringdi og raknaði ekki úr rotinu fyrr en klukkan átta í kvöld og vissi þá ekki hvar ég var stödd í heiminum. Ég reif mig þá á fætur, hitaði te og kveikti á kertum og nú vantar bara ekta íslenskt óveður byljandi á glugga, þá væri þetta fullkomið. Mikið líður manni nú vel í svona hreinni og fínni íbúð, með baðhillu!